12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. heilbr.- og trn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu. Nál. er á þskj. 258 og rita undir það auk mín hv. þm. Pétur Sigurðsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Guðmundur Bjarnason. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það er komið frá hv.

Ed. Hv. þm. Friðrik Sophusson var fjarverandi afgreiðslu málsins. Minnihlutaálit hefur komið fram frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Guðrúnu Helgadóttur. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir flytur brtt. um skemmri frest en segir í frv. Mun hv. þm. væntanlega gera grein fyrir sínum sjónarmiðum hér á eftir.

Eins og komið hefur hér fram við 1. umr. málsins gerir þetta frv, ráð fyrir því að frestur til að koma á hinu svo kallaða heilsugæslukerfi í Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæmum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði skuli standa til ársloka 1985 í stað þess sem gert er ráð fyrir í lögum að fresturinn standi til ársloka 1984. Ástæður þess að þessu heilsugæslukerfi hefur ekki verið komið á í nefndum heilsugæsluumdæmum og Reykjavíkurlæknishéraði, eins og lögin gera ráð fyrir, eru vafalaust margar, en ég hygg þó að fyrst og fremst megi kenna um fjárskorti bæði hjá ríkinu og hjá sveitarfélögunum. Ég nefni þó einnig að ýmsum hefur sýnst sem þetta kerfi ætti ekki eins við í þéttbýlinu og í hinum dreifðu byggðum. Þær skoðanir hafa einkum komið upp í hópi sveitarstjórnarmanna og vegna þess var það að forsvarsmenn sveitarstjórnarmála á höfuðborgarsvæðinu komu til fundar í heilbr.- og trmrn. á s.l. vori til að ræða skipulagningu heilsugæslunnar á svæðinu með hliðsjón af þeim fresti sem ákveðinn var og er í gildandi lögum. Á þessum fundi komu fram ýmis tormerki varðandi skipulagninguna og, eins og ég sagði áðan, raddir sem töldu heilsugæslukerfið ekki eiga við á þessu svæði.

Eins og segir í grg. með frv. ákvað rn. í framhaldi af þessum fundi og í samráði við sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu að setja á fót nefnd til að gera till. um skipan mála innan svæðisins. Var þessi nefnd skipuð 29. júní s.l. Með bréfi 22. okt. lýsti nefndin því yfir að vonlaust væri að leggja til fullmótaðar till. fyrr en í lok janúarmánaðar n.k. Þess vegna væri nauðsynlegt að fá umræddan frest framlengdan og það er ástæðan fyrir flutningi frv. Í þessari nefnd, sem ég var að greina frá, eiga þessir sæti: Davíð Gunnarsson form. nefndarinnar, tilnefndur af ráðh., frá Reykjavíkurborg voru tilnefndir Katrín Fjeldsted læknir og borgarfulltrúi og Lúðvík Ólafsson settur borgarlæknir, frá Kópavogskaupstað Kristján Guðmundsson bæjarstjóri, frá Garðabæ Jón Gauti Jónsson bæjarstjóri og svo Hilmar Björgvinsson deildarstj. hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Ég sagði áðan að fleira kynni að koma til en fjárskortur að heilsugæslustöðvar hefðu ekki þegar risið á þessu svæði eins og lögin gera ráð fyrir. Þessar aðrar ástæður gæti ég nefnt nokkrar. Ýmsir telja að lögin eins og þau eru séu fyrst og fremst sniðin fyrir þarfir dreifbýlisins og þar var reyndar byrjað að framfylgja þeim. Þessar þarfir dreifbýlisins koma fram t.d. í upptalningu í 19. gr. laganna á verkefnum þeim sem sinna skal frá heilsugæslustöð. Þar virðist einkum miðað við stöðvar sem starfa tiltölulega einangraðar. Hjá slíkum stöðvum þarf að vera allt annað skipulag og fyrirkomulag á þjónustunni vegna fámennis læknishéraðsins þar sem læknirinn verður að hafa heildaryfirsýn yfir fleiri þætti en annars gerist. Á höfuðborgarsvæðinu hagar þannig til að um samstarf margra heilsugæslustöðva verður að ræða.

Ég vil nefna hér nokkra þætti sem mér sýnist vera þannig að þeir kalli á endurskoðun laganna miðað við þarfir höfuðborgarsvæðisins.

Í fyrsta lagi nefni ég það að ekki er talin þörf á að byggja húsnæði yfir tannlækna eins og gert er ráð fyrir í 3. lið 19. gr. laganna. Tannlæknar hafa til margra ára sinnt þjónustu hér á svæðinu og ævinlega í eigin húsnæði og sýnist ekki nein ástæða til þess að breyta þar um, þ.e. að það opinbera fari að byggja yfir tannlæknana.

Í öðru lagi nefni ég að úti á landsbyggðinni hafa heilsugæslustöðvarnar verið byggðar þannig að hægt væri að hýsa starfsemi svo sem eins og fyrir endurhæfingu. Endurhæfing í Reykjavík fer fram á stórum deildum í sjúkrahúsunum og enn fremur er hugsanlegt að skipuleggja megi slíkt starf í ýmsum og kannske öllum þeim heilsuræktarstöðvum sem hafa til þess aðstöðu og búnað. Þess vegna verður að teljast vafasamt að ástæða sé til að reikna með slíkri starfsemi í heilsugæslustöðvum sem hér yrðu byggðar.

Í þriðja lagi nefni ég að í 5. lið 19. gr. laganna er talin heilsuvernd í 15 liðum. Það er ljóst að í Reykjavík er allt annað skipulag á heilsuvernd en hægt er að koma við annars staðar á landinu. Það eru án efa uppi miklar efasemdir um að þetta heilsuverndarstarf annað en mæðravernd, ungbarnavernd og heimahjúkrun eigi heima inni á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ég nefni í því sambandi að það verður að draga í efa að 30–50 læknar á þessu svæði geti á skipulagðan hátt annast þessa heilsuverndarþætti þannig að verulegur árangur náist á sama tíma og þeir eiga að sinna þeim sem koma til að leita annarrar þjónustu á heilsugæslustöðvunum. Þá sýnist full ástæða til að athuga hagkvæmni þess að sérfræðingar hafi aðstöðu á sjúkrahúsum til að reka sinn praksís. Það kann vel að vera að slíkt sé hagkvæmara án þess að ég ætli að leggja dóm á það, en alla vega sýnist þó rétt að kanna það nánar.

Þá má enn nefna að með því að fólki sé leyft að skrá sig á lækni en ekki á stofnun, eins og lögin gera ráð fyrir, þá kynni að fækka tilvísunum og innlögnum á sjúkrahús. Bæði í Noregi og Svíþjóð er í vaxandi mæli farið að skipuleggja heilsugæsluna þannig að gert er ráð fyrir því að læknarnir sjálfir reki heilsugæslustöðvar. Við kerfisbreytingu hér er hins vegar gert ráð fyrir að allir heimilislæknar verði ríkisstarfsmenn.

Ég hef nefnt hér nokkur atriði sem sýna að alveg ástæðulaust er að flana að því að koma á þessu heilsugæslustöðvakerfi hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi atriði sýna að vafasamt er að það sama eigi við hér og í dreifbýlinu. Ég gæti nefnt ýmis önnur atriði sem ástæða er til að endurskoða í þessari löggjöf. Þau atriði eiga að sönnu ekkert fremur við hér á þessu svæði en í öðrum heilsugæsluumdæmum. Ég nefni þar stjórnkerfi stöðvanna. Mér sýnist að í einni heilsugæslustöð, þar sem starfandi eru fleiri en tveir læknar, geti verið stjórnkerfi eitthvað í líkingu við þetta. Það er kjörin stjórn, yfirlæknir, læknaráð, hjúkrunarforstjóri, starfsmannaráð og framkvæmdastjóri. Í reglugerð, sem sett hefur verið, kemur svo fram að læknar starfa algerlega sjálfstætt og þeir séu ábyrgir einungis gagnvart ráðh. Það eru til dæmi um að allt að 11 manns sitji stjórnarfundi þar sem fimm manna stjórn er kjörin, þrír af sveitarstjórn og sýslu og tveir af starfsmönnum. Af þessum 11 eru átta starfsmenn og varla verður séð að þeir tveir og kannske þrír stjórnarmenn, sem kjörnir eru af sveitarstjórnum sem bera ábyrgð á rekstrinum fjárhagslega, hafi nokkuð að segja í viðkomandi stjórn. Þá má líka benda á að þótt viðurkennd sé þörfin fyrir þá þjónustu, sem upp er talin í 19. gr. á heilsugæslustöðvum úti á landi, þá er mönnum alveg ljóst að byggingum sumra þeirra hefur ekki verið stillt svo í hóf sem skyldi og víða eru miklir fjárhagslegir erfiðleikar í rekstri þeirra.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín miklu fleiri. Vegna þess að fram kom í n. vafi á að ástæða væri til að framlengja þennan frest svo lengi sem þetta frv. gerir ráð fyrir, taldi ég rétt að gera að umtalsefni nokkur þau atriði sem renna stoðum undir nauðsyn þess að taka sér góðan tíma til að endurskoða þetta skipulag allt. Ég ítreka svo að meiri hl. heilbr.- og trn. leggur til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.