12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

176. mál, lyfjadreifing

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. heilbr.- og trn. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt, en einn nm., hv. þm. Guðrún Helgadóttir, skrifar undir með fyrirvara. Þetta frv. er flutt til þess að breyta til fyrra horfs skipan stjórnar Lyfjaverslunar ríkisins. Við gildistöku laga nr. 76/1982 færðist yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins frá fjmrn. yfir á heilbr.- og trmrn. Var þetta m.a. byggt á því að um svo mikilvægan hlekk væri að ræða í þjónustu við heilbrigðisstofnanir að eðlilegt væri að stjórnun þessara mála væri undir heilbrrn. Hins vegar kom í ljós að tengsl þessarar stofnunar við fjmrn. og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðu alla tíð verið mjög mikil. Og það hefur orðið reynslan á þessum tíma síðan þessi breyting var gerð að talið er óráðlegt að slíta þessi tengsl og að betur sé séð fyrir rekstrinum í tengslum við rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Það hefur orðið samkomulag milli þessara tveggja rn., heilbrrn. og fjmrn., að yfirstjórn á rekstri stofnunarinnar færist aftur til fjmrn., og að heilbr.- og trmrn. tilnefni einn mann í stjórn, þ.e., eins og segir í athugasemdum við frv., lögð eru til hlutverkaskipti milli þessara tveggja rn.

Þetta var ekki gert að óathuguðu máli því að hæstv. heilbrrh. skipaði á s.l. ári starfshóp til að taka út starf þessarar stofnunar. Þessi starfshópur skilaði nú á miðju ári áliti sínu sem er ítarlegt og er í sex liðum. En megintill. starfshópsins eru í fyrsta lagi að það geti alls ekki talist ráðlegt að leggja starfsemi Lyfjaverslunar ríkisins niður eða selja stofnunina öðrum og því er lagt til að stofnunin verði rekin áfram á vegum ríkisins.

Í öðru lagi lagði þessi starfshópur til, eins og hér segir í frv., að Lyfjaverslunin yrði aftur felld undir fjmrn. Er það talið m.a. eðlilegt vegna fyrrnefndrar röksemdafærslu um tengslin milli Lyfjaverslunar og Áfengisverslunar. Einnig það að heilbrrn. er með faglegt eftirlit með þessari stofnun og á í samræmi við það bæði að meta og gagnrýna framleiðsluaðstöðu og umhverfi með tilliti til heilbrigðis, hreinlætis og öryggis, með núverandi skipan. Má því segja að heilbrrn. sé með vissum hætti eftirlitsaðili með sjálfu sér eða eigin starfsemi.

Í þriðja lagi lagði starfshópurinn til að þessum fjárhagslegu tengslum Lyfjaverslunar ríkisins við Afengisverslun ríkisins verði slitið í framtíðinni. Það mun ekki hægt alveg á næstunni en það mun verða stefnt að því.

Í fjórða lagi lagði hópurinn til að gerð yrði úttekt á þörfum Lyfjaverslunar ríkisins hvað tölvubúnað varðar og það verk er falið ráðgjafa utan ríkiskerfisins. Fram kom í 5. lið í áliti þessa starfshóps að í ljós hefur komið að bæði Innkaupastofnun ríkisins og Lyfjaverslun ríkisins hafa annast innflutning hjúkrunarvara og sjúkragagna fyrir sjúkrastofnanir ríkis og sveitarfélaga án þess að hafa með sér ákveðna verkaskiptingu, eins og segir í áliti þeirra. Þeir leggja til að þessi þáttur verði kannaður sérstaklega.

Í síðasta lagi bendir starfshópurinn á þörf ýmissa endurbóta á rekstri Lyfjaverslunar ríkisins og er það til athugunar hjá viðkomandi aðilum.

Eins og fram kemur í nál. okkar á þskj. 257 mælir heilbr.- og trn. með að frv. verði samþykkt óbreytt.