12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. varðandi kerfisbreytinguna á Akureyri, sem verður um áramót, er þess að geta að fjvn. hefur ekki gengið frá tölum í heilbrigðiskerfinu nú frekar en venjulega fyrr en við 3. umr. Fjvn., fjmrh. og fjmrn. vita að þessi kerfisbreyting á sér stað lögum samkvæmt og heilbrmrn. hefur samþykkt hana og þá verður að standa við þá breytingu með greiðslu. Hins vegar liggur það ekki endanlega fyrir að öllu leyti, en við það verður staðið því að kerfisbreytingin er gerð með samþykki heilbrmrn. og á stoð í lögum. Vona ég að þetta svar nægi.

Varðandi þetta frv. vil ég ekki segja að sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu, og alls ekki hér í Reykjavík, hafi sýnt áhugaleysi því að þeir hafa margoft rætt þessi mál og ákveðnir borgarfulltrúar hafa rætt við mig og við heilbrmrn. Hins vegar vita menn að við afgreiðslu þeirra fjárlaga sem við förum að afgreiða innan tíðar er sáralítið og eiginlega ekki neitt um nýjar framkvæmdir, heldur er ramminn það þröngur að reynt er að halda áfram með það sem er komið langt á veg og ljúka því. Ég held að það eigi ekki að tefja mikið þó að ekki sé veitt eitthvert byrjunarframlag til einnar heilsugæslustöðvar. Það verður þá að taka það á einu ári því að þetta er ekki það stór framkvæmd sem þyrfti að taka mörg ár að framkvæma.

Ég vil líka minna menn á að heilsugæslukerfi er í framkvæmd hér í Reykjavík að vissu marki í fjórum stöðvum og fimmta stöðin, sem nær einnig til Reykjavíkur, er staðsett á Seltjarnarnesi.

Ég hugsa mér ekki að þetta bráðabirgðaákvæði verði framlengt, en eins og ég sagði áðan vil ég ekki úttala mig í þessum efnum fyrr en ég sé hvaða álit kemur frá nefndinni, sé hver viðbrögð verða hjá forsvarsmönnum þeirra byggðarlaga sem eiga að standa undir þessari starfsemi. Þá getur svo farið að hér verði um hríð eitthvað blandað kerfi, sem við verðum að taka upp. En ég vil ekki úttala mig í þeim efnum fyrr en nál. liggur fyrir. Þá reikna ég með því að heilbrmrh. leggi fram frv. á haustdögum, og þá ætti undirbúningur að geta átt sér stað með eðlilegum hætti.