12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég hef ekki í hyggju að tefja afgreiðslu þessa máls nema síður væri. Ég skýrði frá því við 1. umr. að á fundi sínum hinn 13. nóv. hefði samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs fjallað um erindi frá sambandi norrænna skipstjórnarmanna þar sem lýst var áhyggjum af þeim mörgu undanþágum sem gefnar eru út til íslenskra skipstjórnarmanna á fiskiskipum.

Síðan hefur það gerst að ritari nefndarinnar sendi fsp. til Magnúsar Jóhannessonar setts siglingamálastjóra vegna þess að á fundi nefndarinnar var málinu frestað og óskað upplýsinga. Magnús hefur nú ritað samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs svo hljóðandi, með leyfi forseta, og les ég þá hluta úr bréfi hans.

„Á skipaskrá hinn 1. jan. s.l. voru skráð á Íslandi samkvæmt lögum 940 þilfarsskip. Í skránni eru 836 skip skráð fiskiskip, 51 skip skráð flutningaskip og 53 skip skráð sem önnur skip. Í síðasttalda hópnum eru m.a. varðskip, dýpkunarskip, hafnsögubátar o.fl. Stofnuninni er ekki kunnugt um að nokkur fiskiskip séu í skipaskrá skráð sem farskip. Um undanþágur til yfirmannsstarfa á íslenskum skipum er það að segja að þeim hefur fjölgað mjög hin seinni ár. Undanþágur hafa þó nær alfarið verið bundnar við fiskiskipaflotann. Árið 1983 og 1984 voru veittar undanþágur til skipstjórnarstarfa til 330–400 manna hvort ár og til vélstjórastarfa til 670–680 manna hvort ár. Nærri lætur að þetta svari til að u.þ.b. fjórði hver skipstjórnarmaður starfi samkvæmt undanþágu og u.þ.b. annar hver vélstjóri.“

Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir það að hafa komið þessum frv. fram, og það er tilhlökkunarefni að geta skýrt samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs frá því að unnið hafi verið að úrbótum í þessum efnum. Ég vil að sjálfsögðu lýsa mínum fyllsta stuðningi við þau tvö framkomin frv. sem nú stendur til að fara að afgreiða.