12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hafin er sú ganga að lækka tekjuskatt og hugsanlega afnema hann. Ég minni á að það hefur verið stefna Alþfl. mjög lengi að afnema tekjuskatt. Við höfum flutt frv. um það ár eftir ár, en það var loks á síðasta þingi sem menn sameinuðust um að samþykkja till. í þá veru.

Ég hygg að öllum almenningi sé það ljóst að sú leið sem valin er við þessa tekjuskattslækkun er skattskipti — ég held það sjái hvert einasta mannsbarn, hvort sem ráðh. neitar því eða ekki — því á sama tíma og verið er að lækka tekjuskattinn liggja fyrir till. um að hækka söluskatt. Sést á því að hér er um hrein skattskipti að ræða. Við Alþfl.-menn teljum tekjuskattinn mjög ranglátan skatt sem komi mjög misjafnt niður á mönnum. Það fer eftir aðstöðu manna hverju sinni, hvað þeir starfa, hvort þeir eru í atvinnurekstri eða annars staðar, hvort þeir greiða tilskilinn tekjuskatt eða ekki.

Það hefur komið nokkuð til umræðu hér hvort samsköttun eigi að vera við lýði eða ekki. Ég tel að sú breyting sem hér er gerð sé frekar til bóta. Ég vil spyrja: Hvernig vilja hv. þm. leysa þau vandamál sem til staðar eru, að annars vegar er heimili sem er þannig sett að aðeins er ein fyrirvinna sem hefur sæmilegar tekjur og hins vegar heimili þar sem báðir vinna úti, en þessi tvö heimili eru ekki eins sett hvað varðar skattskyldu til ríkisins? Heimili, sem er þannig statt að aðeins annað foreldrið vinnur úti, þarf að greiða hærri skatta. Það geta verið gildar ástæður fyrir því að eiginkona vinnur ekki úti. Það er ekki eins og sumir halda fram bara af leti eða ómennsku. Það getur verið og er mjög oft að viðkomandi hefur fatlað barn til að annast og kemst ekki út af heimilinu. Það getur einnig verið að ómegðin sé það mikil, börnin svo mörg að konan kemst ekki út af heimilinu. Er sanngjarnt að refsa þessu fólki, þessu heimili með því að það þurfi að greiða hærri skatta? Ég vil varpa þeirri spurningu fram hvort menn hafi aðrar leiðir til að leysa þetta vandamál sem vissulega er fyrir hendi og er ótækt að ekki sé tekið á.

Ég vil líka segja að ég er ekki endilega viss um það, hefði maður haft aðstöðu til að fylgjast með því hvernig þessi skattalækkun er útfærð, að við í Alþfl. hefðum samþykkt það eða ekki viljað fara aðrar leiðir. Ég hef ekki átt þess kost að vera í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallar, en þetta mál ber mjög brátt að. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta frv. þrátt fyrir allt og tel það spor í rétta átt.