12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

214. mál, söluskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er augljóst að það er mjög rétt, sem fram kom í niðurlagsorðum hæstv. ráðh., að þörfin fyrir endurskipulagningu á hinni óbeinu skattheimtu í landinu verður æ brýnni. Mér finnst næstum þegar maður horfir á þetta frv. að rökin fyrir því að nú skuli hækka söluskattinn enn frekar séu þau að með því sé stigið eitt skref til viðbótar í því að gera þetta kerfi með öllu ónýtt og gera þannig þörfina fyrir endurskipulagningu nógu brýna til að menn manni sig upp í þá breytingu sem er búin að vera nauðsynleg sjálfsagt í áratug. Það er eina skynsamlega röksemdin sem ég fann í máli hæstv. ráðh. varðandi þessa söluskattshækkun. Allt annað, sem fram kemur, bendir til þess að síst af öllu sé ástæða til að leggja í söluskattshækkun núna. Vankantar kerfisins verða enn meiri og þeir verða enn erfiðari viðfangs eftir því sem söluskatturinn er hærri.

Þess vegna sýnist mér að einu haldgóðu röksemdirnar, sem ráðh. hafði fram að færa fyrir því að söluskatturinn skyldi hækkaður, væru að þá væri hann endanlega dauður. Ég vona að það reynist rétt.