14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég tek hér til máls um það mál sem nú er á dagskrá til að fagna því að það skuli borið fram og komið til Nd. Það á sér nokkra forsögu. Ég vildi segja það hér í upphafi að það er ekki seinna vænna að við sjáum þetta mál hér í þingsölum. Það höfðu margir vonast eftir því að frv. á þessa lund yrði borið fram á síðasta þingi og urðu fyrir vonbrigðum að svo væri ekki gert. Ég var einn í þeirra hópi. Til þess lágu þá ástæður sem voru skýrðar, þ.e. ástand ríkissjóðs á síðasta ári. Því meiri ástæða er til þess að fagna því að nú skuli hér hafa verið gerð sú bragarbót að bera fram frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Ég vil í upphafi minnast örlítið á forsögu þessa máls. Það var fyrir síðustu alþingiskosningar, vorið 1983, að Sjálfstfl. gerði um það landsfundarsamþykkt og síðan var það eitt af meginatriðum í kosningastefnuskrá hans að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum í áföngum. Eftir að Alþingi kom saman að loknum kosningum báru allmargir þm. Sjálfstfl. fram þáltill. um þetta mál til efnda á þessu fyrirheiti. Það er rétt að taka það fram að þáltill. mjög svipaðs eðlis var einnig borin fram af þm. Alþfl., þannig að þá þegar var ljóst að allstór hópur þm. var þessu máli greinilega sérlega meðmæltur, fyrir kosningar kom það raunar fram að fleiri flokkar töldu að fara bæri inn á þessa braut.

Þann 22. maí í vor var síðan samþykkt þáltill. sem innihélt meginefni þeirra tveggja þáltill. sem ég nefndi. Var það efni hennar að fjmrh. skyldi leggja fyrir þing nú í haust, þegar það kæmi saman, nánari tillögur um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum. Það eru efndirnar á þeirri þáltill. sem við höfum fyrir framan okkur nú. Hér er þess vegna stigið mjög merkt spor. Við höfum ekki séð í lagasögu okkar lengi, ekki hátt á þriðja áratug, aðgerð sem þessa þar sem hér er raunverulega um að ræða grundvallarbreytingu á skattakerfi landsins.

Tekjuskatturinn hefur verið allmikilvæg tekjuöflunarleið og var það sérstaklega hér fyrr á árum. Hann er allmikilvægur enn í dag þó að hann hafi ekki verið nema 10% af tekjum ríkissjóðs á liðnum árum. En þegar lagt er inn á þá braut að afnema hann af öllum almennum tekjum sætir það vitanlega nokkrum tíðindum.

Hér hefur, af eðlilegum ástæðum kannske, verið farið inn á þá braut að framkvæma þessa aðgerð í áföngum. Við höfum heyrt það á máli fjmrh. að gert er ráð fyrir að hér sé um þriggja ára tímabil að ræða. Það kemur heim og saman við þá tölu sem við sjáum í þessu frv. sem er 600 millj. kr. lækkun tekjuskattsins. Ef við lítum á nettóupphæð tekjuskattsins á þessu ári, þá er hún 1800 millj., þannig að hér er um þriðjungs lækkun frá þeirri tölu að ræða.

Það er út af fyrir sig vel og því ber að fagna að þetta skref er þó stigið. Hins vegar hefði verið miklu æskilegra ef unnt hefði verið að framkvæma þetta á skemmri tíma en þremur árum. Það leit svo sannarlega út fyrir það í samningunum á liðnu sumri og liðnu hausti að hin svonefnda skattalækkunarleið yrði farin, þar sem ríkisstj. kvaðst mundu beita sér fyrir því að tekjuskatturinn yrði lækkaður um 1100 millj. kr.

Því miður náðist ekki samkomulag í vinnudeilunum um kjarasamninga við verkalýðssamtökin á þessum grundvelli. Ég ætla ekki hér að rekja þá sögu né nefna af hverju það var eða hverjir báru á því helst ábyrgð. Það þjónar engum tilgangi nú, eftir að sá hlutur er búinn og gerður. En þegar maður veltir því fyrir sér hvort ekki væri unnt að afnema tekjuskattinn af almennum launatekjum á skemmri tíma en hér er gert ráð fyrir hlýtur hugurinn að hvarfla til þessara atburða á síðasta hausti með sérstöku tilliti til þess að kjarasamningar við launþegahreyfinguna í landinu standa fyrir dyrum strax á miðju næsta ári. Það er þess vegna full ástæða til að láta þá von í ljós að bæði ríkisstj. og verkalýðshreyfingin athugi þá leið af fyllstu alvöru og nægilega tímanlega hvort hér er ekki einmitt um þá leið að ræða sem gæti reynst einna affarasælust og farsælust lausn á kjaramálum á komandi ári.

Það er kannske óþarfi að tíunda það hér sérstaklega, það hefur svo oft verið sagt áður og fjmrh. vék að því hér í sinni framsöguræðu, hvers vegna svo breið samstaða virðist hafa tekist um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum. Það er vitanlega fyrst og fremst vegna þess, sem einnig var ágætlega rakið af síðasta ræðumanni, hv. þm. Svavari Gestssyni, að hann er í sjálfu sér nú orðið ranglátur skattur. Hann er fyrst og fremst skattur á opinbera starfsmenn, hann er í öðru lagi skattur á launamenn og hann er skattur sem ákaflega illa skilar sér og í því er mikið ranglæti fólgið. Og það er af þeim ástæðum og þeim orsökum sem viðhorfin eru nú orðin önnur en fyrir nokkrum áratugum þegar flestir voru fylgjandi því að innheimtur skyldi tekjuskattur svo sem verið hefur. Þar að auki er hann vitanleg.a á sinn hátt vinnuletjandi, eins og fjmrh. benti einnig á.

Ég held að það beri ekki síður að fagna þeirri miklu samstöðu milli stjórnmálaflokkanna sem hefur náðst hér um þetta mál. Og það er vitanlega ákaflega mikilsvert atriði fyrir framtíðarþróunina og framkvæmdir á næsta ári í þessum efnum.

þáltill. sem ég minntist á áðan spratt úr till. Sjálfstfl. og Alþfl. Hún var samþykkt þann 22. maí á Alþingi í vor, ekki aðeins af þm. þessara flokka heldur af þm. allra flokka, um hana var algjör samstaða. Það var mjög ánægjulegt að sú skyldi vera niðurstaðan. Í öðru lagi er ástæða til þess að undirstrika það, sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan í sinni ræðu, að algjör samstaða náðist um þetta mál í Ed., þannig að því fylgdu allir flokkar. Þess vegna má búast við því að svo verði einnig við umr. hér og afgreiðslu málsins í Nd. Slík samstaða allra flokka er vitanlega mjög mikilvæg um þetta mál vegna þess að hún tryggir framgang þess.

Það er rétt að undirstrika að í frv. felst tekjuskattslækkun fyrir alla skattgreiðendur, örlítið misjafnlega mikil þó, vegna þess að öll skattahlutföll í skattstiga eru lækkuð, en þó mest hið fyrsta. Og það má spyrja: Af hverju er hið fyrsta lækkað mest? Það er sama hugsunin á bak við það og að skattþrepin eru þrengd. Það er gert í þeim tilgangi að beina lækkun skatta einkum að hinum tekjulægstu. Það er mjög mikilsvert atriði sem rétt er að undirstrika.

Í öðru lagi hafa skattfrelsismörk tekjuskattsins verið hér allverulega hækkuð. Við getum tekið hér hjón þar sem annað aflar allra teknanna. Mörkin hefðu orðið á næsta ári að óbreyttri skattbyrði 322 þús. kr., en verða u.þ.b. 370 þús. kr., svo aðeins ein tala sé nefnd í því efni.

Í fjárlögum sem nýlega hafa gengið í gegnum 2. umr. í Sþ. sjáum við að þar er áætlað að tekjur ríkissjóðs af tekjuskattinum verði nettó á næsta ári þó ekki nema 1535 millj. kr. eða milli 6 og 7% af fjárlögum. Samsvarandi tala hefur verið 10%, þannig að hér er strax um greinilega lækkun að ræða, enda er í fjárlagatölunni gert ráð fyrir að þetta frv. muni taka gildi nú á þessu haustþingi.

Það er í öðru lagi annað atriði sem er ástæða til að undirstrika. Ég nefndi skattalækkun fyrir alla og þá sérstaklega fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Í öðru lagi er það spurningin um það hvað á að koma hér í staðinn. Í forsendum fjárlaga, sem lagðar voru fyrir þingið í haust, kom fram að þó ætlunin væri að lækka tekjuskattinn um þriðjung eða 600 millj. var því bætt við að þessu tekjutapi ríkissjóðs yrði á hinn bóginn mætt með neyslusköttum, eins og það var þar orðað. Þetta gladdi nú ekki sérlega þá menn, eins og þann sem hér stendur, sem hafa haft á því mikinn áhuga og beitt sér fyrir því að fram næðu þær tillögur og þau fyrirheit sem samþykkt höfðu verið hjá stjórnmálaflokkum um tekjuskattslækkun vegna þess að í sjálfu sér hefði þar verið um lítinn hag almennings að ræða ef jafnþung byrði hefði verið lögð á herðar hans í mynd annarra skatta. — Ég vil þó skjóta því hér inn að ég tel að það sé tvímælalaust að óbeinir skattar koma hér miklu réttlátar niður en beinir skattar eins og tekjuskatturinn.

En síðan átti það sér stað, er fjmrh. svaraði fsp. frá mér í Sþ. nú um miðjan nóv. um framkvæmd skattalækkunartillagnanna, að hann gat þess að hann mundi beita sér fyrir því, eins og hann orðaði það, að ekki kæmu aðrir skattar á móti tekjuskattslækkuninni, þannig að hér yrði um nettóskattalækkun að ræða. Hér var vitanlega um grundvallarbreytingu að ræða og mjög til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, eins og liggur raunar í augum uppi. Þessi afstaða fjmrh. hlaut síðan samþykki í ríkisstj., en hér var um grundvallarstefnubreytingu að ræða frá því, sem stóð í forsendum fjárlaga, að aðrir eða neysluskattar kæmu hér upp á móti. Það ber sérstaklega að fagna þessari stefnumörkun og þessari ákvörðun ríkisstj. fyrir forgöngu fjmrh. í þessu efni.

Það hefur verið um það rætt að 0.5% hækkun söluskatts sé raunverulega mótvægi hér við lækkun tekjuskattsins. Þetta er vitanlega hin mesta fásinna og firra vegna þess að það liggur ljóst fyrir að sú aðgerð hefur verið framkvæmd til þess að vega þó ekki sé nema að litlu leyti upp á móti endurgreiðslu 500 millj. kr. söluskatts til sjávarútvegsins. Sú hækkun er 200–250 millj. kr., en endurgreiðslan til sjávarútvegsins nemur 500 millj., þannig að hún vegur ekki nema upp í tæpan helming. Það má hins vegar til sanns vegar færa að vitanlega er um ýmsar aðrar álögur að ræða sem þessa dagana hafa verið að aukast og má kalla óbeina skatta, eins og hækkanir á áfengi og tóbaki. Það er þó árviss viðburður og reyndar oft á ári og kemur ekki svo sérlega inn í þessa mynd. En hins vegar má segja að nú er tekjuskatturinn þó ekki orðinn nema mjög lítill hluti af tekjum ríkissjóðs eða 6–7% og þess vegna má ugglaust lýsa þeirri von að ekki þurfi að koma til sérstakra álaga þegar fram verður haldið við afnám hans. Það væri langhagstæðast ef unnt væri að beita hér samdrætti og sparnaði í rekstri ríkisins meðan á þessari tekjuskattslækkun stæði. Framtíðin verður hins vegar að leiða í ljós hvernig það gengur og hvernig á þeim málum verður tekið, en alla vega er það tíðindavert að þessi fyrsti áfangi, þetta fyrsta spor skuli þó hafa verið stigið án sérstakra nýrra skatta.

Í þessu sambandi vil ég undir lokin aðeins minnast á annað atriði í þessu frv. sem að mínu mati horfir mjög til bóta. Það er að nú er í fyrsta sinn tekið á því vandamáli sem nefnt hefur verið húsmæðraskattur. Það er einfaldlega það að hjón með sömu tekjur hafa greitt mjög mismunandi skatta, eftir því hvort bæði hjónin vinna úti eða aðeins annað. Nú er það vitanlega svo að oft er það að menn hafa um það frjálst val hvort bæði hjónin vinna úti eða aðeins annað. En það er einnig oft að hjónin eiga þess ekki kost að bæði vinni úti. Þar getur komið margt til, börn á heimili, veikindi og fleira. Þess vegna hefur það verið í hæsta máta óréttlátt að hegna þeim fjölskyldum þar sem fyrirvinnan er aðeins ein með verulega hærri tekjusköttum sem hafa numið allt að 80 þús. kr.

Nú hefur verið stigið eitt skref í átt til þess að leiðrétta þetta ranglæti. Það er þó alls ekki jafnað hér til fulls, það er fjarri því. En með þeirri heimild, sem í frv. felst, að leyfa millifærslu til hins makans, þ.e. að færa yfir ónýttan hluta neðsta skattþreps hjá hinu tekjulægra hjóna að hámarksupphæð 100 þús. kr., þá er þetta þó nokkur leiðrétting sem getur hæst numið 11 þús. kr. í skatti. En eins og ég segi höfum við fjölmörg dæmi þess að mismunurinn, þó hjón hafi sömu tekjur, getur numið 30, 40, 50 og allt upp í 80 þús. kr. Þessari breytingu ber því að fagna.

Á hinn bóginn er það alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að vitanlega er ýmis kostnaður samfara því ef bæði hjón vinna úti og það er ekki nema rétt að til þess sé tekið tillit þegar þessum málum verða síðar gerð fullnaðarskil.

Ég held að aukið skattaeftirlit sé hér engin lausn alls vanda. Það er vitanlega sjálfsagt að skatteftirlitið sé svo virkt og raunhæft sem kostur er. En það er engin leið út úr þeim ógöngum og því myrkviði sem íslenska skattakerfið raunverulega er orðið að fjölga þar starfsmönnum í miklum mæli, þannig að við búum hér við hálfgert lögregluríki í þeim efnum. Ég tel að það sé ekki lausnin. Lausnin er vitanlega fyrst og fremst sú að skattakerfið sé einfalt og í öðru lagi að skattakerfið sé sanngjarnt. Og ég tel að það frv. sem fjmrh. hefur mælt fyrir hér í dag sé mikilvægt spor í þá átt.