12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

201. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir góða afgreiðslu á því frv. sem hér er til umr., frv. til l. um breyt. á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald, með síðari breytingum, og ætla ekki að hætta mér út í þá almennu umr. sem hefur spunnist út frá þessu litla frv. En ég vil taka undir margt af því sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér. Þær leiðir sem við höfum farið hingað til til lausnar á þeim þjóðfélagsvanda sem við höfum glímt við um nokkuð langan tíma eru augljóslega rangar, en við höldum áfram, við notum sömu gömlu meðulin til að komast út úr sams konar vanda, sem við komum okkur í nokkuð reglulega.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það á þessu stigi, en ég er viss um að það eiga eftir að spinnast hér miklar umr. um þessi mál áður en lýkur. En ég vil taka undir það með hv. þm. að gengislækkanir eru ekki leiðin út úr vanda, auknar álögur eru ekki leiðin. Fjárlög hafa auk heldur ekki verið rétt kynnt. Ég held að kominn sé tími til að taka upp þann hátt sem kynntur er í fjárlögum núna, þannig að á einum og sama stað sjáist vandinn allur, að þm. og þjóðin öll hafi yfirlit yfir fjárlög á einum stað þar sem þau verða auðveldlega borin saman, bæði A- og B-hluti.

Ég vil taka undir það að binding bankanna, og ég hef margoft sagt það, á fé landsmanna er röng. Tek ég sem dæmi að ef verkfæri eru tekin af iðnaðarmanni vinnur hann ekki verkið. Ef peningarnir eru teknir af fólkinu vinna þeir ekki fyrir þjóðina. Ef binding er á peningum hægra megin, en peningarnir leka út á enn þá dýrari vöxtum og enn þá dýrari hátt vinstra megin, þá er það röng ráðstöfun.

Hvað tollskrárbreytingar áhrærir er að mestu lokið þeirri breytingu sem unnið hefur verið að og endurskoðun þar af leiðandi og frv. er í undirbúningi, þannig að ég vona að það dragist ekki mjög lengi að kynna það frv. í þingflokkunum og leggja það síðan fram á hv. Alþingi.