13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

1. mál, fjárlög 1985

Löngu er kominn tími til að þeir sem fjármagni útdeila hér á landi spyrji sjálfa sig í fyllstu einlægni hvort þeir vilji í rauninni halda uppi háskóla hér á landi með því sniði sem nú er. Að þeir geri upp hug sinn um hver sé þýðing Háskólans í menningar- og atvinnulífi þjóðarinnar og í leiðinni hver sé meiningin í eftirfarandi kafla úr stefnuræðu hæstv. forsrh., en þar segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega verði hugað að gæðum menntunar. Í landi fárra auðlinda gegnir menntakerfið lykilhlutverki í nýsköpun atvinnulífs. Á það jafnt við um bókgreinar og list- og verkgreinar. Skólarnir þurfa að geta miðlað nýrri þekkingu svo að unnt sé sem fyrst að koma við nútímatækni á öllum sviðum atvinnulífsins. Stefnt er að því að nýta sem best til rannsókna og fræðslu þá sérþekkingu sem Háskóli Íslands og stofnanir hans hafa yfir að ráða.“

Orðin standa hér svört á hvítu, en þau eru ómark á meðan Háskólanum er ekki veitt það fé sem hann þarf á að halda, eins og reyndin er í þeim fjárlögum sem við erum að fjalla um. Það er ekki nóg að segja. Það verður líka að gera. En það er langur vegur þar á milli hjá núv. hæstv. ríkisstj.

Í annan stað flytjum við Kvennalistakonur till. um hækkun framlaga til Námsgagnastofnunar og mun hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir gera grein fyrir þeirri till. á eftir.

Í þriðja lagi flytjum við till. um að framlög til byggingar dagvistarheimila fyrir börn hækki úr þeim aumu 30 millj. sem frv. gerir ráð fyrir í 70 millj. 588 þús. kr. en það er sú lágmarksupphæð sem þarf til að mæta umsóknum sveitarfélaga í þessu efni. Er enn langur vegur í að framlög til þessara mála séu viðunandi.

Fyrr á þessu þingi lögðum við Kvennalistakonur fram frv. til l. um átak í dagvistarmálum barna. Þar er gert ráð fyrir að á ári hverju sé veitt úr ríkissjóði upphæð sem nemur a.m.k. 0.8% af A-hluta fjárlaga til byggingar dagvistarheimila fyrir börn. Miðað við niðurstöðutölu A-hluta fjárlaga 1984 hefði í ár verið um að ræða upphæð sem nemur 147 millj. kr. Forsendur þessarar tillögugerðar eru m.a. þær að við gerð kjarasamninga Alþýðusambands Íslands í október 1980 samdi ríkisstj. um að þörf fyrir dagvistarþjónustu barna skyldi fullnægt á næstu 10 árum. Með bréfi dags. 26. mars 1981 skipaði menntmrh. nefnd til að gera 10 ára áætlun um uppbyggingu dagvistarheimila í landinu. Nefndin, sem lauk störfum 30. apríl 1982, lagði fram umbeðna áætlun byggða á tveimur mismunandi forsendum fyrir þörf á dagvistarrými, og komst að þeirri niðurstöðu að árlega þyrfti að veita úr ríkissjóði 30 millj. miðað við forsendur 1, 50 millj. miðað við forsendur 2, til að því markmiði í byggingu dagvistarheimila, sem samið var um 1980, yrði náð. Tillögur nefndarinnar um upphæð fjárveitinga voru miðaðar við byggingarvísitölu 909. Skv. framreikningi Þjóðhagsstofnunar voru þessar upphæðir orðnar sem hér segir í janúar 1984: Þá voru 30 milljónirnar orðnar að 75.8 milljónum og 50 milljónirnar orðnar að 126.4 milljónum.

Fjárveitingar á fjárlögum til byggingar dagvistarheimila voru hins vegar sem hér segir frá því að ofangreindur kjarasamningur var gerður: Árið 1981 11 millj., árið 1982 15 millj., árið 1983 27 millj. og árið 1984 31 millj. 640 þús. kr. Á þeim fjárlögum sem við erum hér að fjalla um, fjárlögum fyrir árið 1985 eru það 30 millj. Stjórnvöld hafa því þverbrotið þau loforð sem gefin voru í kjarasamningum 1980 og ljóst er að því fer fjarri að þörf fyrir dagvistun barna hafi minnkað á þeim árum sem hér um ræðir. Þvert á móti hefur þörf á dagvistarrými aukist svo umfram framboð sökum núverandi efnahagsástands að neyðarástand hefur skapast í þessum efnum.

Við núverandi efnahagsástæður og þann óheyrilega langa vinnutíma, sem flestum vinnufærum Íslendingum er boðið upp á, hafa feður og mæður lítinn tíma afgangs fyrir börn sín. Hvar eru börnin á meðan foreldrarnir eru að vinna?

Í desember 1983 var rúm fyrir 43.5% barna á landinu á aldrinum 6 mánaða til 5 ára á dagvistarheimilum. Þar af voru 34.6% á leikskólum, sem bjóða aðeins fjögurra stunda fóstrun á dag, en aðeins 8.9% á dagheimilum. Á skóladagheimilum landsins var rúm fyrir 377 börn eða 1.5% barna á aldrinum 6–11 ára á landinu. Á meðan rúmlega 80% kvenna og yfir 90% karla eru úti á vinnumarkaðinum er þetta raunveruleikinn. Jafnvel þótt ekki sé tekið mið af núverandi efnahagsástandi, sem kallar foreldra til vinnu utan heimilis án tillits til barna, er það grundvallaratriði í baráttu fyrir jafnri stöðu karla og kvenna á vinnumarkaðinum að öllum foreldrum standi dagvistarþjónustu fyrir börn til boða, að foreldrar geti sjálfir valið hvort börn þeirra sæki dagvistarheimili, en að ríkið velji ekki fyrir þá eins og nú er.

Því höfum við Kvennalistakonur lagt til á þskj. 298 að framlög til byggingar dagvistarheimila hækki úr 30 millj. kr. í 70 millj. 558 þús. kr. fyrir árið 1985, og það stóra skref, sem taka verður í þessum málum, verði þannig tekið í áföngum.

Frv. okkar um átak í dagvistarmálum barna, sem gerir ráð fyrir öllu hærri framlögum, er nú til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. Ed. Ef það nær fram að ganga, þá er hægt að gera ráð fyrir því við gerð fjárlaga fyrir árið 1986. Við erum því með þessari brtt. við fjárlögin nú að leggja til að bót verði ráðin á þessum málum í tveimur áföngum.

Eins og ég gat um áðan er sú upphæð sem við leggjum til að varið verði til þessara mála, 70 millj. 558 þús. kr., sú lágmarksupphæð sem þarf til að mæta umsóknum sveitarfélaga um byggingu dagvistarstofnana. Í dag barst mér síðan svohljóðandi bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi borgarstjórnar 6. þ. m. var samþykkt með 21 samhljóða atkvæði svofelld tillaga varðandi fjárveitingar til dagvistarmála:

Borgarstjórn Reykjavíkur átelur harðlega fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum til byggingar dagvistarheimila sem birtist í framlögðu fjárlagafrv. fyrir árið 1985. Borgarstjórn skorar því á Alþingi að stórauka framlög til uppbyggingar dagvistarheimila við endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1985.

Á þessu ári var hlutur Reykvíkinga fyrir borð borinn í þessu máli af fjárveitingavaldinu. Þá komu aðeins 18% fjárveitinganna í þeirra hlut. Borgarstjórn væntir þess að slíkt endurtaki sig ekki við afgreiðslu fjárlaga nú.“

Undir þetta bréf skrifar Davíð Oddsson borgarstjóri. Þetta var samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur. Jafnframt hefur mér borist svohljóðandi samþykkt frá Samtökum kvenna á vinnumarkaðnum, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Samtaka kvenna á vinnumarkaðnum, haldinn 2. des. 1984, átelur harðlega þann niðurskurð á framlögum til byggingar dagvistarheimila sem fram kemur í fjárlögum 1985. Sá niðurskurður er óskiljanlegur í ljósi þess að ráðamenn þjóðarinnar hafa viðurkennt að laun einnar fyrirvinnu duga engan veginn til framfærslu heimilis. Fundurinn skorar því á fjárveitinganefnd Alþingis og alþingismenn alla að stórhækka framlög til byggingar dagvistarheimila.“

Þá vil é$ að lokum minna á ályktun þings Alþýðusambands Íslands um dagvistarmál en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við gerð kjarasamninga Alþýðusambands Íslands haustið 1980 hét ríkisstj. að beita sér fyrir því í samvinnu við sveitarfélögin að þörfinni fyrir dagvistarþjónustu barna yrði fullnægt á næstu tíu árum. Síðan eru liðin fjögur ár og ekkert ber á efndum. Þvert á móti hefur framlag til byggingar dagvistarstofnana á fjárlögum farið lækkandi að raungildi hin síðari ár. Af þessum sökum skorar 35. þing Alþýðusambands Íslands á ríkisstjórn, Alþingi og sveitarfélög að gera nú þegar sérstakt átak í þessum málum þannig að staðið verði við gefin fyrirheit og dagvistarþörfinni fullnægt fyrir árið 1990.“

Hv. alþm. ætti að vera ljóst að við svo búið má ekki lengur standa í dagvistarmálum barna. Það er ábyrgðarhlutur okkar sem sitjum á hæstv. Alþingi að sjá til þess að hér verði ráðin bót á og aflétt því neyðarástandi sem nú ríkir í þessum málum hér á landi. Ég skora á hv. þm. að kanna nú grannt hug sinn til þessara mála og veita þessu máli liðsinni sitt.