11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

Afgreiðsla mála úr þingnefnd

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp til að vekja athygli á því og um leið að átelja að þáltill. sem ég flutti ásamt öðrum þm. Alþb. og fjallaði um sérstaka nefndarskipan vegna rekstrarvanda í íslenskum sjávarútvegi hefur nú verið í hv. atvmn. Sþ. í fast að mánuð án þess að vera tekin þar fyrir og í reynd skilst mér að sú nefnd hafi ekki komið saman, utan einu sinni til að kjósa sér formann. Till. þessi fjallar m.a. um aðgerðir sem snerta aðkallandi vanda í íslenskum sjávarútvegi og gert er ráð fyrir nefndarskipan sem skili inn tillögum til lausnar þessum vanda þegar um komandi áramót. Því er ljóst að eigi hún að ná tilgangi sínum þyrfti að hraða mjög störfum úr því sem komið er og annir fara nú vaxandi hér á þingi og þrengist um tíma þingnefnda til starfa. Þess vegna harma ég að tíminn hefur ekki verið betur nýttur í þessu skyni en raun ber vitni. Það er lítt viðunandi, finnst mér sem 1. flm. þessarar till., þegar heill þingflokkur gerir tillögur um mikið og aðsteðjandi vandamál í íslensku atvinnulífi, sem mjög er til umfjöllunar í fjölmiðlum þessa dagana, að till. sem beinlínis snertir þetta mál skuli liggja vikum saman órædd í einni nefnd á hv. Alþingi. Það samræmist illa, verð ég að segja, hugmyndum mínum um þingræðið og um lýðræðisleg vinnubrögð að sú skuli raunin vera.

Í þessari till. er heill þin flokkur að gera tillögur um málsmeðferð í þessu efni. Ég harma það enn og aftur að því skuli ekki meiri gaumur gefinn af þeim sem stýra verkum hér á þingi að heill þingflokkur hefur með þessum hætti sett fram sínar tillögur og lýst sinni stefnu til þessara mála. Ég hlýt því að átelja þessi vinnubrögð og fara fram á að úr þessu verði bætt hið snarasta, herra forseti.