13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

1. mál, fjárlög 1985

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég mun hér í máli mínu fyrst gera grein fyrir örfáum brtt., sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þm., og síðan fara nokkrum orðum um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, en þm. Alþfl. flytja nú við þessa fjárlagaafgreiðslu tillögur um stóraukin framlög í þessa sjóði.

Þá er fyrst að geta brtt. á þskj. 295, sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur og Guðmundi Einarssyni, þess efnis að veitt verði 3 millj. kr. fjárveiting til aðgerða til að koma í veg fyrir innflutning, sölu og dreifingu ávana- og fíkniefna, svo og fyrirbyggjandi aðgerða í þeim efnum.

Fyrir ári síðan var, eins og hv. þm. er kunnugt, samþykkt till. frá þm. úr öllum flokkum þess efnis að með ákveðnum aðgerðum yrðu auðveldaðar allar aðgerðir til að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning og dreifingu ávana- og fíkniefna. Í því skyni að gera tillögur um leiðir til aðgerða gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna var skipaður starfshópur af hálfu dómsmrh. og skilaði hann niðurstöðu í mars s.l. um mjög umfangsmiklar og fjölþættar tillögur og leiðir til að sporna gegn innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna.

Í umr. um fsp. mína hér á Alþingi um þessa till. fyrr í vetur gerði hæstv. dómsmrh. grein fyrir þessum tillögum og upplýsti m.a. að dómsmrn. hefði farið þess á leit við undirbúning fjárlaga að fjölgað yrði starfsmönnum um sex við fíkniefnadeild lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Þeirri till. var hafnað. Í bréfi dómsmrn. til fjvn. dags. 3. des., þar sem þessi beiðni er ítrekuð, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið leggur ríka áherslu á að orðið verði við þessari fjölgun, þ.e. að fjölga í fíkniefnadeild lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, enda sýna allar tölur að fíkniefnavandamálið fer vaxandi þrátt fyrir aðgerðir sem eiga að draga úr því. Þar sem störf við fíkniefnarannsóknir eru mjög sérstæð, þá verða þau ekki unnin sem hver önnur löggæslustörf. Því er ekki hlaupið að því að fela öðrum lögreglumönnum störf af þessu tagi, allra síst hér í Reykjavík þar sem stærstu innflytjendur og dreifendur fíkniefna búa. Að sjálfsögðu eiga almennir lögreglumenn að hafa eftirlit með ungmennum við skemmtistaði og þar sem þeir koma saman til að fylgjast með ástandi almennt, þ. á m. hvort fíkniefnaneysla eða -sala fer fram.“

Á það má einnig benda að hæstv. dómsmrh. upplýsti einnig á Alþingi í vetur að dómsmrn. hefði ritað fjmrn. bréf þar sem óskað var eftir kaupum á nauðsynlegum tækjum fyrir tollgæsluna og lögreglu til að auðvelda allt eftirlit með innflutningi ólöglegra ávana- og fíkniefna. Ekki verður séð á fjárlögum fyrir árið 1985 að gert sé ráð fyrir neinni aukningu á fjármagni til þessara mála, heldur er þvert á móti um lækkun á fjárhæð að ræða til þessara mála milli ára.

Á fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir 1 millj. kr. framlagi, sem sett var á lið fjmrn. til þessa málaflokks, auk þess sem við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári var samþykkt till. þess efnis að heimilt væri að ráðstafa upptækum hagnaði af sölu ólöglegra ávana- og fíkniefna til fyrirbyggjandi aðgerða gegn frekari dreifingu slíkra efna. Það heimildarákvæði er enn til staðar í fjárlögum fyrir árið 1985, en ekki er að sjá á fjárlagafrv. að gert sé ráð fyrir öðru fjármagni til þessara mála því að ekki er gert ráð fyrir neinu fjármagni á fjárlagalið fjmrn. nú í þessu skyni, eins og var á yfirstandandi ári.

Skv. upplýsingum fjmrn. hafa fjárveitingar yfirstandandi árs verið notaðar með eftirfarandi hætti, en 1 millj. var til ráðstöfunar í fjmrn. auk þess sem inn kom 1 millj. til ráðstöfunar vegna upptæks hagnaðar af sölu ólöglegra fíkniefna:

Í fyrsta lagi runnu 300 þús. kr. til landlæknisembættisins sem gerði könnun á neyslu fíkniefna hér á landi. Í öðru lagi rann hluti fjármagnsins til tækjakaupa fyrir tollgæslu. En enn hefur fjmrn. ekki orðið við beiðni um aukinn tækjakost lögregluyfirvalda vegna rannsókna og leitar að fíkniefnum. Upptækur hagnaður af sölu ávana- og fíkniefna, 1 millj. kr., rann síðan til fíkniefnadómstólsins.

Ég tel að það sé Alþingi hreint og beint til skammar ef afgreiða á fjárlög nú með þeim hætti að lítið sem ekkert fjármagn verði til ráðstöfunar í þessu skyni, þegar sífellt eru að berast upplýsingar um aukinn innflutning ávana- og fíkniefna og aukna notkun þeirra hér á landi. Ekki síst ber að átelja slík vinnubrögð í ljósi þess að Alþingi hefur samþykkt till., sem mjög víðtæk samstaða náðist um, um að nú skyldi af alefli herða allar aðgerðir til að sporna gegn innflutningi þessara eiturefna og gera átak til að fyrirbyggja sívaxandi notkun eiturlyfja hér á landi.

Í brtt. á þskj. 295, sem hér er fram borin, er ekki beðið um mikið fjármagn. Farið er fram á að 1.5 millj. renni til fíkniefnadeildar lögreglustjóraembættisins til að fjölga megi starfsliði í samræmi við óskir dómsmrn. og tillögur sem byggðar eru á samþykktri þáltill. héðan frá hv. Alþingi fyrir ári síðan. Að auki er lagt til að 1.5 millj. renni til annarra aðgerða gegn eiturlyfjum. Hér er um mjög lága fjárhæð að ræða, eða 3 millj. samtals, sem sennilega er allt of lítið til að verulegt átak verði gert í þeim málum. En með samþykkt þessarar brtt. yrði a.m.k. um viðleitni að ræða af hálfu Alþingis að standa við þá ályktun um aðgerðir gegn fíkniefnanotkun sem svo víðtæk samstaða náðist um fyrir ári síðan.

Ég undirstrika að það getur verið dýrt að spara í þessu efni og ábyrgð alþm. er mikil ef ekki er hægt að sjá af örfáaum millj. til að sporna gegn þessum vágesti sem eyðilagt getur líf hundraða ef ekki þúsunda ungmenna á örskömmum tíma. Við skulum líka hugleiða hvað það kostar í stóraukinni heilbrigðisþjónustu að ekki sé talað um hvernig eiturlyfin geta lagt líf hundraða ungmenna og fjölskyldna þeirra í rúst, ef Alþingi hefur ekki þann skilning á þessum málum að veita þurfi í það fjármagn að sporna gegn notkun og innflutningi ólöglegra fíkniefna.

Í annan stað flyt ég ásamt hv. þm. Helga Seljan, Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur og Guðmundi Einarssyni brtt. um að auka fjármagn til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er með eindæmum hvernig ráðist hefur verið að þessum sjóði fatlaðra við hverja fjárlagaafgreiðslu á fætur annarri allt frá því að þessi sjóður var stofnaður fyrir 4–5 árum síðan. Hefur raunar keyrt um þverbak að því er fjárveitingar varðar í þennan sjóð á yfirstandandi ári og hvað ætlan stjórnvalda er að þessi sjóður hafi til umráða á næsta ári.

Á fjárl. 1983 hafði sjóðurinn til umráða 39 millj. 960 þús. kr. Við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1984 var framlagið hækkað um 40 þús. kr. og nam skerðingin þá um 65—70 millj. kr. Nú við fjárlagaafgreiðslu 1985 er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu í hækkun á milli ára, eða að hann hafi 40 millj. til ráðstöfunar auk framlags úr Erfðafjársjóði sem einnig er óbreytt í krónutölu milli ára, eða 19.4 millj. kr. Ég tel að vart sé að finna hliðstæðu um skerðingu á sjóð sem að tiltölu er nýstofnaður og hefur svo afgerandi og veigamiklu hlutverki að gegna í þágu fatlaðra hér á landi. En skerðing á fjármagni til sjóðsins frá stofnun er um 300 millj. kr.

Í bréfi frá Öryrkjabandalagi Íslands, dags. 28. nóv. 1984, kemur fram að skerðingin nú milli ára sé a.m.k. 85 millj. kr. Vil ég með leyfi forseta fá að vitna í þetta bréf Öryrkjabandalagsins, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skv. upplýsingum Hagstofu Íslands hækkaði vísitala byggingarkostnaðar á árinu 1983 um 55%. Hefðu umræddar 55 millj. kr. því átt að jafngilda 85 millj. 250 þús. kr. 1. jan. 1984 auk tekna Erfðafjársjóðs, en þær eru áætlaðar um 40 millj. í ár. Samtals eru þetta 125 millj. 250 þús. kr. Raunveruleg fjárveiting á fjárlögum fyrir árið 1984, fyrsta árið sem lögin eru í gildi, varð hins vegar 60 millj. Mismunurinn á lögbundnum tekjum sjóðsins skv. þessu er því 65 millj. 250 þús. Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir 60 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, eða óbreyttri upphæð frá árinu áður.

Skv. 35. gr. laganna skal upphæðin fyrir árið 1985 reiknast þannig: starfsmenn Hagstofu Íslands gera ráð fyrir að vísitala byggingarkostnaðar hækki á árinu 1984 um 16%. Áðurnefndar 55 millj. væru þá að jafnvirði 98 millj. 890 þús. kr. og er þá miðað við hækkun byggingarvísitölu til áramóta 1984–1985. Tekjur Erfðafjársjóðs gætu skv. þessu hækkað um 6.4 millj. og yrðu þá heildartekjur Framkvæmdasjóðsins árið 1985 skv. 35. gr. laganna 145 millj. 290 þús.

Við útreikninga þessa er ekki tekið mið af fyrirsjáanlegum hækkunum á árinu 1985 eða vaxtatekjum og er því upphæð þessi varlega áætluð. Þar að auki er ekki tekið mið af 3. lið 35. gr. laganna þar sem fjallað er um aðrar tekjur sjóðsins. Öryrkjabandalag Íslands leggur ríka áherslu á að Alþingi fari eftir lögum þeim sem það setur um málefni fatlaðra, enda verður að gera ráð fyrir að vilji Alþingis hafi glögglega komið fram við samningu 35. gr.

Ég vil einnig fara nokkrum orðum um Erfðafjársjóð. Á síðasta Alþingi var samþykkt breyting á lögum um erfðafjárskatt. Í umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar um það frv. kemur fram að þessi lög mundu leiða til þess að innheimtur erfðafjárskattur mundi lækka um u.þ.b. 30%. Tekjutap ríkissjóðs á árinu 1984 var því áætlað að mundi nema miðað við heilt ár 12–15 millj.

Eins og hv. þm. vita hefur Erfðafjársjóður haft tekjur af erfðafjárskatti og með nýjum lögum um málefni fatlaðra eiga tekjur Erfðafjársjóðs að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Við síðustu fjárlagaafgreiðslu var áætlað að tekjur af erfðafjárskatti yrðu á þessu ári um 40 millj. kr. en einungis var ætlað á fjárlögum í Erfðafjársjóð 19.4 millj. af þessum tekjum. Þegar upplýst var við meðferð frv. um breytingu á erfðafjárskatti á s.l. vetri að það hefði í för með sér 12–15 millj. kr. tekjutap lýsti ég því m.a. yfir við umr. um þetta mál að hætta væri á því að það tekjutap, sem ríkissjóður yrði fyrir með samþykkt frv., yrði notað sem tilefni til að skerða framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem þeirri skerðingu næmi. Því flutti ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Guðmundi J. Guðmundssyni brtt. sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Lækki tekjur af erfðafjárskatti skv. ákvæðum laga þessara skal sú lækkun ekki leiða til skerðingar á tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra.“

Þessi brtt. var felld en hæstv. félmrh. lýsti því yfir að það væri engin ástæða til að ætla að breytingin, sem varð á lögum um erfðafjárskatt, leiddi til skerðingar á framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra og að hann mundi beita sér fyrir því að tekjur af erfðafjárskatti rynnu óskiptar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er ekki að sjá á fjárlagafrv. að hæstv. félmrh. hafi staðið við þessi orð sín, en til þess hefur hann raunar enn tækifæri áður en fjárlögin fá lokaafgreiðslu hér á hv. Alþingi. Tekjur af erfðafjárskatti eru áætlaðar 25 millj. kr. í fjárlögum en framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra einungis rúmar 19 millj. af þeim tekjum. Það er lágmark að þetta fjármagn renni óskipt til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, ekki síst í ljósi þess að verulegar tekjur voru augljóslega hafðar af sjóðnum með þeirri lagabreytingu sem gerð var á lögum um erfðafjárskatt. Því er lagt til á þskj. 296 að tekjur af erfðafjárskatti renni óskiptar í Framkvæmdasjóðinn og að í stað 19.4 millj. komi 25 millj. kr.

Í annan stað er lagt til á því sama þskj. að framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra hækki úr 40 millj. í 75 millj. kr. Heildarframlag í sjóðinn yrði með samþykkt þessara tveggja brtt. 100 millj. en ættu að vera a.m.k. 145 millj. sé það ákvæði tekið alvarlega af hv. þm., sem þeir samþykktu í lögum um málefni fatlaðra frá 1983, að ríkissjóður skuli árlega næstu fimm árin leggja sjóðnum til a.m.k. jafnvirði 55 millj. kr. miðað við verðlag 1983 og skuli upphæðin hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu.

Ég vil nú snúa mér að því að gera nokkra grein fyrir stöðunni sem fram undan er hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna miðað við það ráðstöfunarfé sem sjóðunum er ætlað á næsta ári. En í brtt. þm. Alþfl. er gert ráð fyrir stórauknu framlagi til þessara sjóða, eða 1075 millj. kr. í Byggingarsjóð ríkisins og 400 millj. kr. aukningu frá fjárlagafrv. í Byggingarsjóð verkamanna.

í fjárlögum fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir eftirfarandi framlögum: Úr ríkissjóði 550 millj., tekin lán 1 milljarður 92 millj. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að til ráðstöfunar sé á árinu 1985 1 milljarður 600 þús. Í útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins, dags. 7. nóv. 1984, varðandi Byggingarsjóð ríkisins er gert ráð fyrir að lánveitingar fyrir árið 1985 verði 2 milljarðar 221 millj., þar af vegna nýbygginga 1 milljarður 84 millj. tæpar og vegna eldri íbúða 665 millj. Til útborgunar á næsta ári vegna eldri íbúða skv. áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins eru 705.5 millj. vegna 3080 íbúða, þar af 158 millj. vegna 820 íbúða, sem er hali yfirstandandi árs eða umsóknir sem frestað hefur verið fram á árið 1985. Þessar áætlanir eru, eins og áætlanir um nýbyggingar, miðaðar við að 2 milljarðar 221 millj. séu til ráðstöfunar en ekki 1.6 milljarður eins og fjárlögin gera ráð fyrir. Forsendur um fjölda nýbyggingarlána eru eftirfarandi:

Lánveitingar verði svipaðar og undanfarið ár, en áætlað er að veita lán til 1100 nýrra íbúða fokheldra á tímabilinu okt. 1984 til sept. 1985. Engir nýir framkvæmdasamningar verði gerðir við byggingaraðila annarra en þeirra sem byggja söluíbúðir fyrir aldraða. Lánveitingar til nýbygginga eru samtals um 1 milljarður 84 millj. og skiptast þannig: 395 millj. vegna fyrsta hluta, 728.8 millj. vegna 2. og 3. hluta eða samtals vegna nýbygginga 1123.8 millj. kr. Að auki þarf á næstu fjórum mánuðum að borga upp lán sem tekið var hjá Seðlabankanum og nemur 270 millj. og endurgreiðast á á þessu og næsta ári þannig: 120 millj. nú fyrir áramót, 50 millj. í jan., 50 millj. í febr. og 50 millj. í mars. Hér er um að ræða lán til þess að hægt væri að standa við skuldbindingar þessa árs til lántakenda, en verulegur dráttur hefur orðið á lánveitingum til þeirra. Auk þess skuldar Byggingarsjóður ríkisins 67 millj. sem ríkissjóður lánaði vegna afborgana og vaxta af lífeyrissjóðnum og væntanlega verður tekið af fjárveitingum þessa árs.

Í frv. er, eins og áður sagði, gert ráð fyrir lánsfé að upphæð 1 milljarður 92 millj. í Byggingarsjóð ríkisins. Lífeyrissjóðirnir hafa keypt af Byggingarsjóði ríkisins frá 1. jan. 1984 til 30. nóv. 1984, eða á 11 mánaða tímabili, fyrir 276 millj. af 525 millj. sem áætlað var í lánsfjáráætlun, eða 52.6% af upphæðinni. Enn á því eftir að skila sér nær helmingur upphæðarinnar eða um 250 millj. af því sem gert var ráð fyrir að fá af fjármagni hjá lífeyrissjóðunum skv. lánsfjáráætlun yfirstandandi árs.

Á árinu 1983 keyptu lífeyrissjóðirnir af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 321 millj., eða 83.4% af þeirri upphæð sem lánsfjáráætlun þess árs gerði ráð fyrir. Ljóst má því vera að ef enn vantar 250 millj. frá lífeyrissjóðunum mun það fé örugglega ekki skila sér eins og ráð er fyrir gert, enda þurfti Byggingarsjóður ríkisins að taka lán hjá Seðlabanka til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Lánsfé er nú áætlað í fjárlögum 1 milljarður 92 millj., en í áætlun frá Húsnæðisstofnun, dags. 7. nóv. 1984, er gert ráð fyrir að 857 millj. komi frá lífeyrissjóðunum, sem er rúmlega 63% hækkun milli ára, og 235 millj. komi frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Óvarlegt er að ætla að nokkurt fé komi frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Ekki síst þegar tekið er tillit til þess að í lánsfjáráætlun fyrir árið 1984 var gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður keypti skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 115 millj., en nú þegar árið er nær á enda hafa einungis skilað sér 16 millj. kr.

Í áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins er gert ráð fyrir að fjárvöntun verði 657 millj. miðað við forsendur fjárlagafrv. og þær áætlanir um lánveitingar sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur gert. En útlánaáætlun hennar hljóðar upp á 2 milljarða 221 millj. kr. Til ráðstöfunar skv. fjárlögum í áætlun Húsnæðisstofnunar er 1 milljarður 564 millj. Mismunurinn er því 657 millj. kr. fjárvöntun. Fjárvöntun er þó í raun mun meiri því óvarlegt er að reikna með hærri upphæð í lántökur eða frá lífeyrissjóðunum en sem nemur um 600 millj. og er það sennilega of hátt áætlað. Ekki er hægt að búast við neinu lánsfé úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Fjárvöntun yrði þá miðað við útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar um 1 milljarður 75 millj. kr., en það er sú upphæð sem þm. Alþfl. leggja til að bætist við í Byggingarsjóð ríkisins. Að auki má benda á að skv. lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á fjár í Byggingarsjóð ríkisins að afla m.a. með árlegu framlagi ríkissjóðs skv. fjárlögum sem nemur eigi lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár, sem samþykkt er af félmrh. og fjmrh. Ef miðað er við þá útlánaáætlun sem fram kemur í fjárlögum, 1600 millj. kr., þá ættu að vera á fjárlögum 640 millj. í stað 550 millj. kr., fjárvöntun því 90 millj. Ef miðað er við útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar, sem er 2.2 milljarðar, ættu að koma á fjárlögum 888 millj. í stað 550 millj. Mismunurinn er því 338 millj. miðað við útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar.

Í áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins varðandi Byggingarsjóð verkamanna, dags. 22. maí, kemur fram að hjá húsnæðismálastjórn liggi fyrir óafgreiddar umsóknir frá 1. ágúst 1983 vegna 379 íbúða í verkamannabústöðum. Að auki er gert ráð fyrir að umsóknir vegna framkvæmda ársins 1985 verði 500–600. Samtals má því áætla að umsóknir fyrir árið 1985 verði ekki færri en 900. Að auki liggja fyrir umsóknir vegna þegar gerðra samninga vegna 350 íbúða sem verða með áframhaldandi framkvæmdum 1985.

Í áætlun Húsnæðisstofnunar er gert ráð fyrir eftirfarandi útlánum úr Byggingarsjóði verkamanna: Vegna þegar gerðra samninga 350 íbúðir, 155 millj. Vegna nýrra samninga er gert ráð fyrir afgreiðslu á 510 umsóknum af þeim 900 umsóknum, sem ráð er fyrir gert að liggi fyrir á árinu 1985, en það eru þá 370 millj. Útstreymi vegna endursöluíbúða er ráð fyrir gert að verði 110 millj., heildarútlán samtals 635 millj. Þessi upphæð, 635 millj., er miðuð við verðlag 1. júní 1984. Miðað við verðlagsþróun á næsta ári má gera ráð fyrir að þessi upphæð verði um 800 millj. kr. Á fjárlögunum er gert ráð fyrir að til ráðstöfunar verði 605 millj. Fjárvöntun skv. ofangreindu í Byggingarsjóð verkamanna er því 195 millj. kr.

Í þessum áætlunum Húsnæðisstofnunar ríkisins er ekki gert ráð fyrir neinum lánveitingum til Búseta. Húsnæðisstofnun hefur þó borist 10. júlí beiðni frá Búseta um lán til byggingar 56 íbúða á árinu 1985 og í DV í gær er frá því greint að tvö Búsetafélög til viðbótar hafi sótt um lán, þ.e. á Akureyri til 12 íbúða og á Selfossi til 8 íbúða, eða samtals 76 íbúða. Ef reikna á með að hægt sé að fullnægja þeim umsóknum, sem liggja fyrir frá Búsetafélögum, má gera ráð fyrir að sjóðurinn þurfi til ráðstöfunar til viðbótar við þessar 800 millj. a.m.k. 110 millj. Heildarfjárvöntun í Byggingarsjóð verkamanna er því um 305 millj. ef standa á við áætlun Húsnæðisstofnunarinnar og að veita Búsetafélögum fyrirgreiðslu. Samtals er því fjárvöntun í Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna 1 milljarður 375 millj. kr.

Till. Alþfl. nú við fjárlagaafgreiðslu í báða sjóðina er aukning um 1475 millj. kr. frá því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Miðað við þessar fjárlagatölur væri í fyrsta lagi hægt að standa við tillögur Húsnæðisstofnunar um lánveitingar úr Byggingarsjóði verkamanna, að auki að veita búseturéttarfélögum umbeðin lán og því til viðbótar þá er nærri lagi að í heild á næsta ári verði hægt að fjármagna úr Byggingarsjóði verkamanna 1/3 af árlegri íbúðaþörf eins og ráð er fyrir gert í lögum um Húsnæðisstofnun.

Varðandi Byggingarsjóð ríkisins er með till. Alþfl. dregið verulega úr lántökuþörf sjóðsins en lántökur hans eru í raun orðnar svo miklar að að óbreyttu stefnir í gjaldþrot sjóðsins. Í öðru lagi er hægt, miðað við þessa fjárveitingu, að greiða skuldina við Seðlabanka og standa við útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar, sem er miðuð við 1100 nýbyggingarlán og 3080 lánveitingar vegna kaupa á eldri íbúðum.

Herra forseti. Ég vil einnig hér í lokin víkja að tveim brtt. þm. Alþfl. á þskj. 300. Í fyrsta lagi er það 6. brtt. á því þskj. sem kveður á um að til kjararannsókna skuli veita 5 millj. kr. sem fara eigi í úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Í því sambandi vil ég minna á að á Alþingi 1980 var samþykkt þál. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum, en markmiðið með þeirri till. var að framkvæmd yrði ítarleg úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu sem mætti verða grunnur að sanngjarnri tekjuskiptingu og hagkvæmara launafyrirkomulagi. Kannanirnar áttu sérstaklega að miðast við að gera grein fyrir hvort vissir hópar í þjóðfélaginu hefðu ekki öðlast þá hlutdeild bætts þjóðarhags sem almennt geti talist réttmætt og skyldi könnunin þannig unnin að á grundvelli hennar mætti ákveða hvaða aðferðum unnt væri að beita til að auka laun og tekjur þeirra einstaklinga og hópa sem verst eru settir. Í tillgr. var kveðið á um 15 atriði sem könnunin ætti sérstaklega að miða að að upplýsa til að fá fram hin raunverulegu launakjör og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Það er skemmst frá því að segja að framkvæmdavaldið virðist algjörlega hafa hundsað þessa till. þrátt fyrir skýlausan vilja Alþingis um að slík könnun fari fram. Því var við borið, þegar ég spurðist fyrir um afdrif þessarar könnunar fyrir 2–3 árum síðan, að Alþingi hefði ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til að hægt væri að framkvæma ítarlega úttekt á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Ég minni einnig á að hæstv. forsrh. hefur á það fallist að sérstök samanburðarkönnun verði gerð á launakjörum kvenna og karla og lagt á það áherslu í svari við fsp. minni nýlega að fjárveiting fáist til þess á fjárlögum fyrir árið 1985. Ég minni einnig á að formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, lagði áherslu á nauðsyn þess í umr. um stefnuræðu forsrh. nýlega að skipuð yrði nefnd sem hefði það verkefni að gera ítarlega úttekt á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og hlutdeild launa í verðmætasköpun og þjóðartekjum. Með vísan til þessara skoðana forustumanna stjórnarflokkanna og með hliðsjón af þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti fyrir fjórum árum um að fram skuli fara ítarleg úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu verður að vænta þess að þessi till. um 5 millj. kr. framlag til þessa verkefnis fái stuðning á hv. Alþingi, en hér séu ekki einn ganginn enn á ferðinni innantóm orð og ályktanir sem í raun býr ekkert á bak við þegar til kastanna kemur.

Í annan stað vil ég fara nokkrum orðum urr. 15. tölul. brtt. á þskj. 300 þar sem kveðið er á um að veitt skuli fjármagn, 10 millj. kr., til aðgerða gegn skattsvikum og er vísað til ályktunar Alþingis sem samþykkt var 3. maí s.l. Í þeirri ályktun Alþingis komu fram mjög fjölþættar aðgerðir sem framkvæma skyldi til að koma í veg fyrir skattsvik. Sumar þeirra till. kosta töluvert fjármagn, m.a. sú till. að stofnuð verði sérdeild við Sakadóm Reykjavíkur, fjölgun sérhæfðra starfsmanna hjá embætti saksóknara og fjölgun starfsmanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Þegar ég spurði hæstv. dómsmrh. um framkvæmd þessara þátta till. nú fyrir skemmstu kom fram í svari hans eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Álag á dómstólunum er nú svo mikið orðið að nauðsynlegt er að bæta þar við fulltrúa og var óskað eftir því við undirbúning fjárlagafrv. nú í vor. Ekki var fallist á þá starfsliðsaukningu við undirbúning fjárlagafrv., en það erindi verður væntanlega skoðað nánar af hv. fjvn. með hliðsjón af fyrrnefndri þáltill. og vænti ég þess að þá fái þessi beiðni jákvæða fyrirgreiðslu.“

Síðar í máli dómsmrh. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Til að mæta auknu álagi vegna aukinnar starfsemi skattayfirvalda að rannsókn skattsvika og auknum fjölda almennra mála var óskað eftir fimm nýjum stöðum rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Á þetta var ekki heldur fallist við undirbúning fjárlagafrv., en ef unnt á að vera að sinna auknum málafjölda á sviði skatta- og viðskiptabrota verður að skoða þessa beiðni nánar nú við afgreiðslu fjárlagafrv. og eins í sambandi við sakadóm.“

Að auki voru í þessari ályktun nokkrir aðrir þættir til að koma í veg fyrir skattsvik sem óhjákvæmilega krefjast töluverðs fjármagns ef í framkvæmd eiga að koma. Vissulega skal hér getið þess sem vel er gert í þessu efni og hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir í þessu máli, en það er að fjölga starfsliði við embætti skattrannsóknarstjóra. En vissulega er ekki nóg að gert með því. Því er nú flutt till. um 10 millj. kr. fjármagn til þessara verkefna sem þál. kveður á um, bæði til verkefna á sviði dómsmrn. og fjmrn. Verður að vænta þess að Alþingi geti fallist á að láta til þessara verkefna nokkurt fjármagn, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umr. sem hér hefur farið fram á hv. Alþingi um að herða allar aðgerðir til að koma í veg fyrir skattsvik, og ekki síst í ljósi þeirrar ályktunar sem einróma var samþykkt hér á hv. Alþingi fyrr á þessu ári.

Að lokum, herra forseti, vil ég í örfáum orðum gera grein fyrir þeirri brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur, Kolbrúnu Jónsdóttur, Kristínu Halldórsdóttur, Salome Þorkelsdóttur, Margréti Frímannsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, sem kveður á um 1 millj. kr. framlag til 85-nefndarinnar sem er samstarfsnefnd í lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna.

Að þessari nefnd standa 23 félagasamtök en í nefndinni eiga sæti fulltrúar stjórnmálaflokka, jafnréttisnefnda og ýmissa kvennasamtaka. Þessi nefnd hefur ýmis og fjölþætt verkefni á prjónunum á árinu 1985 eða við lok kvennaáratugarins og skal ég hér aðeins geta tveggja meginviðfangsefna hennar.

Í fyrsta lagi er fyrirhuguð umfangsmikil listahátíð sem væntanlega verður í sept. 1985 og mun standa í eina viku en áætlaður kostnaður vegna þeirrar hátíðar er milli 1 og 2 millj. kr. Í annan stað fyrirhugar nefndin að gera úttekt á stöðunni eins og hún var í upphafi kvennaáratugarins 1975 og nú í lok hans á árinu 1985 í ýmsum málaflokkum er sérstaklega snerta stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Má þar nefna launakjör, atvinnumál, menntamál, menningarmál, forustu, félagslega stöðu, svo sem í lífeyrismálum, skattamálum, tryggingamálum og dagvistarmálum. Markmiðið er að fá fram hvað áunnist hefur á þessum áratug þannig að betur sé hægt að átta sig á stöðunni og hvernig best sé að halda á málum í framhaldinu til að bæta stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Að úttekt lokinni fyrirhugar nefndin — og sú hugmynd er uppi — að gefa út bók eða rit með niðurstöðum af þessari úttekt. Vænti ég þess að þessari till. verði vel tekið hér á hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég hef lokið við að mæla fyrir þeim brtt. sem ég hef lagt fram ásamt öðrum þm. og læt máli mínu lokið.