12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Árni Johnsen:

Hæstv. forseti. Að hamra sífellt á því að konur þessa lands séu kúgaðir þrælar, eins og hv. þm. Sigríður Dúna gerir títt í sínum ræðum, tel ég að sé ekki íslenskum konum til framdráttar. Ég mótmæli slíkum málflutningi. Málflutningur þm. minnir æði oft á ævintýrið um Lísu í Undralandi, svo langt flýgur þm. fyrir utan allt sem heitir raunveruleiki í okkar landi. Þm. vill skipuleggja allt og miðstýra ofan í kjölinn í stað þess að virða rétt allra til ákveðins sveigjanleika, bæði í mannlífi og þjóðlífi í heild.

Hvaða stofnanamál er hv. þm. að tala þegar hún fjallar um vinnuþrælkun kvenna í þessu landi? Væri ekki ástæða til að vanda svolítið notkun orða þegar slíkt er tekið í munn? Í okkar landi er duglegt fólk, konur og karlar, og víst er það að margir þurfa að vinna of mikið, en að halda því fram að hér sé ríkjandi vinnuþrælkun sem meginstefna og meginstaða er fáránlegt.

Þar sem hallar á bæði konur og karla er ástæða til að taka á og rétta við, huga að og bæta úr. En slíkum yfirlýsingum, sem eiga við engin rök að styðjast, að vinnuþrælkun kvenna sé yfirleitt til staðar fremur en karla ber að mótmæla. Þetta er stofnanamál sem verður að útskýrast á íslenskri tungu.

Flest þau mál sem eru til umr. og það frv. sem fjallað er um er spor í rétta átt til að virða þann frumrétt heimilisins að hafa forgang í þjóðfélaginu. Frumrétt hjóna, sambýlisfólks, einstaklinga eða hverju nafni sem þeir nefnast sem halda heimili, til að ráða sjálft sínum gerðum, skipuleggja sjálft verkaskiptingu og annað í því lífi sem fólk vill lifa. Miðstýringarpostuli eins og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir ætti að huga betur að þessum sjálfsagða rétti Íslendinga. Það á að vera réttur fólks að ráða störfum sínum og lífi svo lengi sem ekki sé gengið á rétt næsta manns. Þess vegna er það spor í rétta átt þegar tekið er tillit til þess sem er heimavinnandi gagnvart þeim sem er útivinnandi. Þar er um persónulega verkaskiptingu að ræða í flestum tilvikum. Spor í rétta átt, sagði ég, vegna þess að ég tel það eitt meginmarkmið í þessum efnum í náinni framtíð að koma á því sem kallað hefur verið helmingasköttun hjóna. Að fullt tillit sé tekið til þess aðilans sem sinnir fremur heimilishaldinu á móti þeim sem sinnir verkum utan heimilisins.

Á sama hátt verður að krefjast þess að réttur kvenna til fæðingarorlofs verði jafnaður til fulls, þannig að sama fæðingarorlof sé greitt til konu hvort sem hún er útivinnandi eða heimavinnandi. Það væri kannske æskilegt að slíkar greiðslur færu eftir launum hverrar og einnar móður. En í fyrsta lagi á að jafna þennan mun áður en gengið er lengra í þeim efnum. Konur búa ekki við sama rétt í þessu landi í dag. Fyrsta skylda okkar er að jafna réttinn, eyða misréttinu og jafna fæðingarorlofslögin.