16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við meginefni þeirrar þál. sem hér liggur fyrir og ég tel brýnt að komið verði upp athvarfi fyrir unga fíkniefnaneytendur. Hér er brýnt verkefni á ferðinni, sem ekki þolir bið, og nauðsynlegt að koma upp athvarfi eða leita meðferðarúrræða vegna unglinga sem ánetjast hafa fíkniefnum.

Hv. 2. þm. Austurl., Helgi Seljan, spurði hæstv. dómsmrh. um þá till. til þál. sem samþykkt var á síðastliðnu Alþingi um skipulagðar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Hv. þm. spurði hæstv. dómsmrh. um þær niðurstöður sem skila átti til dómsmrn. og liggja áttu fyrir eigi síðar en 1. mars s.l. Svar hæstv. dómsmrh. gefur mér sérstakt tilefni til þess að koma hér upp.

Í kjölfar þessarar þáltill., sem samþykkt var fyrir jól á s.l. þingi, var strax skipaður samstarfshópur til að gera tillögur í samræmi við efni till. Sá samstarfshópur skilaði tillögum, að ég best veit, fyrir 1. mars s.l. Hópurinn skilaði mjög viðamiklum tillögum sem snertu raunar fleiri þætti en þá sem voru nefndir í þeirri till. til þál. sem samþykkt var hér á hv. Alþingi. Í kjölfar þess að sá hópur leggur fram tillögur sínar er það 20. mars að sex rannsóknarlögreglumenn skila athugasemdum við tillögur starfshópsins. Ég hafði raunar ætlað mér að leggja í dag fram fsp. á Alþingi, sem dreift hefði þá verið á morgun, sem fjallaði um þessa þætti, vegna þess að ég tel nauðsynlegt að hæstv. dómsmrh. geri Alþingi í einstökum atriðum grein fyrir þeim þáttum sem þessi starfshópur komst að niðurstöðu um og á hvern hátt hann hafði hugsað sér að framkvæma þær tillögur.

Hæstv. dómsmrh. upplýsir hér að hann hafi skipað samstarfshóp sem eigi að samræma, að mér skildist, aðgerðir löggæslu og tollgæslumanna í lögsagnarumdæmum og síðan nefndi hæstv. dómsrh. að hann hefði gert athuganir líka varðandi tækjabúnað. Tillögur þessa starfshóps, sem skilaði hæstv. dómsmrh. niðurstöðum, voru mun víðtækari hvað snertir skipulagsbreytingar. Hann gerði tillögur um verkaskiptingu við rannsókn fíkniefnamála, hvað snertir löggæsluna, mannaflann, tækjakost, menntun, skráningu og meðferð upplýsinga, samstarf milli löggæsluumdæma, svo og tollgæslunnar — tækjabúnað og hjálpargögn, um eftirlit með höfnum, menntun tollgæslumanna, aukna samvinnu lögreglu og tollyfirvalda, breyttar rannsóknaraðferðir, alþjóðasamvinnu og hert viðurlög. En hæstv. dómsmrh. nefnir hér í þessari umræðu einungis tvo þætti. Ég er auðvitað tilbúin að bíða þess að hæstv. dómsmrh. svari því og mundi þá leggja formlega fram fsp. ef hann er ekki við þessa umræðu tilbúinn að svara þeim þáttum lið fyrir lið, sem þessi hópur lagði fram. Hvað hyggst hæstv. dómsmrh. gera varðandi þær tillögur sem þar voru lagðar fram? Ef hæstv. dómsmrh. er ekki tilbúinn að svara því núna þá mun ég leggja fram formlega fsp. Ég hefði einnig viljað heyra hvort hann hafi hugsað sér að taka tillit til athugasemda sex rannsóknarlögreglumanna við hugmyndir starfshópsins sem sendar voru dómsmrh. 20. mars og snerta sérstaklega skipulagsbreytingar og tillögur um verkaskiptingu við rannsókn fíkniefnamála.

Ef hæstv. dómsmrh. er tilbúinn að svara þessu núna mun ég að sjálfsögðu ekki leggja fram fsp., en að öðrum kosti verður hún lögð hér fram með formlegum hætti.