17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

57. mál, almannatryggingar

Flm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Á þskj. 57 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem er aðeins ein grein fyrir utan gildistökugreinina, en það er að 6. mgr. 45. gr. laganna hljóði svo:

„Dagpeningar vegna starfa við eigin heimili, sem falla að fullu niður vegna veikinda, skulu nema hámarksupphæð hverju sinni“.

Í grg. segir svo, með leyfi virðulegs forseta: „Heildarendurskoðun tryggingalöggjafar okkar hefur lengi staðið yfir, enda um viðamikið verkefni að ræða og mörg vandasöm og viðkvæm atriði sem upp koma.

Eitt þeirra atriða sem þar hljóta að vera ofarlega á blaði til athugunar og breytinga varðar sjúkradagpeninga. Þeir eru ekki háir í dag, létta aðeins undir, en skipta í engu sköpum þegar um lengri veikindi er að ræða og aðrar samningsbundnar greiðslur hafa fallið niður eða minnkað stórlega.

Hér er aðeins hreyft við einum þætti sem óneitanlega hefur legið eftir og þar koma ekki inn í myndina neinar samningsbundnar greiðslur svo sem atvinnurekanda viðkomandi. Því er ástæða til að taka þann þátt út úr og skoða sérstaklega meðan ekki liggur fyrir niðurstaða heildarendurskoðunar.

Ekki þarf að tíunda hér í hve mörgum greinum hlutur heimilisstarfa er vanmetinn í þjóðfélaginu. Vinnuframlagið þar, yfirgnæfandi innt af hendi af húsmæðrum, virðist oft til fárra fiska metið og margar fáránlegar viðmiðanir uppi hafðar þar þó að enginn neiti þýðingu og gildi þessara grundvallarstarfa. Réttindi tengd þessu vinnuframlagi eru fá og smá. Mismununin kemur víða fram, en einn alvarlegasti þáttur hennar snertir sjúkradagpeninga.

Á valdatíma Magnúsar Kjartanssonar sem tryggingaráðherra varð hér á veruleg leiðrétting og vissulega er um talsverða uppbót að ræða vegna sannaðrar heimilisaðstoðar í núgildandi lögum sem ber að meta. Hins vegar mun ekki mjög mikið um það að um þetta sé sótt, enda talsverð skriffinnska sem þar er eðlileg forsenda greiðslna. Flm. er a.m.k. kunnugt um allt of mörg dæmi þess að 1/4 dagpeninga, svo sem aðalreglan er, sé látin nægja. Einsýnt þykir því að greiða fulla dagpeninga vegna veikinda þeirra sem stunda heimilisstörf og þegar að sverfur í þjóðfélaginu eins og nú hefur sannanlega gert um sinn verður leiðrétting meira krefjandi og nauðsyn hennar enn brýnni.

Flm. er fullkunnugt um ýmsa agnúa á lögum um almannatryggingar sem snerta sjúkradagpeninga, m.a. mismunun eftir því hvort viðkomandi er í hlutastarfi eða fullu starfi. Vel mætti hugsa sér að sníða þá agnúa af einnig og allir án undantekninga fengju fulla dagpeninga í veikindum sínum.

Minna má sérstaklega á konur í sveit og réttindi þeirra, bundin vinnuframlagi í verðlagsgrundvelli eða viðmiðun vegna vinnustunda á skattframtölum, sem enga sanngjarna mynd gefa af raunveruleikanum en rýra í mörgum greinum sjálfstæðan rétt svo sem fæðingarorlofið er gleggst dæmi um. Að mörgu er því óneitanlega að huga, en til að koma þessum einstaka þætti á hreyfingu í jafnréttisátt er frv. þetta flutt.“

Ég hefði gjarnan viljað fylgja þessu eftir með ítarlegri tölum og upplýsingum, en aðstæður í þjóðfélaginu valda því að í dag eru þær ekki tiltækar. Hefði þó verið full ástæða til að fara nokkrum orðum um sjúkradagpeningana í heild, hlutverk og markmið þessara greiðslna, hversu misjafnt vægi þær hafa í afkomu og aðstöðu allri. Sömuleiðis hefði verið fróðlegt að hafa nú við höndina upplýsingar um hverju greiðslur fyrir heimilisaðstoð skv. núverandi lagastoð hafa numið og enn fróðlegra að sjá hvar þeim greiðslum hefði verið sleppt eða þær ekki inntar af hendi vegna þess einfaldlega að sú skriffinnska sem þar liggur eðlilega að baki hefur vaxið fólki í augum, óþarflega mikið þó. En þær tölur mun ég fá inn í hv. nefnd sem þessu verður vísað til. Þá gefst kostur á að kynna sér tilhögun og framkvæmd þessara mála.

Aðeins vil ég geta um tilurð þessa frv. Á ferðum mínum um mitt kjördæmi hefur verið að þessu vikið við mig sem brýnu máli til athugunar og einhverrar úrlausnar. Mörg slæm dæmi og raunar átakanleg fjárhagslega mætti þar rekja, en oft var þar um að ræða að fólk nýtti sér ekki þá möguleika sem lögin þó bjóða upp á í dag. Vitna ég þá til þess sem segir í 6. mgr. 45. gr. þessara laga um sannaðar greiðslur fyrir heimilishjálp utan heimilis og sömuleiðis um ákveðin útgjöld sem skulu sönnuð með skýrum, kvittuðum reikningum með tilgreindum vinnutíma, greiddum launum og öðru slíku sem fólki óneitanlega vex svo mjög í augum að það sleppir þessu frekar en að sækja sinn rétt. Um það veit ég að eru allt of mörg dæmi, t.d á þeim stöðum þar sem ég þekki til.

Einmitt þetta hefur valdið því að eftir að frv. þetta var flutt hefur mér verið bent á að þar sem ýtrasta heimilisaðstoð væri greidd skv. lögum eins og þau eru í dag gæti hér orðið um skerðingu að ræða. Það mál þarf sannarlega að skoða og þá úr því að bæta. Aðalatriðið er þó í mínum huga það jafnréttissjónarmið að í stað 1/4 dagpeninga vegna heimilisstarfa verði dagpeningar greiddir að fullu. Það á að vera meginatriðið í viðurkenningu löggjafans á þessum störfum. Hins vegar þarf heimilisaðstoð um lengri tíma að skoðast sérstaklega með öðrum hætti, en sem meginreglu verðum við að hafa að fullum dagpeningum sé náð í hverju lágmarkstilviki.

Þetta atriði eitt sér vegur ekki þungt í tryggingakerfinu. Sjúkradagpeningar eru ekki háar upphæðir. En það er ákveðið prinsippmál, ef svo mætti segja, sem ég vildi gjarnan koma hér inn, stutt óskum ótal margra sem hafa átt frumkvæði að því að hreyfa þessu máli og telja það aðalatriði að hér sé jafnræðis og jafnréttis gætt. Því er þetta frv. flutt.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, virðulegi forseti, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.