12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Á síðasta þingi var staðfest stefna í heilsugæslumálum sem verið hefur í mótun um margra ára skeið og er þegar komin til framkvæmda víða um land. Þegar aftur á móti á að framkvæma þessa stefnu hér á höfuðborgarsvæðinu kemur upp hik og fyrirstaða og ákveðið er s.l. vor að setja nefnd á laggirnar til að kanna möguleika á öðrum kostum í heilsugæslu og gera tillögur þar um.

Það er vitað mál að uppi eru ýmsar hugmyndir í þeim efnum, m.a. hugmyndir sem byggjast á því að sjúklingar kaupi heilsugæsluþjónustu eins og aðra þjónustu og þá væntanlega eftir efnalegri getu sinni, en að slík þjónusta sé ekki föl sem félagsleg réttindi án tillits til efnahags. Þannig rekin þjónusta mundi að sjálfsögðu firra sveitarfélög miklum kostnaði.

Það má vera að skiptar skoðanir séu um skipulag heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu meðal almennings, meðal sveitarstjórnarmanna og meðal lækna. Þrátt fyrir það er augljóst að Alþingi hefur þegar mótað og samþykkt stefnu í þessum efnum og það er jafnframt hlutverk framkvæmdavaldsins að framfylgja stefnumótun Alþingis. Þyki einhver endurskoðun nauðsynleg á þeirri stefnu er það lágmarkskrafa löggjafans að sú breyting taki ekki of langan tíma og tefji ekki að stefna þess sé framkvæmd. Það er nauðsynlegt að allar fyrirhugaðar breytingar og áætlanir komi fram sem fyrst þannig að skipulag þessara mála dragist ekki úr hömlu. Ef þessar áætlanir nefndarinnar og ákvarðanir, sem teknar verða í ljósi þeirra, liggja ekki fyrir áður en fjárlagagerð næsta árs hefst er alveg augljóst að málið tefst enn eitt ár og því verður í raun þessi frestun framkvæmda mun lengri heldur en til ársloka 1985.

Það er viðurkennd og góð leið til að svæfa mál og hindra framgang þeirra að þæfa þau og tefja í þeirri von að fólk missi á þeim áhuga og gefist upp á að berjast fyrir þeim. Ég tel óviðunandi ef þetta mál hlýtur slík örlög. Það undrar mig reyndar hvers vegna sú framkvæmd að koma á heilsugæslustöðvum hefur tafist jafnmikið og raun ber vitni hér á höfuðborgarsvæðinu. Eftir minni bestu vitund hafa legið lengi fyrir samþykktir borgarstjórnar Reykjavíkur, samþykkt heilbrigðisráðs Reykjavíkur, samþykkt Félags heimilislækna og samþykkt Læknafélags Reykjavíkur fyrir því að koma á slíku heilsugæslukerfi á höfuðborgarsvæðinu. Samt hefur það ekkert gengið. Vinstri meiri hluta í borgarstjórn tókst ekki að knýja þessar breytingar í gegn og nú virðist málið enn tafið þegar hægri meiri hluti ríkir. Og maður veltir því fyrir sér hverra hagsmunir ráði þessum töfum. Það eru áreiðanlega ekki hagsmunir sjúklinga sem því ráða.

Mér finnst það vera réttmæt krafa sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu að þessi mál verði ekki lengur tafin og að á þeim finnist lausn sem er sjúklingum hagstæð og það er jafnframt hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með því að framkvæmdavaldið framfylgi þeirri stefnu sem það hefur mótað. Því tel ég þörf á því að hraða þessum málum meira en ætlað er í frv. og skila því séráliti í þessu máli ásamt hv. 10. þm. Reykv.