12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til meðferðar í þessari hv. deild er um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nefndin varð sammála um að flytja tvær brtt. við frv. sem birtar eru á þskj. 270. Það er brtt. við 1. gr. um að síðasti málsl. falli niður þar sem segir: „Ráðherra er heimilt að úthluta aflamarki skips sem hverfur úr rekstri“ o.s.frv. Það kemur nokkurn veginn af sjálfu sér vegna þess að lagt er til í frv. að það gildi til þriggja ára, en nefndin er einnig sammála um að leggja til að það ákvæði verði fellt út og lögin gildi til eins árs. Við teljum því ekki að umrædd grein, þessi heimild ráðh., hafi neitt upp á sig vegna þess að þarna er aðeins um eitt ár að ræða. Ef frv. verður að lögum, þá er búið að ganga frá úthlutun til skipa strax um áramót. Ef eitthvert óhapp skeður hjá einhverri vinnslustöð, t.d. ef svo illa tækist til að skip færist eða yrði fyrir einhverjum sérstökum skaða, þá teljum við ekki óeðlilegt að bregðast við því eins og gert var s.l. ár í einu eða tveimur tilvikum þegar bátur fórst við Vestmannaeyjar. Þá var aflamagni hans úthlutað til viðkomandi stöðvar. Við leggjum m.ö.o. til að þessi tiltekna mgr. falli niður af þessum ástæðum.

Einnig leggjum við til að 6. gr. breytist á þá leið að lögin öðlist gildi 1. jan. 1985 og gildi til ársloka 1985. Hef ég þá lýst þeim tveimur brtt. við frv. sem sjútvn. flytur.

Meiri hl. n. skilar sérstöku nál. sem ég ætla að fara yfir:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á sex fundum og einnig haldið tvo fundi sameiginlega með sjútvn. Nd. Kallaðir voru til viðtals við nefndina forstjóri og deildarstjóri Hafrannsóknastofnunar, fulltrúar sjútvrn., fulltrúar Fiskifélags Íslands, formaður Sjómannasambands Íslands, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, formenn stjórna LÍÚ og FÍB og fulltrúar sölusamtaka SÍF, SH og sjávarafurðadeildar SÍS. Einnig kom á fund nefndarinnar fulltrúi smábátaeigenda (atvinnumanna) á Vesturlandi. Viðræður við alla þessa aðila voru hinar gagnlegustu.

Nefndin hefur orðið sammála um að flytja brtt. við frv. og eru þær fluttar á sérstöku þskj. Nefndin gat ekki fallist á að lög þessi skyldu gilda í meira en eitt ár og kom sú skoðun einnig fram hjá flestum viðmælendum nefndarinnar. Að breyttum gildistíma laganna var talið að heimild til handa ráðh. „að úthluta aflamarki skips sem hverfur úr rekstri af hagkvæmnisástæðum eða vegna sjóskaða“ hefði takmarkað gildi.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að miklu leyti samhljóða því frv. er lagt var fram á Alþingi s.l. haust og varð að lögum fyrir ári, lög nr. 82 28. des. 1983, og fjallaði um stjórn fiskveiða árið 1984. Það frv. fékk mjög ítarlega umr.

Nú liggur fyrir að stofnstærð helstu nytjafiska okkar er ekki meiri en fyrir ári að mati fiskifræðinga. Því liggur fyrir að næsta ár verður að grípa til álíka strangra veiðitakmarkana á þessum fiskstofnum og hafa verið í gildi á þessu ári.

Þau lög, sem samþykkt voru fyrir tæpu ári, fólu í sér víðtækari heimildir til sjútvrh. til stjórnar á veiðunum en verið hafði og fólst það einkum í því að setja hverju skipi, sem var yfir 10 rúmlestir, afla- eða sóknarmark í helstu botnfisktegundir. Engum var það ljúft að þurfa að setja á stofn slíkt skömmtunarkerfi og var það duglegum sjómönnum síst að skapi. En við ríkjandi aðstæður gátu menn almennt helst sætt sig við þá stjórnaraðferð sem farin var.

Viðmælendur nefndarinnar nú voru ekki allir á einu máli um það hvort rétt væri að gripa til þessarar stjórnar á veiðunum aftur árið 1985. En öllum bar saman um að framkvæmd laganna um kvótaskiptinguna hefði tekist framar öllum vonum þótt nokkrir hnökrar hefðu verið þar á sem eðlilegt má teljast í svo viðamiklu máli.

Það er ljóst að svo mikil takmörkun á fiskveiðum eins og nú verður að viðhafa á Íslandsmiðum verður aldrei óumdeild og sitt mun hverjum sýnast um stjórnunaraðferðir. Meiri hl. nefndarinnar telur þó að í ljósi aðstæðna sé rétt að mæla með samþykkt frv.

Allir nm. voru sammála um að beina því til sjútvrh. og ráðgjafarnefndar um fiskveiðistjórn að línuveiðar skyldu að hálfu verða utan kvóta mánuðina jan.-febr. og nóv.-des. Almennt er viðurkennt að línuafli sé sérstaklega gott hráefni og því ástæða til að hvetja til aukinna línuveiða með þessum hætti.

Vandi smábáta undir 10 rúmlestum, sem sæta sameiginlegu aflahámarki, var mikið ræddur í nefndinni. Hugmynd kom fram um að heimila þessum bátum að afla sér aukakvóta á síðasta veiðitímabili. Ef þurfa þætti mætti einskorða slíkt aflaframsal við sjómenn sem hefðu smábátaútgerð að aðalatvinnu.

Þá var það einnig til umræðu að stærðarmörkin, 10 rúmlestir, þyrfti að endurskoða og hækka þau upp í t.d. 15–18 lestir með tilliti til þess m.a. að skráðar bátastærðir miðist ekki um of við þessa ákveðnu stærð.

Nefndin leggur á það áherslu að ráðherra og ráðgjafarnefnd taki þessi atriði til gaumgæfilegrar athugunar við setningu reglugerðar.

Að lokum væntir nefndin þess að reglugerðir sem settar verða skv. þessum lögum, verði kynntar sjávarútvegsnefndum Alþingis.“

Þetta er álit meiri hl. sjútvn.

Virðulegi forseti. Þó að nál. meiri hl. sjútvn., sem ég hef farið hér yfir, dragi upp það helsta varðandi þetta frv. ætla ég að bæta við nokkrum orðum til frekari glöggvunar.

Fyrir ári síðan vorum við hér í þessari hv. deild að ræða sama mál, stjórnun fiskveiða fyrir árið 1984. Þetta var ný umr. hér á hv. Alþingi því að fram að þeim tíma hafði það ekki verið tímafrekt í starfi Alþingis að ræða um framkvæmd skömmtunar á veiðum helstu botnfisktegunda í fiskveiðilögsögu okkar. Þetta var svo fjarlægt okkur sem fiskveiðiþjóð, þjóð sem hafði um áraraðir ausið úr þessari gullkistu án þess að láta það hvarfla að sér að ekki væri þarna óþrjótandi uppspretta auðæfa, og ekki lengra síðan en svo að árið 1981 var eitt mesta þorskveiðiár sem við höfum fengið.

En aðvaranir fiskifræðinga voru orðnar svo alvarlegar að við værum að ofveiða þorskstofninn við landið að ekki varð lengur vikist undan því að taka á þessum málum. Samtök aðila í sjávarútvegi mæltu svo nær einróma með því haustið 1983 að sett yrði einhvers konar skömmtun á veiðar helstu botnfisktegundanna við landið árið 1984. Þetta var engum ljúft að gera. Menn gengu treglega til þess verks og auðvitað urðu skoðanir skiptar um það hvernig slíkt skyldi framkvæma. Niðurstaðan varð svo hið svokallaða kvótakerfi sem unnið hefur verið eftir á þessu ári. Eftir þá reynslu sem þar er fengin verður hver að dæma fyrir sig. En mín skoðun er sú að þetta kerfi hafi reynst betur en ég þorði að vona þegar það var sett á. Auðvitað eru á því ýmsir gallar, sem menn sáu ekki fyrir en reynslan hefur leitt í ljós, gallar sem á að vera hægt að sníða af að mestu við setningu nýrrar reglugerðar.

Sú fiskveiðistefna, sem unnið hefur verið eftir þetta ár, var samþykkt til eins árs því menn höfðu þá von, sem nú hefur komið í ljós að var óskhyggja, að hægt væri að létta af stjórnun veiðanna fyrir árið 1985. En því miður virðist svo ekki vera þrátt fyrir stórbætt skilyrði á og í hafsvæðinu kringum landið. Telja fiskifræðingar hættulegt að auka veiðarnar frá því sem lagt var til á þessu ári og leggja til óbreytta tonnatölu af þorski fyrir árið 1985, eða 200 þús. tonn.

Í byrjun þessa árs var ákveðið að miða við að úthlutun þorskafla yrði 220 þús. tonn og út frá þeim forsendum var hverju skipi yfir 10 brúttórúmlestum úthlutað afla eða sóknarmarki. S.l. vor kom það í ljós við rannsóknir fiskifræðinga að skilyrði í sjónum höfðu batnað verulega vegna hlýrri strauma og þar af leiðandi aukinnar átu og ætis svo að meðalþyngd einstaklinga í þorskstofninum hafði aukist um 10–15%. Eftir þessa niðurstöðu var ákveðið að bæta 10% við áður útgefinn aflakvóta. Einnig voru leiðréttar skekkjur sem komu í ljós við útreiknað upphaflegt aflamark skips. Einnig var heimiluð tilfærsla á ódýrari aflategundum sem skipi hafði verið úthlutað og mátti breyta því í þorsk með ákveðinni prósentuskerðingu. Að því viðbættu var úthlutað 257 þús. tonnum af þorski á árinu. Skv. þeim upplýsingum sem ég hef nýjastar má ætla að heildarþorskveiði okkar árið 1984 verði 265–270 þús. tonn þegar öll sú tilfærsla sem heimiluð var, hefur verið nýtt.

Eins og ég sagði áðan hafa fiskifræðingar lagt til að þorskafli næsta árs verði 200 þús. tonn, eða það sama og þeir lögðu til fyrir þetta ár. En skv. frumdrögum að reglugerð, sem sjútvn. hafði til skoðunar á síðustu fundum, er lagt til af hálfu ráðherra og ráðgjafarnefndar að leyfð þorskveiði á næsta ári verði um 250 þús. tonn. Má því ætla að heildarveiði næsta árs verði lík og í ár þar sem leiðréttingar á einstök skip ættu að minnka vegna þeirrar reynslu sem liggur fyrir á þessu ári.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. voru allmargir fulltrúar hagsmunasamtaka í sjávarútvegi boðaðir á fund nefndarinnar auk fulltrúa frá Hafrannsóknastofnun og sjútvrn. Viðmælendur þessir voru að meiri hluta sammála því að það fyrirkomulag, sem notað var við stjórnun veiðanna þetta ár, hafi reynst mun betur en þeir þorðu að vona í byrjun. Meiri hl. þeirra var því þess vegna meðmæltur að líkt kerfi yrði látið gilda 1985 í ljósi þeirra staðreynda er fyrir lægju um ástand þorskstofnsins. Að meiri hluta voru þeir á móti því að lög þessi giltu í þrjú ár eins og kveðið er á um í frv. og áður er um rætt.

Í nefndinni var mikið rætt um vanda smábátanna og hvernig þeir gætu fallið sem best að þessu kerfi. Bátar undir 10 brúttórúmlestum hafa fiskað úr sameiginlegum kvóta en bátar 10–20 brúttólestir fiskað undir sérstöku afla- eða sóknarmarki miðað við hvern bát. Þarna hafa orðið ákveðnir árekstrar og mismunun, t.d. þegar báturinn sem mældist 9.9 tonn gat fiskað óheftur úr sameiginlegum kvóta, en 10 tonna báturinn varð að hlíta sínu aflamarki. Þessi mál þarf að skoða betur við reglugerðarsetningu. Bendir nefndin á að ekki væri óeðlilegt að miða við hærri mörk en 10 tonn og fara jafnvel upp í 15–18 tonna mark. Því má bæta hér við að 10–18 tonna bátar eru 110–115 talsins og aflamark þeirra, sem úthlutað var, um 4000 tonn af þorski, tæp þó.

Það sem styður einnig að þessi breyting verði gerð er það að menn leita allra ráða til að miða stærð smábáta við tæp 10 tonn í nýbyggingu og með breytingum, en það er miður æskileg þróun. Einnig skal á það bent að greinarmun þarf að gera á því hvort menn stunda veiðar á þessum smábátum sem aðalatvinnu eða sem sportmenn. Og ef til sérstakra takmarkana kemur á veiðiheimildum þessara báta, eins og skeði nú á nýliðnu hausti, þá þarf að takast fyrr á við þau vandamál en gert var þá. Stafaði það af sérstökum ástæðum, verkfalli sem þá var yfirstandandi, að útreikningar lágu ekki fyrir. Þá þyrfti strax að kippa sportveiðimönnum út úr dæminu svo að hinir gætu nýtt sinn tíma betur.

Í nefndinni kom mjög skýrt fram að efla skyldi veiðar á línu. Leggur nefndin til við ráðh. og ráðgjafarnefnd að veiðar á línu skuli undanþegnar kvóta að hálfu í fjóra mánuði á árinu, jan.-febr. og nóv.-des. Enginn efast um hin sérstöku gæði línuafla og einnig gæti slík ráðstöfun orðið til þess að jafna atvinnu í landinu í þeim mánuðum sem eru hvað erfiðastir á því sviði.

Eitt er enn sem ég vildi benda á í sambandi við samningu væntanlegrar reglugerðar. Það er hin svokallaða 25%-regla. Í gildi eru þær reglur að ef skip siglir með afla á erlendan markað, þá er aflakvóti þess minnkaður um 25%, eða réttara sagt lögð 25% ofan á landaðan afla. Þetta var gert aðallega til þess að draga úr siglingum skipa með afla á erlendan markað. Nú hefur í vaxandi mæli verið tekinn upp útflutningur á ferskum fiski í gámum. Þessi fiskur kemur annaðhvort beint úr bátum eða frá fiskiðjuverum. Engin skerðing nær til þeirra skipa sem eiga afla í þessum gámum enda mjög erfitt að koma því við. Því er það réttlætismál að hinni svokölluðu 25%-reglu verði aflétt af siglingaskipunum. Þetta er sett hér fram til ábendingar vegna væntanlegrar reglugerðar því að þarna er að verða veruleg mismunun vegna aukins gámaútflutnings.

Virðulegi forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu. Við stöndum hér frammi fyrir sama vandamáli og fyrir ári síðan vegna ástands fiskistofnanna við landið. Fyrir ári síðan var samþykkt stjórnunaraðferð við veiðar á árinu 1984. Þessi aðferð varð umdeild, en í ljósi reynslu þessarar stjórnunar hefur mikill meiri hluti þeirra hagsmunaaðila, sem um þessi mál hafa fjallað, lagt til að sami háttur verði á hafður á næsta ári. Í ljósi reynslunnar verði í auknum mæli valkostur á milli afla og sóknarmarks. Það er engum ljúft að þurfa að viðhafa höft eða miðstýringu í þessum málum, en við ríkjandi aðstæður verður að taka staðreyndum. — [Fundarhlé.]