11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

185. mál, áhrif ákvæðislaunakerfa á heilsufar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mun svara fsp. frá hv. 4. þm. Suðurl. sem spyr:

„1. Hvaða niðurstöður liggja nú þegar fyrir úr könnun sem gerð var að frumkvæði jafnréttisnefndar Norðurlandaráðs á áhrifum ákvæðislaunakerfa á heilsufar launþega?

2. Hverjir hafi kostað þessar rannsóknir?

3. Hvenær mun rannsóknum ljúka?“

Sú könnun sem hv. þm. mun eiga við er könnun sem norræna jafnréttisnefndin tók ákvörðun um að styðja á fundi 1981. Þegar lagt var úr höfn bar könnunin yfirskriftina „Jafnrétti og ákvæðisvinna“. Í lýsingu á viðfangsefni rannsóknarverkefnis segir að markmiðið sé að varpa ljósi á hvernig vinnuhvetjandi launakerfi hafi áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og þróun jafnréttis kynjanna á vinnustaðnum og á heimilum. Gert var ráð fyrir að hér yrði um samanburðarrannsókn að ræða og bornar saman aðstæður í fiskvinnslu, fata- og vefjariðnaði í Danmörku og á Íslandi. Íslenski hluti rannsóknarinnar hefur að mestum hluta verið unninn af Gylfa Páli Hersi og Sigurlaugu S. Guðmundsdóttur.

Niðurstöður íslenska hluta könnunarinnar lágu fyrir í heild sinni þriðjudaginn 4. des. s.l. Áður hafði verið kynntur útdráttur úr niðurstöðum könnunarinnar í formi bæklings sem bar yfirskriftina „Fiskvinnsla. Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður fiskvinnslufólks“. Þessi bæklingur var fyrst kynntur opinberlega á þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var vikuna 26–30. nóv. s.l. Áætlað er að danski hluti könnunarinnar verði kynntur á þingi norrænu embættisnefndarinnar sem fjallar um jafnréttismál, en hún hélt fundi í Osló 9. des. s.l.

Í inngangi skýrslunnar um könnunina kemur fram að aðstandendur hennar töldu, fljótlega eftir að vinna við hana var hafin, nauðsynlegt að beina athygli sinni að vinnuaðstæðum, launakerfum og heilsufari verkafólks í fiskiðnaði, vefjariðnaði og fataiðnaði. Enn fremur var talið nauðsynlegt að rannsóknin tæki til landsins alls, en ekki til höfuðborgarsvæðisins, eins og í fyrstu var gert ráð fyrir.

Aðferðin, sem notuð var við könnunina, byggðist á útsendingu spurningalista til verkafólks í áðurgreindum starfsgreinum. Alls voru sendir út 865 spurningalistar. Endurheimtur voru góðar því 93% þeirra sem fengu spurningalistana endursendu þá útfyllta eða samtals 805. Af þessum 805 svörum voru 72% frá konum og 25% frá körlum.

Samtals voru lagðar 106 spurningar fyrir svarendur. 22 fjölluðu um vinnuna, 10 um launakerfið, 21 um vinnustaði og öryggismálin, 10 um jafnrétti og félagslega virkni, 25 um heilsufar og 16 um persónulega hagi. Hlutur vinnuumhverfisins og heilsufars var því strax stór í könnuninni.

Það síðarnefnda var metið á mismunandi hátt. Mikilvægustu þættirnir sem teknir voru til umfjöllunar í skýrslu um rannsóknina voru: 1. sjúkdómar, 2. veikindafjarvistir, 3. sjúkdómseinkenni, 4. vinnuslys og 5. streita. Í skýrslunni er lýst útbreiðslu algengustu sjúkdóma og sjúkdómseinkenna. Kannað er samband þessara þátta við vinnuhraða, vinnustellingar og aðbúnað á vinnustað. Loks er greint frá sambandi heilsufars og vinnu í afkastahvetjandi launakerfum.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að konur hafa leitað lækninga við 1.7 sjúkdómum að meðaltali, en karlar 1.0. Alls hafa 71% allra fiskvinnslukvenna, sem tóku þátt í rannsókninni, leitað lækninga, en 55% karla á því 12 mánaða tímabili þess sem spurt var um. Það kom í ljós að meðal kvenna er vöðvabólga langalgengust, en alls hefur þriðja hver kona leitað lækninga vegna vöðvabólgu á tímabilinu sem könnunin tók til.

Aðstandendur könnunarinnar telja að tíðni veikindafjarvista segi sína sögu um heilbrigðisástand verkafólks engu síður en fjöldi sjúkdóma og sjúkdómseinkenna. spurt var hversu oft þátttakendur hefðu verið frá vinnu vegna veikinda s.l. 12 mánuði. Að meðaltali höfðu konur verið frá vinnu vegna veikinda 2.5 skipti í samtals átta daga og karlar í 1.5 skipti í samtals 5.7 daga.

Hvað varðar sjúkdómseinkenni kemur fram að konur hafa 4.5 sjúkdómseinkenni, en karlar 2.1. Einungis 14% kvenna hafa ekkert sjúkdómseinkenni og 31% karla. Alls hafa 38% kvenna fimm sjúkdómseinkenni eða fleiri. Mótsvarandi tala fyrir karla er 14%. Í skýrslunni kemur fram, að stærsti flokkur sjúkdómseinkenna er sliteinkenni í stoð- og hreyfikerfi. Alls hafa 52% kvenna sliteinkenni og 29% karla. Þar af eru vöðvabólgur algengastar, en 38% kvenna hafa einhver einkenni vöðvabólgu og 12% karla.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að fimmti hver þátttakandi hefur orðið fyrir einu eða fleiri vinnuslysi. Bent er á að gera megi ráð fyrir að í 1000 manna hópi verði árlega um 30 vinnuslys. Algengast er að fólk skeri sig, en það á við um 33% þeirra kvenna sem orðið hafa fyrir vinnuslysum og 25% karla.

Spurningu um streitu svöruðu 47% kvenna þannig að þær töldu sig vera stressaðar. 34% karla svöruðu spurningunni á sama hátt. Í skýrslunni er vakin athygli á því að hér sé um að ræða sjálfsmat þátttakenda. Alls töldu 38% kvenna sig hafa einkenni vinnustreitu og 35% karla. Vinnustreita vegna vinnuálags er algengust meðal karla. Meðal kvenna væru helstu ástæðurnar þrjár: vinnuálag, launakerfi og persónulegar ástæður. Útbreiðsla vinnustreitu er mismunandi eftir aldri. Hún er algengust á aldrinum 20–29 ára hjá báðum kynjum. Við fertugsaldur verða ákveðin skil meðal kvenna. Yfir 40% af konum 40 ára og yngri hafa vinnustreitu, en 30% af þeim sem eru eldri.

Í skýrslunni er fjallað um sambandið milli vinnu og heilsufars. Í þeim hluta kemur fram að heilsufar kvenna sem vinna á of miklum vinnuhraða eða í óþægilegum skorpum er lakara en heilsufar fiskvinnslukvenna að meðaltali. Enn fremur er heilsufar þeirra kvenna sem annaðhvort þurfa að bogra mikið við vinnuna, lyfta þungum hlutum eða ýta/draga þunga hluti í vinnunni lakara en þeirra sem þurfa þess ekki. Þá leiddi rannsóknin í ljós að heilsufar fiskvinnslukvenna er mun lakara en karla. Heilsufar þeirra sem vinna við slæman aðbúnað er verra en þeirra sem ekki gera það. Heilsufar þeirra sem vinna á of miklum vinnuhraða eða í óþægilegum skorpum er verra en þeirra sem vinna á hæfilegum vinnuhraða.

Niðurstaða rannsókna er sú að heilsufar þeirra sem vinna í einstaklingsbundnari bónus er langverst. Aftur á móti er heilsufar þeirra sem vinna annaðhvort á tímakaupi eða í hópbónus betra en heilsufar fiskvinnslukvenna að meðaltali.

Álit aðstandenda könnunarinnar er það að vinnustreita og smááverkar eru þeir heilsufarsþættir sem sýna skýrast sambandið milli vinnu í einstaklingsbundnari bónus og lélegs heilsufars.

Þetta eru í mjög grófum dráttum helstu niðurstöður könnunarinnar sem fsp. fjallar um.

2. liður fsp. lýtur að því hverjir beri kostnaðinn af rannsókninni. Tveir aðilar hafa veitt fjármagn til þessa verkefnis. Jafnréttisnefnd Norðurlandaráðs studdi verkefnið á árinu 1982 með 216 þús. norskum kr. Árið 1983 fékk verkefnið 153 þús. norskar kr. Þess ber að geta að íslenski hluti verkefnisins fékk helming þessarar upphæðar þegar frá hafði verið dreginn ferðakostnaður og 10 þús. norskar kr. til að standa straum af prentkostnaði. Félmrh. veitti á árinu 1982 280 þús. kr. til verkefnisins og á árinu 1983 350 þús. kr. eða samtals 630 þús. kr.

Svarið við 3. liðnum er að þessari rannsókn er lokið. Ég vil að endingu taka það skýrt fram að ofangreindar upplýsingar eru algerlega á ábyrgð höfunda skýrslunnar. Ég vil enn fremur taka skýrt fram að ekki hefur verið lagt neitt mat á vinnubrögð við gerð skýrslunnar eða efni hennar í félmrn. eða stofnunum sem heyra undir rn. Hins vegar vil ég taka það fram að Vinnueftirlit ríkisins hefur í undirbúningi að gera úttekt á vinnuaðstöðu fiskvinnslufólks. Sú úttekt var raunar ákveðin með tilliti til áðurnefndrar skýrslu. Það er nauðsynlegt að standa að þessum rannsóknum þannig að skipuð verði verkefnisstjórn, sem í eiga sæti aðilar sem málið snertir, sem vinnur með þeim sem framkvæma rannsókn á borð við þá sem hér er til umr.