11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

45. mál, bætt merking akvega

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka undir þá till. sem hér hefur verið talað fyrir. Ég tel að hér sé um þarft og gott mál að ræða, og vona að hún fái afgreiðslu hér.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á að það ber brýna nauðsyn til að merkja fjallvegi betur en gert er. Það er bæði nauðsynlegt frá öryggissjónarmiði og eins er það nauðsynlegt frá náttúruverndarsjónarmiði því að leiðir sem merktar eru keyra menn, en keyrsla vítt og breitt um öræfin mundi minnka að miklum mun ef merkingar væru betri en nú er.

Það hefur verið rakið hér öryggissjónarmiðið í þessu sambandi. Það er mjög nauðsynlegt að merkja hættulega staði. Ég veit t.d. að sjálfboðaliðar hafa merkt íshellinn í Kverkfjöllum sem er stórhættulegur staður. Menn hafa gengið þar undir lausa ísfleka án þess að depla auga, en nú er þó komið skilti sem sjálfboðaliðar hafa sett upp þar sem bent er á hættuna.

Í þessu sambandi er vert að minna á ferðafélagsdeildirnar sem víða eru starfandi og hafa áhuga. Það væri auðvelt að koma á samstarfi við þessar deildir og til þess að spara kostnað í þessu sambandi ef þær fengju aðeins þau tæki upp í hendurnar sem þær þurfa að nota og þær merkingar tilbúnar sem við eiga. Mér er kunnugt um fjölmarga sem hafa á þessu mikinn áhuga og mundu leggja sitt af mörkum.

Það er t.d. á Austurlandi mikil umferð útlendinga um fjöll og firnindi, eins og oft hefur verið rakið. Þeir koma til landsins með bílferjunni. Ég held að það muni 90% af þessum útlendingum fara eftir þeim leiðbeiningum sem settar væru upp. Auðvitað þarf að hafa hóf á þessu eins og öðru og rata hinn gullna meðalveg, þannig að þeir staðir sem raunverulega eru hættulegir verði merktir. Þá mundu útlendingar fara eftir þessu langflestir. Ég held að þetta sé yfirleitt löghlýðið fólk og fólk sem fer eftir settum reglum. Það er okkar reynsla. Ég vildi því eindregið hvetja til að þessi þáltill. nái fram að ganga.