12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. minni hl. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir höfum skilað séráliti um frv. til l. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu á þskj. 158. Jafnframt hef ég leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 230 um að frestur sá, sem frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir til að koma á heilsugæslukerfi, verði styttur, þ.e. að hann standi aðeins til 1. maí 1985 í stað loka þessa árs. Fresturinn, sem veittur var í lögunum um heilbrigðisþjónustu nr. 59/1983, var til næstkomandi áramóta. Nú má vel vera að ekki skipti öllu máli hvort frestur þessi er veittur nokkrum mánuðum lengur eða skemur úr því sem komið er. Ljóst er að stór-Reykjavíkursvæðið hefur þegar orðið á eftir áætlun svo að einhvern frest varð að veita. Hitt skiptir meira máli hverjar ástæður eru fyrir þeim töfum sem orðið hafa á uppbyggingu heilsugæslustöðva á stór-Reykjavíkursvæðinu og hverjar eru fyrirætlanir sveitarstjórna á svæðinu. Hv. frsm. nál. meiri hl. hefur gert nokkra grein fyrir því. Í grg. frv. er þar svo frá skýrt, með leyfi forseta:

„S.l. vor komu forsvarsmenn sveitarstjórnarmála á höfuðborgarsvæðinu til fundar í rn. til þess að ræða skipulagningu heilsugæslunnar á svæðinu með hliðsjón af áðurnefndum fresti. Á fundinum komu fram ýmis tormerki varðandi skipulagninguna og raddir sem töldu heilsugæslukerfið ekki eiga við á svæðinu.“

Vegna þessara sjónarmiða núverandi sveitarstjórna á svæðinu er beðið um frest og hæstv. ráðh. setti á fót nefnd til að gera tillögur um skipan þessara mála. Nefndin hyggst síðan skila tillögunum nú í janúar.

Nú er það svo, herra forseti og hv. þm., að á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt lög um heilbrigðisþjónustu þar sem segir í 12. gr., lið 1, með leyfi forseta: „Setja skal á stofn heilsugæslustöðvar til þess að annast heilsugæslu skv. lögum þessum.“

Í 6. gr. er landinu skipt í læknishéruð og í 14. gr. segir, með leyfi forseta: „Heilsugæslustöðvar skulu vera í héruðum skv. 6. gr.

Í 14. gr. segir, með leyfi forseta: „Reykjavíkurhérað: Staðarval heilsugæslustöðva og fyrirkomulag um samvinnu stöðva innan héraðsins verði ákveðið af borgarstjórn í samráði við héraðslækni og staðfest af ráðh.“

Í 14. gr., lið 9, eru ákvæði um hvernig heilsugæslustöðvar skuli vera í Reykjaneshéraði, ekki hvort þær eigi að vera þar. Sveitarstjórnarmenn verða því hér að fara að lögum, lögum frá síðasta löggjafarþingi nr. 59/ 1983, hverjar skoðanir sem þeir annars kunna að hafa á skipulagningu heilbrigðisþjónustu, hvort sem þeir vilja skipulega heilbrigðisþjónustu fyrir almenning eða einkarekstur. En þeir hafa þrjóskast við hér á höfuðborgarsvæðinu og t.d. í Garðabæ látið heilsugæsluhúsnæði sitt undir rekstur. Þetta ætti hið sama Alþingi, sem setti lögin á síðasta þingi, ekki að sætta sig við ef löggjöf er tekin alvarlega hér á hinu háa Alþingi. Ef þm. eru á því að breyta þurfi lögum um heilbrigðisþjónustu frá því í fyrra skulu menn gera það, en það er ekki mál sveitarstjórnarmanna á svæðinu að neita að framkvæma lögin. Það getur ekki verið.

Hinn 10. júní 1981 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh. nefnd til að fjalla um fyrirkomulag heilsugæslu í Reykjavík. 15. maí 1982 skilaði nefndin áliti og eftirfarandi tillögum, með leyfi forseta:

„1. Nefndin telur að fullkomið kerfi heilsugæslustöðva í Reykjavík sé æskilegt bæði frá læknisfræðilegu og efnahagslegu sjónarmiði.

2. Uppbygging heilsugæslukerfis hefur gengið hægar í Reykjavík en annars staðar á landinu. Helstu ástæðurnar telur nefndin m.a. vera: Takmarkaðar fjárveitingar hins opinbera, skipulagsleg vandkvæði, andstöðu meðal lækna, sennilegan kostnaðarauka Reykjavíkurborgar við breytingu í heilsugæslukerfi.

3. Nefndin telur að henni hafi tekist að ganga frá samkomulagsgrundvelli um uppbyggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík sem viðkomandi aðilar geti sætt sig við.“

Í nefndinni sátu — og það er svo sannarlega athyglisvert hverjir komust að þessari niðurstöðu — og enginn gerði ágreining: Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur, tilnefnd af heilbrigðismálaráði Reykjavíkur, Davíð Oddsson framkvæmdastjóri skv. tilnefningu Sjúkrasamlags Reykjavíkur, Edda Hermannsdóttir fulltrúi skv. tilnefningu fjmrn., Haukur Magnússon heimilislæknir skv. tilnefningu Læknafélags Reykjavíkur, Jón Bjarni Þorsteinsson heimilislæknir skv. tillögu Læknafélags Reykjavíkur, Ragnar Árnason hagfræðingur sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Auk þess unnu með nefndinni Steinunn Lárusdóttir skrifstofustjóri sjúkrasamlagsins og Skúli Johnsen borgarlæknir.

Hvað hefur breyst síðan þetta fólk komst að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri, eins og lögin frá síðasta þingi gerðu ráð fyrir, að koma á heilsugæslukerfi í Reykjavík? Rök hv. frsm. heilbr.- og trn. þykja mér harla slök. Það segir mér enginn að það sé óhentugra og óhaganlegra fyrir samfélagið að byggt verði yfir tannlæknaþjónustu og tannlæknar gerðir að ríkisstarfsmönnum. Þann dag vildi ég lifa. Og eitt er víst að það yrði ódýrara fyrir fjölskyldurnar í landinu og það yrði ódýrara fyrir hið íslenska ríki.

En það er athyglisvert að nefndin, sem gerði tillögur um heilsugæslukerfi hér í Reykjavík, bendir á andstöðu lækna. Ekki er ég hissa. Ef hv. þm. láta sér nú fátt um finnast löggjöf síðan á síðasta þingi er ástæðulaust að undrast þá gerbreytingu sem orðið hefur á skoðunum borgarstjórans í Reykjavík síðan hann var framkvæmdastjóri sjúkrasamlagsins fyrir tveimur árum. En jafnframt má þá einu gilda hver lög eru samþykkt á hinu háa Alþingi ef mönnum líðst það að taka ekki hið minnsta mark á þeim.

Ég skora því á hv. þm. að samþykkja till. mína á þskj. 230 og fallast á styttri frestinn þó ekki væri til annars en að lýsa því að við stöndum við lög um heilbrigðisþjónustu. En jafnframt fýsir mig að heyra hvort hæstv. heilbrmrh. hyggst ganga eftir að uppbyggingu heilsugæslustöðva verði haldið áfram á höfuðborgarsvæðinu eða hvort hann ætlar að beygja sig fyrir andstöðu lækna, skoðunum núverandi sveitarstjórnarmanna á því að stór-Reykjavíkursvæðið þurfi ekki á sams konar heilsugæslu að halda og aðrir landsmenn. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt. Og ég vil benda á að vegna umr. sem ég hef sjálfsagt hafið í hv. heilbr.og trn. taldi frsm. ástæðu til að gefa nokkrar ástæður fyrir þessari töf á uppbyggingu heilsugæslustöðva á stór-Reykjavíkursvæðinu nú þegar í framsögu vegna þess að hann vissi að ég mundi spyrja hverjar hinar raunverulegu ástæður séu. Ég er forvitin að heyra hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. er á því að endurskoðunar sé þörf á lögum um heilbrigðisþjónustu í þá veru að stór-Reykjavíkursvæðið verði allt öðruvísi skipulagt.