12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Mér var sagt — og ég er nú alltaf að læra eitthvað nýtt á hæstv. Alþingi — að ekki mætti egna stjórnarandstöðu í umr. sem þessum. Hins vegar mætti stjórnarandstaðan mjög gjarnan egna þessa vesalings stjórnarsinna. Þó verð ég að segja að langt er seilst og erfitt að kyngja því þegar Stalín sjálfur er kallaður til samlíkingar við okkur sem hér stöndum.

Það sem við, sem aðhyllumst þessa leið til fiskveiðistjórnunar, erum fyrst og fremst að hugsa um er að komið verði á leið til að hindra rányrkju fiskimiðanna í kringum Ísland. Óheft nýting auðlinda á sameignargrundvelli leiðir alltaf til ófarnaðar. Fyrr eða síðar kemur að því að þessa auðlind þrýtur, en það viljum við forðast. Hvort þetta hér er meiri miðstýring en t.d. skrapdagakerfið, sem mér virðist að sumir stjórnarandstæðingar aðhyllist, skal ég ekki segja um. Ég held að hér sé þó nokkuð mikið val manna eftir þeim leiðum sem boðið er upp á. Ég skil ekki sumt af því sem lagt er til í brtt. minni hlutans. Mér sýnist þó alveg augljóst að eftir þeirri aðferð verður ekki stjórnað næsta ár. Reyndar fannst mér hv. þm. Skúli Alexandersson ekki vera að tala sérstaklega á móti kvótaskiptingu. Hann var fyrst og fremst að tala um hvernig beita mætti kvóta til hagsbóta t.d. fyrir Snæfellsnes norðanvert.

Kostir kvótakerfisins tel ég alveg ákveðið hafi komið í ljós á þessu ári, þrátt fyrir að þess sé varla von á svo stuttum tíma. Menn hafa varla áttað sig á þessu. Það er staðreynd að gæði ferskfisks, landaðs afla, voru betri í ár en áður. Við getum deilt um það endalaust hvort gæftir hafi verið góðar, hvort það var marklaust fiskmat og þar fram eftir götunum. En það er staðreynd að sala í veiðarfærum er miklu minni í ár, helmingi minni í netum að sagt er. Það getur verið að menn hafi átt miklar birgðir síðan í fyrra og þetta sé þar af leiðandi marklaust. Það er staðreynd að sókn togara er u.þ.b. 8 eða 10 togaragildum minni í ár í botnfisk. Hvort það sé af einhverjum öðrum orsökum getum við deilt um. Og síðast en ekki síst helst botnfiskaflinn nokkurn veginn innan þeirra marka sem sett voru eftir þær tilslakanir sem búið var að gera og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. gat um áðan.

Ég ætla ekki að fara að tala um gæðaeftirlit Long John Silver’s, sem beinist náttúrlega fyrst og fremst að ormum og beinum eins og hv. þm. Skúli Alexandersson veit og hefur því miður ekkert með kvótaskiptingu afla að gera. Og ég veit ekki hvort ræða má mikið um reglugerðina, reyndar eru þetta aðeins drög enn þá, en hins vegar hafa þau reglugerðardrög verið kynnt, m.a. í ræðu hæstv. ráðh. á þingi LÍÚ, og ég tel flest þar horfa til bóta.

Ég tel að fram hafi komið það sem við vildum í sjútvn., reyndar allir, að betur yrði gert í meðferð ráðgjafanefndar og rn. við setningu reglugerðar. Sérstaklega tel ég hafa orðið til bóta að rýmkaðir séu möguleikar til sóknarmarks. Þeir voru of þröngir í fyrra. Ég tel það mjög vænlegan kost nú fyrir marga duglega aflamenn að notfæra sér þá möguleika sem boðið er upp á með rýmkuðu sóknarmarki.

Framsalið er umdeilt, það er rétt. Framsal á afla á milli skipa og á milli staða er umdeilt. Hins vegar hafa hátt í 300 slík viðskipti átt sér stað. Væntanlega hafa tekið þátt í þeim helmingi fleiri aðilar, þ .e. kaupendur og seljendur, og ég get ekki almennilega skilið að fortakslaust allir séu á móti því, eins og kom fram hjá einhverjum ræðumanni áðan.

Ég sé ekki ástæðu til að tefja þetta mikið meir og ég vona, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, að ég hafi ekki egnt stjórnarandstöðuna um of.