12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. minni hl. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég er svo kvenleg. í mér að láta barnagrát frá svölum efri deildar trufla mig andartak. En ég ætla að fá að skjóta inn aths. vegna þess sem fram kom áðan.

Í fyrsta lagi undrar mig stórlega að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson skuli draga eitthvað í efa að sveitarstjórnarmenn skuli fara að lögum. Auðvitað eiga þeir að gera það. Ég vil hins vegar minna hv. þm. á að þegar frv. um heilbrigðisþjónustu var í meðferð á síðasta þingi var það sent til umsagnar til Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég man ekki betur en að þær umsagnir væru taldar það jákvæðar að þær mundu ekki tefja framgang frv.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir virðist ekki vera alveg upplýst um hvað vinstri meiri hl., sem hún vitnaði til, í borgarstjórn gerði í þessum efnum. Það er alls ekki rétt að þetta starf hafi ekki verið hafið, vegna þess að í Reykjavík komu upp fjórar heilsugæslustöðvar og ég held að ég verði að segja hv. þm. hvar þær eru. Það þurfti ekki endilega að byggja hús yfir þær allar. Ein er í Borgarspítalanum, ein er í Heilsuverndarstöðinni, ein er í Árbæ og önnur í Asparfelli. Þá njóta Reykvíkingar aðstöðu í heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi. (Gripið fram í.) Já, því starfi var haldið áfram og það er ástæðulaust að vera að segja að það hafi verið tafið. Það var unnið að því eftir mætti. Mér er ljóst að slíkt gerist ekki á einum degi. Auðvitað leið vinstri borgarstjórnarmeirihlutinn fyrir óheppileg öfl sem hann varð að dragast með í farteskinu og kom ekki nema litlu einu af sínum málum fram. Það virðist oft vera svo að menn telja að hér sé ekki hægt að gera neina skipulagsbreytingu án þess að byggja hús. Húsbyggingar eru ekki lausn allra mála. Menn tala hér um að fjármagn hafi ekki verið til fyrir þessari uppbyggingu. E.t.v. er einföld skýring á því. Fjármagnið var látið í annað. Núv. borgarstjórn vill heldur byggja brýr milli borgarhverfa en að byggja upp heilsugæslustöðvar í bænum. Allt starf borgarstjórnarfulltrúa fer í það að velja í hvað fjármunirnir eiga að fara. Og það hefur ekki verið vilji til þess að láta þá fara í uppbyggingu heilsugæslustöðva.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson minntist áðan á að heilsugæslustöðvar úti um landsbyggðina hefðu reynst mjög dýrar. Ég held að enginn þurfi að draga í efa að uppbygging heilsugæslustöðva um landið hefur valdið byltingu, beinni byltingu í aðstöðu manna utan Reykjavíkur til að fá jafnsjálfsagða og eðlilega þjónustu og læknisþjónustu. Hitt er svo annað mál að meðfæddur flottræfilsháttur sá sem hér tíðkast við húsbyggingar hefur riðið þar húsum eins og annars staðar. Og þar er ekki við neinn annan að sakast en okkur að við skulum láta slíkt viðgangast. Það er alveg laukrétt. Sums staðar eru þessar heilsugæslustöðvar allt of stórar, allt of dýrar og sums staðar of nálægt hver annarri. En það skyldi nú aldrei vera að hv. þm. hafi átt þar ofurlítinn hlut að máli. Það kynni nú að vera að eitt kjördæmi hefði fengið fleiri heilsugæslustöðvar en annað vegna sérstakrar aðstöðu þm. kjördæmisins á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í: Er það Reykjavík?) Það vill oft brenna við. Sama er auðvitað hægt að segja um allan sjúkrahúsgeirann.

Sannleikurinn er sá að hér þarf pólitískt þrek. Uppbygging heilsugæslustöðva og lögin um heilbrigðisþjónustu voru virkilega merkileg tilraun til að reyna að skipuleggja heilbrigðisþjónustu í landinu. En það verður auðvitað að hafa þrek til að framkvæma hana. Það þrek hefur ekki síst brostið í viðureigninni við lækna. Það getur ekki orðið dýrara að koma húsnæði yfir heilbrigðisþjónustu og kaupa tæki, ef viðkomandi læknar reka svo ekki einkapraxís á þessi tæki og í þessu húsnæði. Auðvitað er það fráleitt. Þessu þarf að stjórna. Og öll samningamál við lækna eru hreinustu endemi. Auðvitað eiga heilsugæslulæknar að hafa góð mánaðarlaun, há mánaðarlaun eins og allir Íslendingar eiga að hafa. En þeir eiga ekki að vinna skv. núgildandi samningum. Allir þeir samningar eru fyrir löngu búnir að sigla sjálfum sér í strand.

Þetta vildi ég geta hér um, en ég neita því ekki að mér finnst þessar umr. undarlegar, bæði af hálfu hæstv. ráðh. og ekki síst hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, að talað sé um að það þurfi virkilega endurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu frá því á síðasta þingi. Ég held að við verðum þá í framtíðinni að reyna að hugsa til ofurlítið lengri tíma þegar við erum að gerbylta heilbrigðiskerfinu í landinu, eins og gert hefur verið á síðustu 10 árum. Endurskoðun fór fram á síðasta löggjafarþingi, en nú er verið að draga í efa að það sé vit í að framkvæma þau lög.