13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

1. mál, fjárlög 1985

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. sem ég flyt og er á þskj. 297 ásamt með fleiri brtt. Hún er við 4. gr., lið 02 201, um Háskóla Íslands, og felur í sér að þar verði nýr liður sem hljóti númerið 123 og verði Nám á háskólastigi á Akureyri. Þetta mál hefur áður borið á góma hér á hv. Alþingi í fsp.-tíma og ég get vísað til þeirrar umr. sem þá varð. Þar bar á góma niðurstöður úr skýrslu, sem stjórnskipuð nefnd hafði þá skilað af sér um að efla Akureyri sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarsvæðisins. Liður í þeirri tillögugerð var að taka skyldi upp nám á háskólastigi á Akureyri þegar næsta haust. Nefndin gerði einnig lauslega könnun á því hversu mikið 1. áfangi slíks náms þyrfti að kosta í framkvæmd og ég hef flutt hér brtt. um að þarna komi 5 millj. kr. sem ég tel sæmilega fullnægjandi fjárhæð til að undirbúa og hefja slíkt nám á næsta hausti.

Hv. formaður fjvn., Pálmi Jónsson, vék nokkrum orðum að þessu máli í framsöguræðu sinni áðan og taldi að til greina kæmi að skipa nefnd til að fara ofan í þetta mál og kanna möguleikana á því að koma því á. Út af fyrir sig er ég ekki mótfallinn því og tel að það gæti orðið málinu til framdráttar, en ég bendi á að þegar hefur stjórnskipuð nefnd fjallað um málið og skilað tillögum og hún telur ekkert því til fyrirstöðu að hefja þetta nám þegar á næsta hausti og leggur að því viss drög hvernig því skuli til hagað. Þess vegna tel ég út af fyrir sig ekki þörf á að bíða eftir því að enn önnur nefnd taki til starfa og skili enn annarri skýrslu. Ég held að það væri hreinlegast ef samstaða er um það á annað borð, að menn gengju til verks og settu þarna fjárveitingu á fjárlög svo að unnt væri að hefja þetta nám þegar næsta haust. Ég held að það sé nokkuð ljóst að eins og búið er að högum Háskóla Íslands í því fjárlagafrv. sem hér er til umr. hafi hann lítið bolmagn til að taka þetta verk upp án þess að til þess renni sérstakt fjármagn undir merktum lið.

Það er mikið rætt, bæði hér á hv. Alþingi og víðar í þjóðfélaginu, um að nú þurfi þjóðin að sækja fram á sviði tækni og vísinda og sækja fram í þeim atvinnugreinum sem liggja á þessu sviði. Höfuðstaður Norðurlands, Akureyri, hefur nokkuð verið nefndur í þessu sambandi. Menn hafa rætt um að þar mætti staðsetja væntanlega þróunarstofnun og fleira sem lýtur að rannsóknastarfsemi og þróun hefur borið á góma í sambandi við þennan ágæta stað. Ég held að það mál sem ég flyt hér till. um sé það sem koma ætti fyrst í allri þessari umr., þ.e. að hefja nám á æðri skólastigum sem gæti orðið heppileg forsenda þess að annað kæmi í kjölfarið.

Ég vil víkja nokkrum orðum, herra forseti, að byggingu K á Landspítalalóð sem einnig hefur verið hér til umr. Ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þm. brtt. við fjárlög um að 30 millj. kr. verði varið til þessa verkefnis á næsta ári. Ég sit í stjórnarnefnd ríkisspítalanna og sem nefndarmaður í undirnefnd þeirrar stofnunar sem fjallar um húsnæðismál ríkisspítalanna og mér er því nokkuð kunnugt það ófremdarástand sem sú stofnun öll í heild sinni og Landspítalinn sem slíkur býr við hvað húsnæðismál varðar. Ég vil að inn í þessa umr. komi að í raun og veru eru það ekki bara þær deildir spítalans sem eiga að fá inni í byggingu K, þegar þar að kemur, sem búa við óviðunandi ástand í húsnæðismálum. Það má segja um næstum því alla starfsemi ríkisspítalanna, fyrir utan e.t.v. geðdeildir, að þar er ástand húsnæðismála óviðunandi. Ég vil nefna t.d. rannsóknadeildirnar sem eru í bráðabirgðahúsnæði hér og þar á Landspítalalóðinni. Í nýjustu tillögum sem verið hafa á borði stjórnarnefndar ríkisspítalanna er jafnvel gert ráð fyrir að vegna ýmissa skipulagsbreytinga fái þær deildir ekki inni í væntanlegri byggingu K og þurfi að bíða enn lengur eftir varanlegri úrlausn í sínum málum.

Það er búið að eyða miklum tíma, mikilli orku og miklum fjármunum í að hanna og skipuleggja þessa byggingu og það er nú verið að eyða miklum tíma og mikilli hugarorku í að reyna að hagræða húsnæðismálum á Landspítalalóð að öðru leyti og öll sú vinna gengur út frá því að þær áætlanir, sem uppi eru og settar hafa verið um byggingu K, haldi. Ég tel því, herra forseti, að það muni skapast ófremdarástand ef ekki tekst að halda þessum áformum og ég hvet eindregið til að fjárveitingar til byggingar K verði skoðaðar á milli 2. og 3. umr. og viðunandi úrlausn fáist í þeim efnum áður en fjárlög verða afgreidd héðan frá hv. Alþingi fyrir jól.

Ég vil nefna í nokkrum orðum, herra forseti, annan lið í fjárveitingum, þar sem talin eru fram og tíunduð framlög okkar Íslendinga til þróunarhjálpar. Mér hefur lengi verið að því nokkur raun hversu báglega okkur Íslendingum, í hópi ríkustu þjóða, hefur gengið að hækka þetta framlag, koma því í viðunandi horf. Ég ræddi þetta við afgreiðslu fjárlaga á hv. Alþingi á síðasta ári og ég vil gera það aftur nú þó ég flytji ekki að þessu sinni við þessa umr. sérstaka brtt. við þann lið. Ég tel að okkur sé ekki undir neinum kringumstæðum stætt á því, hvað sem öllum barlómi um þessar mundir líður, að verja jafnskammarlega lágu hlutfalli af þjóðartekjum okkar til þessa verks og raun ber vitni. Við höfum um árabil verið aðilar að alþjóðlegum samþykktum sem kveða á um að þróaðar þjóðir verji helst ekki minna en 1% af þjóðartekjum sínum til þessa verkefnis og er þá miðað við að hlutur ríkisins sé 0.7, en hlutur annarra aðila 0.3 af þessu prósenti. Því fer víðs fjarri að við höfum komist nokkurs staðar nálægt því að uppfylla þessar skuldbindingar og mér sýnist, eins og fjárveitingum horfir í þessu frv., að aftur sígi þarna á ógæfuhliðina. Og eins og ég sagði: hvað sem öllum barlómi líður tel ég að við höfum okkur ekkert til afsökunar og enn þá síður nú þegar daglega berast okkur í gegnum fjölmiðla fréttir og myndir af því hörmungarástandi sem víða blasir við úti í heimi.

Hv. þm. Ragnar Arnalds gerði grein fyrir brtt. sem hann ásamt mér og fleiri þm. flytur á þskj. 308. Þar í er einn liður um Lánasjóð ísl. námsmanna og ég vil fara um hann örfáum orðum til viðbótar því sem hann sagði.

Það er svo með Lánasjóð ísl. námsmanna, eins og reyndar ýmsa fleiri opinbera sjóði okkar, að þeim hefur gengið illa á undanförnum árum að byggja upp það sem kalla mætti eigið fé sitt. Þeir hafa í verulegum mæli verið skikkaðir til þess eða neyðst til þess að lána út fé það sem þeir taka að láni hjá öðrum og gjarnan á lakari kjörum fyrir sína hönd en þau lán voru á sem þeir tóku. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Ætlist menn til þess á annað borð að þessir sjóðir, svo sem eins og Lánasjóður ísl. námsmanna, verði einhvern tíma að burðugum aðila, sem getur sinnt sínu hlutverki án verulegs framlags á hverju ári, verður að koma til ríkisframlag á meðan verið er að byggja þessa sjóði upp. Það sígur á ógæfuhliðina nú með hverju ári sem líður hjá Lánasjóði ísl. námsmanna og ekki er það fegurra sem honum er ætlað í þessu frv. til fjárlaga. Ég vil þó taka það fram að staða lánasjóðsins er sérstök að nokkru leyti í þessu tilliti. Hann gegnir félagslegu hlutverki og hann á að gera það að mínu mati. Þess vegna mun þar og á þar að vera um nokkurt ríkisframlag að ræða. Ég er ekki með þessum orðum að mæla með því að hann verði gerður að óháðri lánastofnun sem ekki megi sinna þeim félagslegu skyldum sem ég tel að honum beri að gera, sem eru fyrst og fremst þær að tryggja öllum þegnum þessa þjóðfélags jafnrétti til náms.

Ég vil minna á að þau fjárframlög sem sjóðnum eru nú ættuð af hálfu hins opinbera eru skýlaust brot á því samkomulagi námsmanna og ríkisins sem gert var fyrir nokkrum árum og byggðist á því að lánshlutfallið yrði hækkað í 100% gegn því að endurgreiðslureglur námsmanna til sjóðsins yrðu hertar. Inn í þetta samkomulag gengu námsmenn og þeir standa og munu standa við sinn hluta af samkomulaginu, þ.e. að greiða samkv. hinum hertu reglum, en ríkið ætlar auðsjáanlega að komast upp með það ár eftir ár að standa ekki við sinn hluta af þessu samkomulagi. Það tel ég ákaflega mikið miður og rangt.

Það er mikið talað um að ríkið eigi að spara á erfiðleikatímum í þjóðfélaginu og það eigi að draga saman eins og aðrir og ganga jafnvel á undan með góðu fordæmi. Það kann að vera nokkur sannleikur í þessu, en ég bendi á að það er ekki alveg sama hvar ríkið sparar. Það er t.d. ekki hyggilegt að á erfiðleikatímum í þjóðfélaginu spari ríkið í ýmsum liðum félagslegrar þjónustu og í stuðningi sínum við þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er að fara úr öskunni í eldinn, að mínu mati, og kemur niður þar sem síst skyldi.

Það er mín skoðun, herra forseti, og ég vil að hún komi hér fram og ég hef reyndar lýst henni áður hér á hv. Alþingi, að ég tel að ríkið vanti fremur tekjustofna í dag en hitt, að það þurfi að létta þeim af sér. Það sem ríkissjóð vantar er að ná til þeirra sem hafa rúm fjárráð, hafa mikla greiðslugetu, og láta þá borga til okkar sameiginlegu þarfa. Það er ekki farið inn á þessa braut í þessu fjárlagafrv. Þvert á móti er haldið í öfuga átt.

Að síðustu nokkur orð um hið opinbera eða um hæstv. fjmrh. fyrir hönd þess sem atvinnuveitanda. Það hefur verið til umr. í fjölmiðlum að fólk flýi frá störfum sínum hjá því opinbera út á vinnumarkaðinn þar sem það getur fengið betur launuð störf einhvers staðar annars staðar. Ég þekki þetta nokkuð hjá nokkrum þeim stofnunum sem ég er kunnugur og ég veit að þetta skapar ýmsa erfiðleika. Þetta getur jafnvel þýtt aukin útgjöld og það svo miklu munar þegar aukin yfirvinna og dýrari launagreiðslur þar með fylgja í kjölfarið. M.ö.o.: þeir sem eftir sitja þurfa að bæta á sig störfum hinna sem hlupu burtu og þá gjarnan í yfirvinnu sem er dýrara fyrir ríkið að kaupa en dagvinnu. Þannig er í þessu ákaflega hæpinn sparnaður, fyrir nú utan það að gjarnan tapar ríkið þarna hæfum starfskröftum. Ég held að það hljóti að vera öllum ljóst, sem um þessi mál hugsa, að það er óhjákvæmilegt að á næstu árum verði hér mikil breyting á. Ég get nefnt kennarastéttina sem dæmi. Ég held að engum, sem kynnst hefur hennar kjörum og fylgst hefur með umræðunni innan þeirrar stéttar á síðustu árum, blandist hugur um að hún mun ekki sitja undir þeim kjörum, sem henni hafa verið skömmtuð síðasta eitt og hálft árið, til langframa. Ég held því að þetta hljóti að vera mál sem þarf að ræða í tengslum við gerð fjárlaga hverju sinni því að ríkið er stór vinnuveitandi og það hlýtur að varða nokkru að það sé samkeppnisfært, að það geti haldið í gott starfsfólk og það geti greitt því mannsæmandi laun. Ég tel að svo sé ekki í dag. M.a. þess vegna eru þessi fjárlög ekki raunhæf. Ég tel að það sé ekki raunhæft, hvað svo sem öðru líður, að setja fjárlög þar sem stærsti vinnuveitandi í landinu ætlar á næsta ári að bjóða sínu fólki upp á kjör sem ekki nægja því til mannsæmandi viðurværis.