12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

192. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal leitast við að svara þessum fsp. Í fyrsta lagi liggur ekki enn þá fyrir hvað verður tekið í notkun á næsta ári af B-álmu Borgarspítalans. Það er eins með það eins og alla aðra nýja starfsemi í spítalakerfinu að um það verður fjallað við 3. umr. fjárlaga.

Varðandi það að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra geri ákveðnar tillögur fyrir 3. umr. fjárl. um hve mikið af væntanlegri heimild sem þetta frv. felur í sér fari til einnar ákveðinnar byggingar, þá hvorki vil ég né get óskað eftir því við stjórnina að hún marki afstöðu til eins máls fyrir fram. Það er auglýst eftir umsóknum um fjárframlög í allar greinar og ég held að stjórnin, sem samanstendur af fulltrúa frá rn. ásamt fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og fulltrúa frá Öldrunarfélagi Íslands, vilji gjarnan og skilyrðislaust láta þessar umsóknir allar liggja fyrir og síðan verður að marka afstöðu til þess máls. Hinu neita ég ekki að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá till. meiri hl. fjvn. um 14 millj. kr. til hjúkrunarheimila aldraðra. Ég óskaði eftir því við formann stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra að hann kynnti fjvn. tillögur sínar og hvað hann teldi að væri nauðsynleg.t að færi til hjúkrunarheimila á þessu ári. Ég óskaði enn fremur eftir því við hann að hann hefði samráð, þó ekki væri nema í síma, við sína samstarfsmenn og skv. mínum hugmyndum taldi ég að hér þyrftu að vera um 30 millj. og þar af 2/3 til Bálmunnar. Meira get ég ekki sagt um þetta.

Um þriðju spurninguna, um nýtingu B-álmu Borgarspítalans í þágu aldraðra, þá er það rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að mjög hefur verið leitað eftir því að fá heimild mína eða rn. til að hýsa þar aðra starfsemi sem þröngt er um á hinum ýmsu deildum. Ef ég man rétt er hér um fjórar eða fimm deildir að ræða. Ég hef formlega svarað því bréfi neitandi af þeirri ástæðu að ég teldi að ráðh. hefði ekki heimild til að veita slíkt leyfi. Það væri aðeins ein stofnun sem hefði þá heimild, þ.e. Alþingi. Ef Alþingi vill breyta því vegna þess að þrengslin eru mikil þá er það eina stofnunin sem það getur gert og þar við situr. Ástæðan er sú að B-álman hefur verið fjármögnuð að miklu leyti af Framkvæmdasjóði aldraðra og í þessum eina tilgangi og þannig er málinu háttað. Vona ég að ég hafi svarað öllum spurningum hv. þm.