11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

45. mál, bætt merking akvega

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka þær jákvæðu undirtektir sem till. hefur fengið og taka undir það, sem kom fram í máli ræðumanna, að sjálfsagt er við framkvæmd hennar, ef af verður, að hafa fullt samstarf og samráð við ýmsa aðila, jafnvel þá í sjálfboðavinnu, til að koma þessu verki í framkvæmd. Það gæti enn frekar dregið úr þeim annars tiltölulega litla kostnaði sem ég held að hér sé í húfi.

Ég vil minna á í leiðinni að reyndar eru til fleiri leiðir en akvegir og annars konar umferð en bifreiðaumferð. Þetta mætti að nokkru leyti heimfæra yfir á gönguleiðir sem nú er í vaxandi mæli verið að leggja og merkja um landið. Þar þarf að sjálfsögðu einnig að gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi þeirra sem eftir þeim fara. Því miður höfum við einnig orðið að upplifa óhöpp í þeim efnum á síðustu árum.

En aðalatriðið er í mínum huga að þetta verði gert, hverjir sem það nú gera, og að einhver hafi yfir því umsjón að það sé gert og það sé gert á fullnægjandi hátt.

Ég vil síðan þakka aftur þær jákvæðu undirtektir sem till. hefur hér fengið og vona að þær greiði enn frekar götu hennar í gegnum þingið.