12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Minni hl. sjútvn., sem skipa ásamt mér hv. þm. Skúli Alexandersson og Stefán Benediktsson, hefur gert svofellt nál. sem rökstuðning fyrir því að við leggjum til að þetta frv. verði fellt, með leyfi forseta:

N. hefur fjallað ítarlega um frv. og fengið fulltrúa ýmissa hagsmunasamtaka til viðræðu um efni þess. Frv. er mjög hliðstætt því frv. sem samþykkt var á síðasta þingi. Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á því sem undirritaðir telja til bóta í ljósi reynslunnar. Aðrar breytingar teljum við hreina fjarstæðu, t.d. þá að lögin gildi næstu þrjú árin. Í n. náðist fullt samkomulag um að stytta gildistímann niður í eitt ár.

Fram kom í n. sú skoðun að ástæðulaust væri að hafa allar fisktegundir háðar aflamarki. Tilgangur frv. væri að takmarka þorskveiðar og því ástæðulaust að hafa allar fisktegundir háðar aflamarki og eðlilegt að binda aflamark við þá fisktegund.

Einnig komu vandamál smábátaeigenda mjög til umr. Voru nm. sammála um nauðsyn sveigjanleika hvað varðar veiðiheimildir þeirra. Þrátt fyrir ákvörðun minni hl. n. að standa að brtt., sem gera frv. skárra, eru undirritaðir andvígir frv. í heild og leggja til að það verði fellt. Sú afstaða byggist í fyrsta lagi á þeirri miðstýringu sem felst í frv. þar sem dugnaður og framtak einstaklinga er heft meira en góðu hófi gegnir. Það vakti sérstaka athygli undirritaðra hve fulltrúar Sjálfstfl. eru ákveðnir í að viðhalda þeirri óheftu miðstýringu sem átt hefur sér stað allt þetta ár. Í öðru lagi teljum við það rangt að fela ráðh. að marka aðalatriði fiskveiðistefnu. Sú stefnumörkun á að vera Alþingis. Í þriðja lagi er reynslan af þessu fyrirkomulagi slík að ekki er hægt að mæla með framlengingu þess.

Undirritaðir nm. munu flytja brtt. á sérstöku þskj. sem miði að því að bæta úr ágöllum frv. og liggja þær hér fyrir.“

Það er ýmislegt sem við höfum við þetta frv. að athuga líkt og á síðasta þingi. Við teljum, eins og fram kemur í nál., það höfuðókost hve framtak einstaklinga er heft með því. Hér er tekin upp miðstýring sem er meira í ætt við hugsunarhátt Stalíns sáluga en íslenskra sjálfstæðismanna að mínu mati. En það er nú svo að á mörgu verða endaskipti og er merkilegt að það skuli hafa átt sér stað með þá sem hér í ræðustól telja sig oft mikla andstæðinga miðstýringar eins og þeir kalla það. En nú er séð að þeir hafa snúið við blaðinu. Það er mjög merkilegt og hefur orðið okkur hinum mikil vonbrigði hvernig það hefur skeð.

Þessi leið, sem farin er hér, verður að okkar mati til mikillar óþurftar fyrir íslenska fiskimenn og gerir lítið gagn til stjórnunar fiskveiða. Við fengum allmarga til viðræðu í sjútvn. og því er ekki að leyna að þeir, sem þangað komu, voru flestir á því að halda þessu áfram. En þó fundust vissulega skynsamlegar raddir þar á meðal, einkum frá sjómönnum sjálfum, bæði hvað varðar togaraútgerð og almenna fiskimenn. Þar kom fram hugmynd sem ég tel vert að skoða mjög ítarlega og er þess efnis að veiðunum verði skipt niður í þrjú veiðitímabil og sóknarmark notað. Talið er að hægt verði að stýra þeim eftir þeim leiðum á miklu eðlilegri hátt en nú er gert.

Ég gæti talað lengi um það hvernig þetta frv. yrði í framkvæmd. En mér skilst að tími sé naumur eða a.m.k. minn tími sé naumur og því sleppi ég því í þetta sinn. En ég hygg líka að þótt ekki yrði alveg horfið frá þessu kvótakerfi eða þessari miðstýringu, sem hér er gerð till. um, mætti hugsa sér að blanda því meira saman en gert er. Það mætti hugsa sér að sóknarmark væri notað fyrstu mánuðina fram í maí. Þá yrði að hugsa til þess að leyfa veiðar á 70–72% af þeirri heild sem leyft yrði að velja en síðan yrði dæmið gert upp þegar því væri lokið.

Það er ýmislegt sem fram hefur komið af reynslu þessa kerfis nú og þá hneigist maður til að lita á heimahagana ef svo mætti segja. Svo er komið suður á Suðurnesjum að skip og bátar hafa verið seldir þaðan í miklum mæli og þeim fylgir kvóti sem er rúmlega 9 þús. tonn. Á sama tíma eru nú á þriðja hundrað manns atvinnulausir á Suðurnesjum. Þetta verður til þess að maður spyr: Er réttlætanlegt að standa svona að málum? Er eðlilegt að mönnum sé heimilt að selja sinn kvóta í raun eða með sínum skipum til annarra byggðarlaga og skilja síðan fólkið eftir atvinnulaust í sínum heimabyggðum? Ég vildi spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvernig þessu vandamáli verður mætt eða hvort meiningin er að horfa á þessa hluti ske án þess að nokkuð verði að gert. Ég sé fyrir mér að ef allt þetta magn, sem nú hefur verið selt í burtu — ég vil kalla það það-frá Suðurnesjum, nýtist ekki hjá okkur blasir við enn meira atvinnuleysi en nú er orðið, því miður.

Það hefur líka verið nokkuð rætt varðandi þetta frv. að það hefði haft í för með sér umtalsverða breytingu á gæðum fisks. Ég vil minna á að það eru deildar meiningar um það hvort það sé lögunum, þessu miðstýringarkerfi, að þakka eða öðru. Sjómenn halda því fram beinlínis að þetta sé kannske ekki síst vegna þess að gæftir hafi verið betri en áður. Ég tel að stefna þurfi að enn meiri gæðum fisksins og ég hygg að það væri skynsamleg leið að stýra því á þann hátt að bil milli verðflokka yrði meira en nú er. Það mætti gjarnan vera þannig að 2. flokkur yrði ekki nema 70% af 1. flokki og 3. flokkur ekki nema 50%. Ég hygg að það yrði vænlegri leið til að stýra gæðum fisks en nú tíðkast.

En ég tek fram að þrátt fyrir það að við höfum leikið okkur að hugmyndum um aðra skipan þessara mála þá verði að taka tillit til þess að okkur er mjög óhægt um vik að festa í tillöguform slíkar breytingar vegna þess að við höfum ekki aðgang að þeirri ráðgjafarnefnd sem um þetta fjallar og hlýtur að sitja inni með mestar upplýsingar. Við teljum reyndar að það sé eðlilegt að Alþingi fjalli meira um þetta mál en gert hefur verið og þm. séu því ábyrgari fyrir því hvað hér er að ske varðandi stjórnun fiskveiðanna en nú er þar sem ráðh. ásamt þessari ráðgjafarnefnd, einkum þó ráðh. er falið alræðisvald í þessu máli.

Við teljum þessa leið slæma leið, vonda leið, sem hefur margar hættur í för með sér og verði íslenskum sjávarútvegi til tjóns þegar upp er staðið. Því leggjum við til að þetta frv. verði fellt.