14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir frv. til l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum. Þann 26. júní 1978 skipaði samgrh. nefnd til að endurskoða lög um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum og lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Þessi nefnd lauk við að semja frv. til l. um ofangreind efni, sem lögð voru fram og samþykkt rétt fyrir lok þings í vor, en við 1. umr. þessara lagafrv. í Nd. gaf ég eftirfarandi yfirlýsingu:

„Það skal tekið fram við afgreiðslu frv. þessara að stéttarfélög skipstjórnarmanna og vélstjóra víða um landið óska eftir því að fá að gera brtt. við lögin sem lagðar verði fram eigi síðar en 15. okt. á þessu ári. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mun skipa nefnd í málið sem skila mun einu sameiginlegu áliti um þau ákvæði í lögunum sem betur mættu fara.

Ég hef ákveðið að skipa nefnd nú í vor þar sem óskað verður eftir tilnefningu fulltrúa menntmrh., Stýrimannaskólans og Vélskólans í Reykjavík, Farmanna- og fiskimannasambandsins og útgerðaraðila til þess að gera tillögur um breytingu á þessum lögum, þar sem m.a. verði stefnt að því að undanþágur verði ekki veittar þeim sem ekki hafa áður fengið undanþágur til skemmri eða lengri tíma.

Þeim mönnum, sem eftir breytingu laga þessara hafa ekki réttindi, verði gefinn kostur á menntun í sínum landshluta og þannig að því stefnt að undanþáguveitingum verði hætt sem fyrst.“

Í samræmi við þessa yfirlýsingu skipaði ég nefnd 16. júlí til þess að endurskoða hvor tveggja lögin. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar hagsmunaaðila, sjómannaskólanna og menntmrn. Formaður nefndarinnar var Magnús Jóhannesson deildarverkfræðingur Siglingamálastofnunar.

Nefndin skilaði í byrjun nóv. því frv. sem hér er lagt fram. Þegar nefndin hóf störf sín lágu fyrir ítarlegar tillögur um breytingar á gildandi lögum frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík. Við samningu frv. var höfð til hliðsjónar alþjóðasamþykkt um atvinnuskírteini, þjálfun og vaktstöðu sæfarenda frá 1978 sem gildir fyrir farþegaskip og flutningaskip.

Efni þessa frv. skiptist í 8 kafla:

I. kafli. Almenn ákvæði um skilyrði fyrir útgáfu atvinnuskírteinis.

II. kafli fjallar um fjölda skipstjórnarmanna. Þar er lagt til að gerðar verði meginbreytingarnar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi að á flutningaskipum verði krafist tveggja stýrimanna á skipum 1600 rúmlestir og minni. Í gildandi lögum er miðað við 1500 rúmlestir. Í öðru lagi er lagt til að á öðrum skipum 30 lestir og minni verði a.m.k. einn stýrimaður ef samfelldur vinnutími er að jafnaði lengri en 15 klst.

III. kafli fjallar um nám og atvinnuréttindi stýrimanna en IV. kafli um nám og atvinnuréttindi skipstjóra. Það er lagt til í frv. að 1. stig Stýrimannaskólans í Reykjavík og í Vestmannaeyjum gefi réttindi til skipstjórnarstarfa á 200 rúmlesta fiskiskipum í innanlandssiglingum. Skv. eldri lögum veitti nám þetta réttindi til skipstjórnarstarfa á fiskiskipum allt að 120 rúmlestum, en samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að námið geti veitt réttindi á allt að 240 rúmlesta skipum frá og með 1. jan. 1985, ef þetta frv. verður þá ekki orðið að lögum.

Sú breyting er gerð frá gildandi lögum að þau réttindi, sem áður miðuðust við 30 rúmlestir, hækka ekki eins og gert var ráð fyrir í lögunum sem taka eiga gildi 1. janúar.

Í 7. gr. eru gerðar nokkrar breytingar á tilhögun náms og prófa til 30 rúmlesta skipstjórnarréttinda. Nú verður nám þetta í umsjá menntmrn. sem þá fer með yfirstjórn allra menntunarmála skipstjórnarmanna. Lagt er til að kennsla verði tekin upp í grundvallaratriðum sjóhæfni og stöðugleika skipa fyrir próf þetta til viðbótar því námsefni sem núna er.

VI. kafli fjallar um atvinnuskírteini og eru ákvæði hans að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum. Þó er nýtt ákvæði í 17. gr. sem fjallar um réttindi þeirra manna sem öðlast hafa skipstjórnarréttindi samkvæmt lögum frá 1973 og fyrir gildistöku þeirra laga.

Það er einnig rétt að vekja athygli á 13. gr. frv. Breyting er gerð á greininni til samræmis við ákvæði alþjóðasamþykktarinnar um menntun og þjálfun áhafna sem ég áður gat um. Atvinnuskírteini verða gefin út tímabundið, eða til fimm ára í senn, en slíkt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum.

VII. kafli fjallar um mönnunarnefnd og undanþágur. Það hafa verið miklar umræður um undanþágur til skipstjórnarstarfa og erfiðleika útgerðarmanna við að fá menn með fullnægjandi starfsréttindi. Hér er tvennt lagt til til lausnar þessum vanda. Í fyrsta lagi að skipstjórnarmönnum, sem starfað hafa á undanþágu í a.m.k. 24 mánuði 1. janúar n.k., skuli næstu tvö skólaárin boðið upp á námskeið sem haldin verði í öllum landshlutum til öflunar takmarkaðra réttinda á fiskiskip. Ákvæði hér að lútandi er einnig að finna í ákvæðum til bráðabirgða. Þeir sem starfað hafa um lengri tíma á undanþágu hafa með því öðlast umtalsverða starfsreynslu og þekkingu, þó svo að sú leið til öflunar réttinda sé ófær samkvæmt gildandi lögum. Því er réttlætanlegt nú að koma til móts við þá skipstjórnarmenn sem starfað hafa á undanþágum í langan tíma. Tekið er tillit til þjálfunar og starfsreynslu með því að bjóða þeim upp á námskeið af þessu tagi.

Það er lagt til að lengd styttri námskeiðanna, er veita skipstjórnarréttindi á fiskiskip og önnur skip allt að 80 rúmlestir í innanlandssiglingum, verði þrír mánuðir, en lengri námskeið, er veita skipstjórnarréttindi á fiskiskip og önnur skip í innanlandssiglingum allt að 200 rúmlestir, verði fimm mánuðir sem hugsanlega mætti tvískipta. Verði frv. samþykkt mun samgrn. standa fyrir kynningu á námskeiðum um allt land.

Þá er lagt til að heimilt verði að veita mönnum, sem eru 50 ára og eldri og starfað hafa mjög lengi eða meira en 10 ár á undanþágu, takmörkuð ótímabundin réttindi. Hér er um að ræða menn sem öðlast hafa mikla starfsreynslu og eru komnir á þann aldur að þeir munu tæpast setjast á skólabekk. Þessi réttindi miðast við störf á ákveðnu skipi sem viðkomandi starfar á. Ljóst er að hér er um mjög takmarkaðan hóp skipstjórnarmanna að ræða.

Það er rétt að vekja athygli á mönnunarnefnd sem skal skipuð skv. 19. gr. frv. Hlutverk mönnunarnefndar er að ákveða frávik frá ákvæðum laganna bæði til fjölgunar og fækkunar skipstjórnarmanna. Auk þess skal nefndin taka tillit til vinnuálags skipstjórnarmanna þegar hún fjallar um einstök mál. Með stofnun þessarar svokölluðu mönnunarnefndar er höfð hliðsjón af svipuðu fyrirkomulagi í Danmörku og Noregi.

Um undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða gerð skips er fjallað í 21. gr. frv. Undanþágu veitir fimm manna nefnd sem samgrh. skipar.

Þessar tvær nefndir eru sameiginlegar fyrir þetta frv. og frv. til l. um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða.

Þá er hér mikilvægt atriði: Ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð sérstakt gjald fyrir veittar undanþágur sem undanþáguhafi greiðir og renna skal í sjóð sem ætlað er að veita lán og/eða styrki til þeirra undanþáguhafa sem fara í nám til öflunar starfsréttinda.

Í framangreindri reglugerð, sem væntanlega öðlast gildi um leið og lögin og er í smíðum, er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti veitt mönnum styrki strax á komanda hausti.

Það er mjög ánægjulegt að full samstaða náðist í nefndinni um þetta frv. eftir margra ára baráttu. Allir nm. standa að þessu nál. og samningu þessa frv.

Í Nd. voru gerðar nokkrar minni háttar breytingar á frv. Tvær þeirra voru svona til frekari skýringar, sumar voru nánast leiðréttingar. Þar var ítarlega farið yfir málið og formaður frv.-nefndarinnar og einn nm. annar mættu á fundi samgn. Nd. Þar varð samkomulag um þessar breytingar og samkomulag um málið í heild við afgreiðslu þess í Nd.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn. Ég legg á það mjög ríka áherslu að hraða afgreiðslu málsins því ella kemur frv., sem lögfest var í vor, til umr. og þá verður sennilega allur friður úti. Því er mikilvægt að afgreiðsla fari nú fram áður en þing fer í jólafrí.