11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

52. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess að af sérstökum ástæðum er tíma mínum þannig háttað að ég get aðeins haft viðdvöl hér í 15—20 mínútur og ef að líkum lætur geri ég ráð fyrir því að fleiri hv. þm. hafi áhuga á að ræða málin. Ég fer þá fram á að umræðunni yrði frestað, ef svo ber undir, en við sjáum til.

Ég sé ástæðu til í sambandi við flutning þessa frv. að gera hér grein fyrir orkusparnaðarátaki sérstöku sem hefur verið í framkvæmd á mínum vegum, en haustið 1983 hófst skipulagt átak á mínum vegum til orkusparnaðar við upphitun á húsnæði. Ég leitaði eftir tillögum í þessum efnum frá tveimur verkfræðingum, Karli Ómari Jónssyni og Guðna Jóhannessyni. Markmið verkefnisins var að kanna hvort og hvernig hægt væri að koma almennri orkunotkun til húshitunar á það stig að upphitunarkostnaður verði neytendum ekki sú fjárhagslega byrði sem raun ber vitni.

Eftirfarandi atriði voru tekin til sérstakrar umfjöllunar:

1. Könnun og samantekt á þeim verkefnum sem þegar hafa verið unnin á þessu sviði.

2. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir lágu verði endurbætur svo og áætlun um heildarkostnað og hagkvæmni miðað við mismunandi hámarksnotkun á rúmmetra.

3. Tillögur um undirbúning verkefnis sem miði að endurbótum á ákveðnum fjölda húsa á næsta ári. Að fengnum tillögum ofangreindra aðila tók ég upp formlegt samstarf við félmrn. um þetta mál. Var ákveðið að hefja sérstakt orkusparnaðarátak til þess að jafna húshitunarkostnað með tilliti til mismunandi orkunýtingar húsa. Þannig skyldi stefnt að því að á næstu árum verði framkvæmdar endurbætur á eldra húsnæði sem miðuðu að bættri einangrun og orkunýtingu. Framkvæmdum skyldi raðað þannig að íbúðarhúsnæði gengi fyrir þar sem hæst orkuverð er til húshitunar, orkunotkun á rúmmálseiningu er yfir ákveðnu marki og hagkvæmar lausnir til orkusparnaðar eru framkvæmanlegar. Til þess að tryggja þátttöku almennings skal veita upplýsingar, tækniþjónustu og hagkvæm lán til framkvæmda.

Ég skipaði þriggja manna nefnd til þess að annast yfirstjórn framangreinds verkefnis. Skyldi verkefnisstjórnin gera áætlanir um framkvæmda- og fjárþörf, skila framvinduskýrslum til rn., samræma störf mismunandi stofnana hér að lútandi og annast samstarf við hagsmunaaðila. Í verkefnisstjórnina voru skipaðir Karl Ómar Jónsson verkfræðingur, formaður, Guðni A. Jóhannesson verkfræðingur og Jóhann Einvarðsson aðstoðarmaður félmrh. Jafnframt var ákveðin verkaskipting milli þeirra stofnana sem helst gætu lagt hönd á plóginn í þessum efnum. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins skyldi annast ýmsan tæknilegan undirbúning framkvæmda svo og könnun á markaði byggingarefna, leggja grundvöll að verklýsingum og útreikningum á hagkvæmni framkvæmda, enn fremur að sjá um menntun sérstakra skoðunarmanna sem væru í stakk búnir til að skoða húsnæði og leggja mat á hagkvæmni einstakra aðgerða, annast einnig fræðslu fyrir byggingarfulltrúa og iðnaðarmenn svo og miðlun upplýsinga til almennings. Húsnæðisstofnun ríkisins skyldi annast lánafyrirgreiðslu í þessu sambandi svo og hafa eftirlit með framkvæmdum. Orkustofnun skyldi afla upplýsinga um orkunotkun frá orkuveitum, sérstaklega með það í huga að finna notendur með óeðlilega háa orkunotkun, annast tengsl við starfsmenn orkuveitna o.fl.

Ákveðið var að hafa sem nánast samstarf í þessum efnum við samtök sveitarfélaga og sveitarfélög, byggingarfulltrúa, iðnaðarmenn, orkuveitur, ráðgjafarfyrirtæki, seljendur og framleiðendur búnaðar sem nýttist í þessu sambandi o.fl. Til þess að styrkja þessi tengsl var skipuð sérstök ráðgjafarnefnd til þess að auðvelda starf og samskipti milli allra ofangreindra aðila. Í ráðgjafarnefndinni sitja fulltrúar frá eftirtöldum stofnunum og aðilum sem eiga hlut að máli: Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Orkustofnun, Húsnæðisstofnun ríkisins, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Sambandi ísl. rafveitna og Sambandi ísl. hitaveitna. Kristmundi Halldórssyni deildarstjóra var falið að annast tengsl við iðnrn.

Við undirbúning þessa verkefnis hefur tekist hið ágætasta samstarf milli þessara aðila, enda þótt framkvæmdir hafi verið langærri og tekið meiri tíma en maður hafði bundið vonir við í upphafi. Hefur verið við það miðað að aðgerðir til hagkvæmari orkunotkunar og orkusparnaðar, sem ráðist yrði í, væru í samræmi við V. kafla frv. til l. um jöfnun húshitunarkostnaðar, sem lagt var fyrir síðasta þing en varð því miður ekki útrætt þá.

Á vegum verkefnisstjórnarinnar hefur verið unnið að skipulegum undirbúningi þessa verkefnis svo og framkvæmdir hafnar sérstaklega á þeim svæðum sem orkukostnaður er hæstur.

1. Gert hefur verið tölvuforrit til að meta hagkvæmni einstakra aðgerða til orkusparnaðar í byggingum.

2. Þjálfaðir hafa verið skoðunarmenn víðs vegar um land til þess að meta og gera tillögur um endurbætur á húsnæði sem hagkvæmastar eru.

3. Hafin er skoðun á völdum húsum sem hafa áberandi háan orkukostnað.

4. Hafin er herferð til að hvetja íbúðareigendur til að breyta frá olíukyndingu í rafhitun.

Í samstarfi við Húsnæðisstofnun ríkisins hafa lánareglur um lán til orkusparnaðaraðgerða verið endurskoðaðar. Veitt eru lán til endurbóta á íbúðarhúsnæði er sannanlega leiða til lækkunar á hitunarkostnaði eða ef skipta skal á olíu og öðrum orkugjöfum til upphitunar húsa. Eftirfarandi lánareglur hafa verið ákveðnar:

a. Lán til breytinga úr olíuhitun yfir í innienda orkugjafa. Lánað er til að skipta úr olíukyndingu í rafhitun eða fjarvarmahitun og getur lánið numið 50 þús. kr. Lánstími er allt að fimm ár, afborganalaust í tvö ár. Vextir og verðbætur greiðast þó á því tímabili. Sérstaklega skal fjalla um hús þar sem fleiri en ein íbúð er svo og um annað íbúðarhúsnæði.

b. Lán til orkusparandi endurbóta. Einungis er lánað til húsa sem skoðuð hafa verið af skoðunarmönnum á vegum verkefnisstjórnarinnar. Skoðunarmenn gera heildaráætlun um allar þær orkusparandi endurbætur sem fyrirhugaðar eru og væntanleg áfangaskipti, fari þær fram í áföngum. Verkefnisstjórnin vinnur að því að finna þau hús sem teljast hafa óhóflega mikla orkunotkun og veitir ráðgjöf um endurbætur. Jafnframt því gefst mönnum tækifæri til að sækja um skoðun ef þeir telja húsin hafa lélega orkunýtingu. Lánin greiðast út innan hálfs mánaðar frá því að framkvæmdum er lokið.

Lánaflokkar eru tveir og skipting í þá er miðuð við heildarkostnað vegna hagkvæmra framkvæmda samkv. áætlun skoðunarmanna.

1. lánaflokkur. Heildarkostnaður er á bilinu 60–120 þús. kr., en lánin geta numið allt að 50% af áætluðum endurbótakostnaði. Ekki er lánað til framkvæmda ef heildarkostnaður er lægri en 60 þús. kr. Lánað er til allt að 11 ára, afborgunarlaust fyrstu tvö árin. Vextir og verðbætur greiðast þó á því tímabili.

2. lánaflokkur. Heildarkostnaður yfir 120 þús. Lán getur numið allt að 80% af áætluðum endurbótakostnaði. Þó má lánið aldrei nema hærri fjárhæð en 50% af lánum til nýbyggingar handa sömu fjölskyldu. Lánað er til allt að 16 ára, afborgunarlaust fyrstu tvö árin. Vextir og verðbætur greiðast þó á því tímabili.

Tæknilegum undirbúningi verkefnisstjórnarinnar er nú lokið, en hann hefur tekið lengri tíma en menn bjuggust við í upphafi. M.a. hefur verið samið forrit í tölvu sem auðveldar og hraðar afgreiðslu á umsóknum.

Verkefnisstjórnin gekkst á s.l. vori fyrir sýningu, í samvinnu við framleiðendur og innflytjendur, á ýmsu efni og aðferðum til orkusparnaðar í íbúðarhúsnæði. Sýning þessi var haldin hjá Byggingarþjónustunni að Hallveigarstíg. Eftir að sýningunni lauk í Reykjavík var farið með hana víða um Vestfirði og reynt að vekja áhuga fólks á þessum málum. Í haust var síðan farið með sýninguna á Norðausturland og Austurland í sama tilgangi og allt til Víkur í Mýrdal, að því er mig minnir.

Gerð hefur verið auglýsingamynd til að hvetja íbúðareigendur til að skipta á olíu og rafmagni og hafa verið hafnar sýningar á henni í sjónvarpinu.

Eins og af þessu sést hefur verið unnið ötullega að þessum málum að undanförnu. Áhersla hefur verið lögð á að hraða breytingu á olíuhitun í rafhitun og fjarvarmahitun og að vanda sem best undirbúning aðgerða til orkusparnaðar á íbúðarhúsnæði.

Hv. 5. þm. Austurl. rakti hér um fjölda lána og annað sem að því laut svo að ég þarf ekki að víkja að því.

Á næsta ári er fyrirhugað að verja 150 millj. kr. til lánveitinga á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins samkv. drögum að lánsfjáráætlun, en iðnrn. lagði til að útvegaðar yrðu 292 millj. kr. í þessu skyni. Framkvæmdir þær, sem hér um ræðir, eru meðal hinna hagkvæmustu sem unnt er að ráðast í. Mikið starf hefur verið unnið á þessu sviði í nágrannalöndum okkar á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að Dönum hefur tekist á s.l. átta árum að minnka nettóorkunotkun sína til húshitunar um 30% þrátt fyrir að hitað húsrými hefur aukist um 25%. Slíkt markmið þyrftum við vissulega að setja okkur á næstu árum.

Ég vil geta þess að verkefnisstjórn telur sig nú hafa komið slíku skipulagi á að óhætt mundi að taka ákvörðun um að gefa út tilkynningu til íbúðareigenda sem kynda húsnæði sitt með olíu að hætt yrði niðurgreiðslum á olíu hinn 1. júlí n.k. Það er talin viðráðanleg framkvæmd að breyta úr olíukyndingu í rafhitun, þar sem framkvæmdin er að sínu leyti einföld og vatnskerfi auðvitað í húsum, að gefa út tilkynningu að niðurgreiðslum á olíu yrði hætt, þar sem kostur er á rafhitun að sjálfsögðu. Þau býli eru til, þau svæði raunar, sem ekki eiga kost á rafhitun, þannig að um það er ekki að tefla, en þá mundi sparast helmingur þeirra niðurgreiðslna sem ætlaðar eru til olíuniðurgreiðslu, en að sjálfsögðu mundi það þá hverfa til þess að greiða niður þá rafhitun sem í stað þess kæmi. Hef ég farið fram á það við hæstv. viðskrh. að framkvæmd þessa máls verði af viðskrn. falin iðnrn. og þá þessari verkefnisstjórn og hann vikist vel undir það.

Ég fékk upplýsingar nýlega, þær munu vera um mánaðar gamlar, um þróun raforkuverðsins til húshitunar í samanburði við kauptaxta, miðað við þau norm eða hvað það á nú að kalla, þau sem við munum hafa sem viðmiðanir, sem sé fjöldi klukkustunda og vinnuvikna til að vinna fyrir 32 800 kwst. í orkukaupum. Þessi þróun er ekki nálægt því eins góð og þyrfti að vera. Hún hefur verið mjög misjöfn til margra ára. Svo ég nefni dæmi tók 7.3 vikur að vinna fyrir húshituninni miðað við þessar viðmiðanir 1971, það tók 8.6 vikur 1974, það tók 9.4 1979, það fór upp í 10.7 árið 1982, en lækkaði mjög vegna niðurgreiðslu sem hafin var, ofan í 8.9. Þetta fór að meðaltali upp í 11.9 á s.l. ári, en lækkaði svo. Miðað við ágústmánuð í ár voru þetta 9.2 vikur, en miðað við nóvembermánuð í ár eru þetta 8.4 vikur.

Ég er ekki að nefna þessar tölur til þess að halda því fram að hér sé nóg að gert. Það er alveg ljóst að hlutur okkar liggur enn eftir í þessu sambandi. Og ég er sammála því, sem fram kom í máli hv. tillögumanns, að mismunurinn á kjörum fólks er mestur hvað snertir þessar aðstæður í húshitunarmálum. Þar er um tvennt að tefla. Það er ákvörðun um gjaldskrá og um orkusparnað, eins og fram kom.

Hann spurði um það hvort rétt hefði verið tekið eftir því í svörum mínum við fsp. vegna Kröfluvirkjunar að áformuð væri 14% heildsöluhækkun hjá Landsvirkjun. Ég get ekki staðfest þessa tölu öðruvísi en svo að ég gerði óformlega fyrirspurn til Landsvirkjunar, hvað þeir álitu að heildsöluverð þeirra þyrfti að hækka t.a.m. miðað við 1. janúar n.k. Svarið, án ábyrgðar, það er ekki nein ákvörðun tekin um það, ágiskun skulum við kalla það, var 14%. Ég kann ekki að meta þessa tölu enn þá. Öll eru þessi mál í athugun nú. Sömuleiðis hef ég gert algerlega óformlega fsp. um það til framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins hver hann áliti að hækkunarþörf Rafmagnsveitnanna kynni að vera á sama tíma. Þær tölur þykja mér ískyggilega háar. En þær eru ekki til þess að hafa þær eftir. Hann taldi þó að mundi verða um 7.4–7.5% hækkun vegna heildsöluhækkunar Landsvirkjunar, ef af yrði, og kemur engum á óvart því það er gamalkunn tala að smásalan þurfi rétt rúmlega helming þess sem heildsöluverðið hækkar um. En þess er að minnast að smásalan fékk enga hækkun til sín vegna óvæntrar hækkunar, vil ég kalla það, Landsvirkjunar um 5%, heildsöluverð, 1. maí s.l. og e.t.v. hefur það hlaðið á sig. Við vitum að hinn helmingur af reksturskostnaði raforkufyrirtækjanna hefur hækkað úið síðustu þróun verðlags og kaupgjaldsmála í landinu. Of snemmt er um þetta að dæma, en ég mun beita mér fyrir því af alefli að hlífa hitunartöxtunum og áfram mun ég vinna að því eftir bestu getu að við reynum að milda þennan háskalega kostnað sem er að sliga heimili í landinu á köldu svæðunum.

Hv. 5. þm. Austurl. spurði um afdrif frv. til l. um jöfnun húshitunarkostnaðar og hví það hafi ekki verið flutt þar sem það varð ekki útrætt á síðasta þingi. Ég get svarað því stutt og á þann veg að um ýmis veigamestu atriði þess máls hefur ekki náðst samkomulag. Ég sá að hæstv. fjmrh. var hér í ráðherraherbergi fyrir skemmstu og kynni hann kannske að geta staðfest þessi mín ummæli. (Gripið fram í: Hann er löngu farinn.) Ég þarf ekki að láta segja mér það vegna þess að ég leit fyrir eins og tveimur mínútum útundan mér og ég kann mann að greina þótt hann sé ábúðarminni en hæstv. fjmrh. er jafnvel. En látum það vera.

T.a.m. þetta okkar stefnumið margra, sem upprunalega var haft uppi, að 1.5 söluskattsstig skyldi hverfa til þess að greiða niður húshitunarkostnaðinn og jafna hann, tókst ekki í fyrstu atrennu né heldur annarri og langt í frá, enda þótt verulegar úrbætur næðust frá því sem hafði til tekist. Við vitum að vegna hinnar hækkuðu orkusölu til stóriðjunnar hefur tekist að lækka raungildiskostnað orkuverðsins frá 1. ágúst 1983, en fram til þess tíma og þá hafði verið um stórfelldar hækkanir að tefla vegna gríðarlegs reksturshalla Íslandsvirkjunar. En það var á þeim forsendum sem tekist hefur að halda orkuverðinu óbreyttu til neytenda frá 1. ágúst 1983 að telja. Það var hugsjón og hugmynd vissulega að halda fast við óbreytt orkuverð, og ef aðrar verðlagsforsendur hefðu ekki breyst stóð að líkindum til að hægt hefði verið að halda því óbreyttu til neytenda út árið 1985, ef þær verðlagsforsendur sem ýtt var úr vör í upphafi fjárlagagerðar 1984, þ.e. í vor leið, hefðu haldist óbreyttar. Nú hef ég ekki enn útreikninga og tölur í höndum um það hversu þessi raungildiskostnaður muni minnka, en hann mun minnka verulega og við það verður fast haldið og alveg sérstaklega í hitunarkostnaðinum. Ég get ekki svarað þessu enn sem komið er.

Ég get heldur ekki svarað því hver niðurstaða verður um fjárveitingu til þess arna. Það er tekist á um ýmis atriði í þessum málum einmitt þessa dagana og munu skýrast fljótlega og koma á daginn t.a.m. í sambandi við þá skýru yfirlýsingu sem ég gaf af hálfu ríkisstj. um lækkun og síðan niðurfellingu verðjöfnunargjalds á raforku, enda yrði fyrir fjárhag og rekstri orkufyrirtækjanna, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, séð með öðrum hætti. Þetta mun sjá dagsins ljós í þessari viku og er of snemmt fyrir mig að upplýsa hvernig þeim málum reiðir af, en að sjálfsögðu verður staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar voru hinn 14. des. 1983 í þessum efnum. En þá, þegar þetta mál kemur til umr., sem ég vil upplýsa að ég mun leita samkomulags um við stjórnarandstöðuna að yrði tekið til umr. í deild á föstudaginn kemur, mun ég skýra öll tildrög og gerð þess máls.

Ég verð að segja það að ég hef orðið fyrir vonbrigðum um gang þessara mála, en það er engin afsökun í því fólgin og áfram verður reynt að halda áfram að ná fram leiðréttingum og sanngirni að því er snertir húshitunarmálin. Það er hrikalegur mismunur á þessum kjörum fólksins í landinu. Ég hef hér skrá um fjölda vikna sem verkamaður á kauptryggingu er að vinna fyrir kyndikostnaði. Þar sjáum við t.a.m. hér í Reykjavík 3.82. Við þurfum ekki nema suður í Bessastaðahrepp til þess að finna 9.59 og í Þorlákshöfn rúmar 8. Við finnum í Vestmannaeyjum 10.6 og á Akranesi og í Borgarfirði 12.6. Þetta er í desember, í byrjun þessa mánaðar. Ég þarf ekki að telja þetta upp, tína það til, en ég veit að fylgi við leiðréttingu þessara erfiðu mála er mjög eindregið á hinu háa Alþingi og ég vænti þess að við munum ná frekari árangri en enn hefur tekist að ná, bæði með lækkun hitunarkostnaðarins og jöfnun og með þeim orkusparnaði, sem ég vona nú að nái á skrið þegar í stað, vegna þess að með þeim hætti verður þeim fyrst og best hjálpað sem örðugast eiga.