12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

188. mál, barnabótaauki

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er eins með þetta frv. til l. um sérstakan barnabótaauka, það hefur þegar hlotið meðferð virðulegrar Ed. Alþingis. Hér er nú til umr. frv. um sérstakan barnabótaauka sem er samhljóða ákvæðum í 18.–21. gr. laga nr. 43/1984, sem fjalla um tekjutengdar barnabætur, að því frátöldu að allar fjárhæðir í þessu frv. hafa verið hækkaðar um 25% frá því sem var í lögum nr. 43/1984. Er sú hækkun í samræmi við áætlun Þjóðhagsstofnunar um hækkun tekna hvers gjaldanda milli áranna 1984 og 1985.

Forsaga þess, að greiddur var sérstakur barnabótaauki á árinu 1984, er sú að þetta var liður í samningum ASÍ og VSÍ í febr. s.l. og féllst ríkisstj. á að greiða tekjutengdan barnabótaauka til þess að liðka fyrir því að samningar tækjust. Í tillögum ASÍ og VSÍ í sambandi við barnabótaaukann árið 1984 sagði, með leyfi forseta:

„Barnabótaaukinn verði útfærður þannig að þeir skattgreiðendur fái hann ekki sem hafa möguleika á framfærslu með öðrum hætti svo sem vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, af eignum eða af námslánum.“

Þar sem skattalög greina ekki milli manna eftir starfsstéttum heldur eftir tekjum og eignum var ekki talið gerlegt við afgreiðslu barnabótaaukans árið 1984 að grípa til slíkrar mismununar eftir starfsstéttum. Hins vegar var við greiðslu barnabótaaukans árið 1984, til þess að ná svipuðum tilgangi og lagt var til í tillögum ASÍ og VSÍ, rétturinn til barnabótaauka bundinn við það að eignir viðkomandi færu ekki fram úr ákveðnu marki.

Með þessu frv., sem nú er til umr., er lagt til að greiðslur barnabótaaukans verði með sama sniði og á árinu 1984, þ.e. að hann verði tekju- og eignabundinn, þannig að barnabótaaukin lækki eftir því sem tekjur eru hærri eða eignir meiri og að hann falli alveg niður þegar tekjur eða eignir fara yfir ákveðið mark.

Sérstakur barnabótaauki nemur óskertur skv. frv. 15 þús. kr. með hverju barni. Vegna barna, sem eru á framfæri hjóna, tekur hann að skerðast þegar samanlagður útsvarsstofn þeirra tekjuárið 1984 fer fram úr 275 þús. uns hann fellur niður þegar útsvarsstofn þeirra nær 462 þús. kr. Á sama hátt skal barnabótaauki vegna barna á framfæri einstæðra foreldra taka að skerðast þegar útsvarsstofn foreldra fyrir tekjuárið 1984 fer fram úr 187 500 kr. uns hann fellur niður er útsvarsstofn nær 375 þús. kr. Þá er og gert ráð fyrir að barnabótaauki skerðist þegar eignarskattsstofn nær tilteknu marki, sbr. 3. gr. frv. Með þessu er stuðlað að því að þeir, sem erfiðasta afkomu hafa, njóti þessa barnabótaauka. Auk þess er stefnt að því að barnabótaaukinn bæti að einhverju leyti þá kjaraskerðingu sem þeir tekjulægstu hafa orðið fyrir.

Ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um töluleg áhrif þessa frv. þar sem þetta frv. er flutt samhliða frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um fjárhagslegar afleiðingar þessa frv. vísast til ræðu minnar um tekjuskattsfrumvarpið, en þar er gerð grein fyrir heildaráhrifum beggja frv.

Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. að þessari umr. lokinni.