13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

1. mál, fjárlög 1985

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að mæla hérna fyrir fáeinum brtt. sem ég stend að umfram þær till. sem hv. 3. þm. Norðurl. v. var að gera hér grein fyrir og ætla síðan að víkja nokkuð að einstökum þáttum í fjárlagafrv., þ.e. málefnum aldraðra og málefnum fattaðra. Ég ætla einnig að koma sérstaklega að málefnum Reykjavíkur. Hér er um að ræða framkvæmdir sem taka við ríkisframlögum. Þó að hv. 1. þm. Reykv. hafi ekki séð ástæðu til að kalla þingmannahóp Reykjavíkur saman að þessu sinni tel ég engu að síður nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um málefni Reykjavíkur við þessa umr.

Ég vil taka það fram í fyrstu að ýmsar af þeim einstöku brtt. við fjárlagafrv. sem fram eru komnar eru þannig að ég get fyrir mitt leyti stutt margar þeirra. Ég vil hér sérstaklega nefna till. á þskj. 301 frá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, um endurreisn Viðeyjarstofu og Nesstofu. Sú till. er flutt í rökréttu samhengi við till. til þál. sem hann og fleiri þm. hafa hér lagt fyrir hv. Alþingi.

Á þskj. 297 flytjum við þrír þm. Alþb. brtt. um svokallaða K-byggingu Landspítalans. Mér er ljóst að það er ekki endanlega búið að afgreiða framkvæmdaliði, m.a. ekki Landspítalann. Þess vegna mun ég ekki fara mjög mörgum orðum um K-bygginguna sérstaklega, en víkja aðeins að umr. um hana hér á undanförnum tveimur árum.

11. nóv. 1982 skrifaði ritstjóri Morgunblaðsins forustugrein í blað sitt undir yfirskriftinni „K-bygging Landspítala.“ Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðarátak gegn krabbameini má gjarnan verða hvatning til ríkisvaldsins um að gera sambærilegt átak á þeim vettvangi heilbrigðismála sem heyrir beint undir það, en þar má víða betur gera að ekki sé meira sagt. Mjög brýn þörf kallar á að koma K-byggingu Landspítala upp sem allra fyrst til að koma þýðingarmiklum þáttum í heilbrigðismálum þjóðarinnar í viðunandi horf hvað starfsaðstöðu og tækjakost varðar. K-bygging Landspítala á að hýsa göngudeild geislalækninga, rannsóknastofur í meinafræði og blóðmeinafræði, móttöku og dagdeildir ýmiss konar og síðast en ekki síst skurðdeildir og gjörgæsludeildir sem mjög brýn þörf er á að skapa viðunandi starfsaðstöðu. Það er tímabært fyrir pólitíska yfirstjórn heilbrigðismála í landinu að reka af sér slyðruorðið og láta verkin tala í stað vanefndra orða. K-bygging Landspítala er verkefni sem verður prófsteinn á vilja hennar við afgreiðslu fjárlaga fyrir komandi ár.“ Hér var verið að tala um fjárlög ársins 1983.

Nú vill svo til að þeir sem skrifa í Morgunblaðið telja sig fremur styðja þá stjórn sem nú situr — þó að það sé valt stundum-en þá sem þá sat. Þess vegna mætti ætla að þau sjónarmið sem hér eru skýrð varðandi K-byggingu Landspítalans ættu stuðning í núverandi ríkisstj. og það verulegan stuðning.

Það er rétt að rifja það upp í þessu samhengi að yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni lagði á það mjög verulega áherslu fyrir allmörgum árum að brýnasta verkefnið á þeirri lóð væri ekki K-byggingin, heldur bygging tannlæknadeildar sunnan Hringbrautar. Það er mín skoðun og hefur lengi verið að sjaldan hafi verkefnum verið raðað í jafnvafasama röð og í þetta skipti. Ég held að þeir menn sem lögðu áherslu á það að byggja hús tannlæknadeildar á undan K-byggingunni hljóti að sjá eftir þeirri afstöðu sinni í dag. En það breytir þó engu um þá staðreynd að bygging tannlæknadeildarinnar hefur tafið stórkostlega þá framkvæmd sem hér er um að ræða, K-bygginguna, og komið í veg fyrir að stjórnvöld gætu veitt fjármunum eins og flestir hefðu viljað til hennar. Engu síður er ljóst eftir afgreiðslu Alþingis á síðasta þingi og því næstsíðasta haustið 1982 og haustið 1983 að það er til þess vilji og skilningur á hv. Alþingi að leggja fram fjármagn til að byggja 1. hluta K-byggingarinnar. Ég vona að þau orð sem Morgunblaðið kvað árið 1982 eigi sér einhverja stuðningsmenn í dag. Þau orð, að K-bygging Landspítala er verkefni sem verður prófsteinn á vilja pólitískrar yfirstjórnar heilbrigðismála í landinu við afgreiðslu fjárlaga fyrir komandi ár, eru í fullu gildi nú.

Haustið 1983 var einnig fjallað um K-bygginguna í forustugreinum dagblaðanna, m.a. beggja málgagna ríkisstj. Í forustugrein Morgunblaðsins í fyrrahaust, haustið 1983, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um K-bygginguna:

„K-bygging Landspítala, sem hýsa á krabbameinssjúklinga bæði í geisla- og lyfjameðferð, er brýnasta mannvirkjagerðin á sviði heilbrigðismála í dag, samhliða kaupum á geislameðferðartæki. K-bygging á jafnframt að hýsa skurðstofur, en fjöldi skurðaðgerða á Landspítala er um 4000 á ári, rannsóknastofur og stoðdeildir. Aðstæður í þjóðarbúskapnum bjóða að vísu ekki upp á mikið framkvæmdasvigrúm. Morgunblaðið vill þó leggjast á sveifina með þeim sem halda fram hlut heilbrigðiskerfisins í skiptingu takmarkaðs fjármagns. Velferð fólks, ekki síst heilsufarslega, þarf að skipa öndvegið í þeirri þróun til betri tíma sem við öll kjósum að stuðla að.“

Í Tímanum 30. nóv. 1983 var leiðari með yfirskriftinni „K-álma Landspítalans“ og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess ber að gæta að Landspítalinn er fyrir alla landsmenn, jafnt þá sem búa í strjálbýli og þéttbýli. Einkum gildir þetta um allar meiri háttar aðgerðir. Áreiðanlega eru margar framkvæmdir á vegum heilbrigðisþjónustunnar aðkallandi, en ekki þarf um það að deila að K-byggingin hefur algera sérstöðu.“

M.ö.o.: almennir blaðalesendur og stuðningsmenn núverandi stjórnarflokka hljóta að vera þeirrar skoðunar að í stjórnarliðinu sé alger samstaða um að K-bygging Landspítalans sé forgangsframkvæmd í heilbrigðismálum. Þess vegna hlýt ég að skora á hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj. að taka málefni K-byggingarinnar til athugunar sérstaklega núna milli 2. og 3. umr.

Í tillögum yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni var lagt til að varið yrði 25.4 millj. kr. til K-byggingarinnar á árinu 1985. Það var haustið 1983 að heilbrmrh. Matthías Bjarnason beitti sér fyrir endurskoðun á áætlunum um K-byggingu á Landspítalalóðinni. Að lokinni þessari endurskoðun gerði yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóð ráðh. grein fyrir tveimur kostum um byggingaráætlanir. Var annar sá að húsið yrði byggt án áfangaskipta, en það hefði í för með sér að krabbameinslækningadeild kæmist í gagnið eftir fimm ár. Hinn kosturinn var reistur á tillögum dansks verkfræðings og var sá að skipta byggingunni í tvo áfanga, en með því móti væri unnt að taka krabbameinslækningadeildina í notkun fyrr. Með hliðsjón af því ákvað heilbrmrh. að velja síðari kostinn og að áhersla skyldi lögð á að ljúka krabbameinslækningadeildinni svo fljótt sem kostur væri.

Samkvæmt þeirri byggingaráætlun sem valin var var gert ráð fyrir því að steypa fyrst röskan þriðjung hússins, en síðan að innrétta krabbameinslækningadeild á fjórða ári framkvæmda. Síðari áfangi hæfist síðan með smíði lagnagangs, en svo yrði ráðist í að ljúka uppsteypu alls hússins og loks að innrétta aðrar deildir. Samkvæmt frumáætlunum var byggingarkostnaður við 1. áfanga talinn 123 millj. kr., en kostnaður vegna tækja og búnaðar 65 millj. kr.

Á fjárlögum fyrir árið 1984 voru veittar 12 millj. kr. til framkvæmda og var áætlað að það ásamt eftirstöðvum fyrri fjárveitinga dygði að mestu til jarðvegsvinnu vegna 1. áfanga. Í tengslum við framkvæmdaákvarðanir gerðu heilbrmrh. og fjmrh. með sér samkomulag um fjármögnun framkvæmda þess efnis að auk 12 millj. kr. 1984 skyldi stefnt að því að fjárveitingar til K-byggingar næmu 23 millj. kr. 1985 og 30 millj. kr. a.m.k. á ári 1986–1988 eða alls 125 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu 166 stig.

Eins og kunnugt er hafa framkvæmdir við K-byggingu ekki hafist á þessu ári. Þessi fjárveiting, sem veitt er á árinu 1984, hefur því ekki verið notuð.

Ástæða er til þess nú, herra forseti, að spyrja: Lítur yfirstjórn fjármála ríkisins svo á að það fé sem ætlað var til K-byggingarinnar á árinu 1984 og á árinu 1983 sé geymt fjármagn? Lítur fjmrn. svo á að framlögin 1983 og 1984 séu geymt fjármagn og komi þess vegna skilyrðislaust til notkunar við framkvæmdir við K-bygginguna á árinu 1985 eða lítur fjmrh. svo á að þessar upphæðir, sem veitt var í K-byggingu á árinu 1983 og 1984, séu fallnar niður samkvæmt almennum niðurskurðarheimildum ríkissjóðs sem ákveðnar voru með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum upp á 370 millj. kr.? Ég tel að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, að fá svar við þessari spurningu við þessa umr.

Ekki ætla ég hér, herra forseti, að fara ítarlega út í almenn framlög ríkisins og þróun þeirra til sjúkrahúsa á undanförnum árum. Væri það þó fróðlegur lestur og fróðlegt að skoða töflur sem komið hafa fram frá yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni um byggingar sjúkrahúsa á öllu landinu á árunum 1965 til 1985. Satt best að segja er um að ræða hrun í þessum framkvæmdaframlögum á árunum 1984 og 1985. Þessi afstaða er í góðri samhljóman við aðra afstöðu ríkisstj. til félagslegra framkvæmda þar sem hvað eina hefur verið gert til að skera þær niður, bæði framkvæmdir í hinum ýmsu byggðarlögum í landinu, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds rakti hér áðan, og ekki síður framkvæmdir sem eiga að þjóna landinu öllu eins og Landspítalinn. Ég er þeirrar skoðunar að það sé stórkostlega hættulegt og alvarlegt mál fyrir þróun heilbrigðisþjónustunnar í landinu og almennra læknavísinda hvað þessu hjarta heilbrigðisþjónustunnar, sjúkrahúsaþjónustunnar, sem Landspítalinn er, hefur lítið verið sinnt á liðnum árum, þann tíma sem menn hafa notað til að byggja upp heilbrigðisþjónustuna og heilsugæsluna úti um landið, (Gripið fram í.) enda gæti ég sýnt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni nokkur gögn um það að hér hefur talsvert breytt um. (Gripið fram í.) Hér getum við ekki teiknað, í stólnum, en ég gæti sýnt hv. þm. þetta línurit. Þetta eru mín ár í heilbrmrn. Þetta er hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason. (EKJ: Það vita allir hvenær fátækt skapaðist á Íslandi, en það veit því miður hv. þm. ekki.) Hv. þm. kann greinilega ekki mikið fyrir sér í sagnfræði. Ég hélt að hann væri aðeins betri en þetta. Og fátækt, að hún hafi skapast á Íslandi á síðustu árum. (EKJ: Hefur það ekki skeð?) Nú er kannske rétt að hafa umr. um hvenær hún skapaðist og hverjir beittu sér fyrir því og mun ég gera það að umræðuefni í lok ræðu minnar, enda tíminn nógur og nóttin næg til umr.

Ég mun þessu næst, herra forseti, víkja að annarri brtt. sem ég flyt á þskj. 306 og varðar Blindrabókasafn Íslands. Þar er gert ráð fyrir því að framlög til Blindrabókasafns Íslands verði í staðinn fyrir 3.9 millj. 5.9 millj.

Blindrabókasafn Íslands er tiltölulega nýleg stofnun og hefur verið í uppbyggingu á undanförnum árum. Blindrabókasafnið kom hér til umr. á síðasta hv. Alþingi, þegar fjárlög voru til meðferðar, og þar kom fram að meðal hv. alþm. og hæstv. fjmrh. var góður skilningur á því að þar yrði að auka við þær upphæðir sem voru gerðar till. um frá fjvn. Nú er gert ráð fyrir því að veita 3.9 millj. kr. í þetta verkefni og mun sú tala eitthvað verða hækkuð í meðförum fjvn. Ég er alveg viss um að ef Blindrabókasafnið á að halda óbreyttri starfsemi á næsta ári dugir sú upphæð hvergi nærri sem nú er í fjárlagafrv. Ég skora á hæstv. fjmrh. og hv. fjvn. að íhuga mjög vandlega hvort ekki eru möguleikar til að hækka framlög til Blindrabókasafns á milli 2. og 3. umr.

Við athugun á fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, kom fram að fjárveitingar til Blindrabókasafnsins voru skornar niður um liðlega 3.8 millj. kr. ef miðað var við fjárhagsáætlun stofnunarinnar fyrir 1985. Í þessu ljósi var fjárhagsáætlunin endurskoðuð, en niðurstaða þeirrar endurskoðunar var sú að stofnunin verði ekki rekin á næsta ári án þess að fjárveitingar séu í meginatriðum í samræmi við áætlunina. Eftir að farið hafði verið vandlega í alla liði fjárhagsáætlunarinnar með það fyrir augum að draga úr væntanlegum útgjöldum stofnunarinnar, eins og við verður komið, kom í ljós að það var unnt að gera ýmsar breytingar á áætluninni. Engu að síður var það svo að brýn fjárþörf stofnunarinnar 1985 umfram fjárlagafrv. var mjög veruleg. Mér þætti vænt um ef hv. formaður fjvn. vildi taka þetta mál til sérstakrar athugunar, en samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum var það svo, miðað við fjárlagafrv., að inn í það vantaði í fyrsta lagi vegna launa 600 þús. kr. og í öðru lagi vegna annarra gjalda Blindrabókasafnsins 1 930 000 kr. eða samtals 2 530 000 kr. Nú hefur hv. fjvn. gert till. um nokkra hækkun á Blindrabókasafninu, upp á 800 þús. kr. ef ég man rétt. Það er vissulega spor í rétta átt. En ég er sannfærður um að þarna verður að taka betur á. Ég legg áherslu á að þessi stofnun er í uppbyggingu og framþróun hennar er í verulegri hættu. (ÁJ: 1400 millj.) Hækkunin sem slík? Já, hv. þm. Árni Johnsen hefur upplýst mig um að þessi hækkun sé 1.4 millj. og því ber að fagna. Það er mjög verulega í áttina, en engu að síður... (Gripið fram í: 1244 þús., já.) Ég held að það væri ástæða til að hv. fjvn. tæki þetta mál til betri meðferðar á milli 2. og 3. umr.

Á árinu 1984 var fjárveiting til safnsins ákveðin við 3. umr. og hún var ákveðin eftir að breytingartillögur höfðu komið fram frá ýmsum aðilum. Það var fallist á þá breytingu sem við gerðum till. um. Það var eina till. sem stjórnarandstaðan fékk, að ég hygg, samþykkta hér á síðasta þingi við afgreiðslu fjárlaga. Þrátt fyrir þá hækkun, sem þá var samþykkt til Blindrabókasafnsins, varð nauðsynlegt fyrir hæstv. fjmrh. að samþykkja aukafjárveitingu til safnsins á árinu 1984 upp á 1.5 millj. kr. Ég hygg að það væri meira raunsæi fólgið í því að fallast á þá tillögu sem síðast hefur komið frá Blindrabókasafninu, frá 24. okt. 1984, eða þá til bráðabirgða þá till. sem hér er gerð á þskj. 306 þar sem lagt er til að þessi upphæð verði hækkuð alls um 2 millj. kr.

Á þskj. 306 flytjum við, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, till. um hækkun á lið undir menntmrn., liðnum Æskulýðsmál. Þar er gert ráð fyrir 650 þús. kr. vegna alþjóðaárs æskunnar. Við minnum í því sambandi á að á undanförnum árum, þegar gert var sérstakt átak, t.d. í málefnum fatlaðra, var unnið verulegt starf að stefnumótun og tillögugerð í viðkomandi rn. Ég er sannfærður um að sú tillögugerð og stefnumótun er að skila sér í dag. Ég tel að það væri farsælt ef hv. Alþingi féllist á að hækka þennan lið lítillega, eins og við gerum till. um á þskj. 306.

Ég vil þessu næst víkja orðum mínum að málefnum aldraðra og ég vildi gjarnan, ef hv. formaður fjvn. væri ekki fjarri, nefna það að í till. fjvn. er gert ráð fyrir 14 millj. kr. til hjúkrunarheimila aldraðra sem kemur til viðbótar við þau 30% sem heimilt er að verja í þessu skyni úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Við umr. um málefni aldraðra í hv. Nd. í gær lýsti hæstv. heilbr.- og trmrh. því yfir að hann teldi að þessi till. um 14 millj. kr. til hjúkrunarheimila aldraðra væri víðs fjarri öllu lagi. Hann sagði að hann teldi að í rauninni þyrfti hér að vera um að ræða upphæð upp á 30 millj. Af þeirri upphæð sagðist hæstv. heilbr.- og trmrh. vera með till. um að 20 millj. kr. gengju til B-álmu Borgarspítalans. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. og hv. þm. Pálma Jónsson, formann fjvn., hvort það er ætlun ríkisstj. og meiri hl. fjvn. að beita sér fyrir hækkun á þessum lið til málefna aldraðra í samræmi við yfirlýsingu þá sem hæstv. heilbrmrh. gaf við umr. í Nd. í gær.

Í fimmta lagi, herra forseti, vil ég víkja að máli sem ekki er nú mikið komið inn á beint í till. til fjárlaga fyrir árið 1985, en það er mál sem snertir öryggismál sjómanna. Ég minni á að níu manna þingmannanefnd hefur skilað ítarlegum till. um öryggismál sjómanna samhljóða. Hér er um að ræða margar skýrar tillögur og sumar þeirra eru þannig, að það er hægt án verulegra fjármuna að hrinda þeim í framkvæmd. Ég heiti á hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. og samgrh. að fara mjög rækilega yfir það núna hvort ekki er unnt við afgreiðslu fjárlaga að verja nokkurri upphæð til takmarkaðra verkefna sem snerta öryggismál sjómanna og er ég þar einkum með tvennt í huga. Þessi mál hafa aldrei verið í tillöguformi og eru það ekki heldur nú hér í hv. Alþingi.

Það er í fyrsta lagi til áróðurs- og kynningarherferðar vegna öryggismála sjómanna í upphafi þeirrar vetrarvertíðar sem senn fer í hönd. Hér er um að ræða verkefni sem kostar nokkra fjármuni, en ég hygg að það mætti vel komast af með tiltölulega lága upphæð í þessu skyni sem mundi þó vafalaust geta skilað mjög þýðingarmiklum árangri. Ég held að við eigum ekki að spara við okkur fjármuni af þessu tagi, þ.e. áróðurs- og kynningarstarf vegna öryggismála sjómanna. Ég ætla ekki að fara að taka þetta mál upp almennt og ég vildi ekki flytja um það sérstaka brtt., vegna þess að ég vildi beina því til hv. fjvn. að athuga þetta mál sérstaklega milli umr. án þess að það færi að koma fram um það till. frá einstökum þm.

Hitt málið sem snertir öryggismál sjómanna, sem ég hygg að hafi komið inn á borð fjvn., eru hugmyndir Slysavarnafélags Íslands um sérstakt öryggisnámskeið fyrir sjómenn. Ég geri ráð fyrir að tillögur um þetta efni hafi komið til fjvn., en mjög seint og löngu eftir að tillögur almennt komu þar inn. Þetta var varðandi öryggismál sjómanna.

Í sjötta lagi ætla ég að víkja nokkrum orðum að málefnum Reykjavíkur.

Hinn 10. des. var þm. Reykv. sent bréf frá borgarstjórn Reykjavíkur sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi borgarstjórnar 6. þ. m. var samþykkt með 21 shlj. atkv. svofelld tillaga varðandi fjárveitingar til dagvistarmála:

Borgarstjórn Reykjavíkur átelur harðlega fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum til byggingar dagvistarheimila, sem birtist í framlögðu fjárlagafrv. fyrir árið 1985. Borgarstjórn skorar því á Alþingi að stórauka framlög til uppbyggingar dagvistarheimila við endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1985. Á þessu ári var hlutur Reykvíkinga fyrir borð borinn í þessum málaflokki af fjárveitingavaldinu. Þá komu aðeins 18% fjárveitinganna í þeirra hlut. Borgarstjórn væntir þess að slíkt endurtaki sig ekki við afgreiðslu fjárlaga nú.“

Undir þetta ritar Davíð Oddsson borgarstjóri.

Nú vill svo til að hæstv. fjmrh. var kjörinn forseti borgarstjórnar í upphafi kjörtímabils þeirrar borgarstjórnar sem nú situr. Ég verð að segja að ég hygg að það megi með logandi ljósi leita yfir langan tíma án þess að finna dæmi um aðra eins meðferð á Reykjavík í framkvæmdaframlögum ríkisins og á árinu 1984 og verður á árinu 1985. Í þessu sambandi vil ég t.d. benda á að Reykjavíkurborg fór fram á það með bréfi 19. okt. 1984 að fjárveitingar ríkissjóðs til framkvæmda við barnaheimili á vegum Reykjavíkurborgar 1985 yrðu 25 millj. kr. Hér er annars vegar um að ræða verðbættar greiðslur eftirstöðva vegna stofnana sem teknar hafa verið í notkun, en hins vegar framlög til nýframkvæmda. Borgarstjórn sendi fjvn. einnig bréf með yfirliti yfir framkvæmdir og framkvæmdaáform á árunum 1984 og 1985. Og herra forseti, hver er svo niðurstaðan? Hverjar eru þær tillögur sem gerðar eru að því er varðar Reykjavíkurborg? Þar er um að ræða gífurlegan niðurskurð og það er farið langt niður fyrir þau 18% sem er um að ræða á árinu 1984. Ég hygg að hlutur Reykjavíkur í framlögum til dagvistarheimila hafi aldrei verið eins lélegur og nú.

Í brtt. fjvn. eru nokkrar till. um nýbyggingar í dagvistarmálum sem ekki hafa áður verið teknar inn á fjárlög. Þar er gert ráð fyrir því að taka inn sjö framkvæmdir og það er varið 10 þús. kr. til hverrar framkvæmdar, hvorki meira né minna. Ja, þvílík rausn, jafnvel þó að hún bætist við. Ég hygg að sjaldan hafi verið skorið eins harkalega niður við Reykjavík og nú er gert í þessum málaflokki. Og ekki er það betra þegar kemur að skólunum. Það er fróðlegt að sjá hvernig hæstv. menntmrh., 10. þm. Reykv., og svo langfyrsti þm. Reykv., hv. þm. Albert Guðmundsson, hæstv. fjmrh., þessir þm. kjördæmisins, leika sitt byggðarlag í þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Tökum fleiri dæmi en dagvistarstofnanir. Tökum framlög til skólamála í þessu byggðarlagi. Frá borgarstjórn Reykjavíkur kom tillaga um 20.3 millj. kr. á árinu 1985 til framkvæmda við 2. áfanga Ölduselsskóla, íþróttahús Hlíðaskóla, 3. áfanga Hvassaleitisskóla og 3. áfanga Hólabrekkuskóla. Hvað ætli Reykjavíkurborg hafi fengið mikið af þessum óskum sínum? Jú, það voru 500 þús. í Ölduselsskóla, það voru 500 þús. í íþróttahús Hlíðaskóla. Það voru 100 þús. kr. í Hvassaleitisskóla og það voru 100 þús. kr. í 3. áfanga Hólabrekkuskóla. Hvers á Reykjavík sérstaklega að gjalda í þessu þegar þess er gætt að tveir þm. Reykv., sá 1. og sá 10., gegna ráðuneytum fjármála og menntamála í núv. ráðuneyti Steingríms Hermannssonar?

Þegar komið er að öðrum framkvæmdum blasir það sama við. Tökum annað dæmi í Reykjavík, Seljaskólann. Á næsta ári var fyrirhugað að reisa hús nr. 7 við Seljaskóla. Það var gert ráð fyrir því að kostnaðarhluti ríkisins í þeim framkvæmdaáfanga yrði 11.8 millj. kr. Hve miklu ætti hv. 10. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Reykv. hafi nú séð af af örlæti sínu í þessa framkvæmd? 11.8 millj. kostar hún. Hvað ætti það hafi verið? 500 þús., 0.5 millj. kr.

Hér hef ég nefnt tvö dæmi úr fimm skólum í Reykjavík, þar sem þeim er bókstaflega talað kastað út, gersamlega hent út, og ég ætla að nefna að lokum einn skóla enn, sem er Vesturbæjarskóli, þar sem gert var ráð fyrir framkvæmdum á næsta ári upp á 7.5 millj. kr. Till. er 1 millj. kr. Eini skólinn í Reykjavík sem fær einhver framkvæmdaframlög sem máli skipta er Grafarvogsskóli með 14 millj. kr. Ég held að það hefði verið full þörf á því fyrir 1. þm. Reykv. að kalla saman þm. kjördæmisins til að ræða um þessi mál og það mætti kannske fjalla um þau núna milli 2. og 3. umr. Mér er að vísu tjáð að hv. 1. þm. Reykv. kalli menn helst ekki saman nema það komi krafa um það úr byggðarlaginu, þ.e. að borgarstjóranum þóknist að biðja um að þingmannahópurinn sé kallaður saman. Kannske það sé þannig að borgarstjórinn í Reykjavík hafi ekki farið fram á að það yrði kallaður saman þingmannahópur Reykjavíkur til að fara yfir þau mál sem snúa að þessu kjördæmi. Kannske að gæsla þeirra á brýnustu hagsmunum Reykvíkinga komi í rauninni svona út. Fjmrh. og menntmrh., báðir þm. þessa kjördæmis, virðast láta sér það í léttu rúmi liggja þó að svo að segja öllum beiðnum um framkvæmdir í dagvistarmálum og skólamálum sé hafnað og borgarstjórinn hefur ekki fyrir því að biðja um að það sé kallaður saman fundur þm. þessa kjördæmis. Ég hygg að þessi vinnubrögð séu algert einsdæmi. Og það kemur mér á óvart af hve miklu tillitsleysi menn ganga fram gagnvart Reykjavík í þessum efnum.

Ég minni á að vegna stefnu ríkisstj. er það að gerast að fólk er að flýja af landsbyggðinni hingað til Reykjavíkur þúsundum saman. Þess vegna m.a. verður að skapa aðstöðu fyrir félagslega þjónustu í þessu byggðarlagi, dagvistarstofnanir og skóla. En það er bersýnilega enginn skilningur á þessum aðstæðum hjá núv. hæstv. ríkisstj. og því að hér í þessu kjördæmi býr líka fólk, Íslendingar rétt eins og allir aðrir. Ég skora á hv. 1. þm. Reykv. að svara nokkrum orðum á eftir þeim aths. sem hér hafa komið um Reykjavík og ég mun síðar, ef nauðsyn krefur, við þessa umr. gera grein fyrir stöðu heilbrigðisstofnana í Reykjavík og hvernig þær koma út úr þeirri tillögugerð sem hér er á dagskrá varðandi fjárl. fyrir árið 1985.

Meðal þeirra tillagna sem hér liggja fyrir frá þm. er till. frá þm. stjórnarandstöðuflokkanna um framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég vil í þeim efnum vekja athygli hv. þm. á bréfi Öryrkjabandalags Íslands frá 28. nóv. 1984 þar sem skorað er á hv. alþm. að tryggja að Framkvæmdasjóður fatlaðra fái aukið fé frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það var þm. í salnum áðan sem var að biðja mig um að halda smáerindi um hvernig væri háttað högum fátæks fólks í landinu. Þetta er stjórnarþm., þannig að hann veit áreiðanlega hvað til síns friðar heyrir varðandi þá umr. sem hér stendur yfir. Því miður ætla ég ekki að þessu sinni að verða við þessari ósk í einstökum atriðum. Ég held þó að aldrei hafi verið um að ræða jafndjúpa gjá milli efnaðra einstaklinga á Íslandi og fátækra og er nú. Og fátt er hættulegra fyrir þessa þjóð en að auka það bil sem þarna er um að ræða á milli einstaklinga. (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson... (Forseti: Ég bið hv. þm. um að hafa hljóð á fundinum. Það er aðeins einn maður í ræðustól og hann á að hafa orðið.) Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ætti að fara aðeins yfir það með flokksbræðrum sínum og vinum, m.a. formanni fjvn., hvaða jólakveðjur það eru sem ríkisstj. hefur verið að senda fátæku fólki í landinu síðustu daga. Ætli það væri ekki fróðlegt að fara yfir það fyrir þá félaga og vini, hv. þm. Pálma Jónsson og hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson hvernig gengislækkunin hefur komið niður á fjárhag alþýðuheimilanna að undanförnu? Ætli það væri ekki fróðlegt fyrir þá að kynna sér aðeins hvernig þessum hlutum háttar til hjá því fólki sem nú býr sig undir það að taka við skattalækkuninni frá hæstv. ríkisstj.? Ætli það væri ekki fróðlegt fyrir þessa aðila að fara í kynnisför t.d. upp í Breiðholt? (EKJ: skamma Pálma fyrir það sem þið gerðuð saman?) Það væri nú hægt að ræða um það aðeins hvað við Pálmi gerðum saman. Það er nú annað mál sem þér líkar vafalaust vel við. (EgJ: Þér hefði nú gengið bærilega.) Nei, er nú Egill vaknaður líka? Þá fer að verða gaman hér og er hægt að halda lengi áfram.

Það væri fróðlegt fyrir þessa menn að kynna sér hvernig núv. ríkisstj. hefur innleitt fátæktina á Íslandi, hefur búið til fátæklinga á Íslandi þúsundum saman, fatlaða, sjúka og aldraða, fólk sem aldrei í 30 ár hefur búið við önnur eins kjör og nú. Svo sitja þessar mannvitsbrekkur hér flissandi undir slíkri umr. á hv. Alþingi. Það er vegna þess að þeir kunna ekki að skammast sín, en þeir munu læra það.