14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Það væri vissulega ástæða til að hafa langt mál um það frv. sem hér er til umr., en þar sem tími er tiltölulega knappur vil ég vísa til framsögu minnar í Ed. Einnig gerði ég allmikla grein fyrir máli þessu á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna og hef ég látið dreifa því meðal þm.

Þegar þetta mál var hér til umr. fyrir um ári voru komnar upp mjög erfiðar aðstæður í fiskveiðum okkar og talið var nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þeirra aðstæðna. M.a. í ljósi þess var frv. þá flutt um breyt. á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni.

Fyrsta ástæðan fyrir því að þær reglur um aflaúthlutun voru teknar upp var sú að ekki var lengur hægt að koma við frekari sóknartakmörkun á þorskveiði en þegar hafði verið gripið til og hætt var við að slík takmörkun leiddi aðeins til þess að sóknin í aðra botnlæga fiskstofna yrði aukin, t.d. ýsu, karfa, ufsa og grálúðu, en þeir stofnar voru áður taldir vannýttir en voru þá taldir fullnýttir, en þegar hið svokallaða skrapdagakerfi var tekið upp á sínum tíma var gengið út frá því að þeir stofnar væru vannýttir.

Önnur ástæða var sú að það var talið mjög erfitt, eins og reynslan hafði sýnt, að takmarka þorskveiðina með sóknartakmörkunum við nákvæm aflamörk. Það hafði oft verið reynt og ávallt hafði veiðin farið mjög verulega fram úr því sem stefnt var að.

Þriðja ástæðan og ekki sú veigaminnsta var sú, að talið var að aflamarksleiðin tryggði betur en önnur leið að sá afli sem til skipta væri dreifðist eins jafnt og réttlátlega á byggðarlög og fiskiskip um allt land og kostur var á. Það má segja að þetta hafi tekist allvel. Það er t.d. alveg ljóst að hefði aflanum ekki verið skipt með þessum hætti og samkeppni verið um aflann er hætt við að mörg skip hefðu orðið algerlega út undan í veiðinni og einnig byggðarlög. Með þessum hætti hefur því tekist að tryggja betur vinnu í landi en ella hefði orðið.

Fjórða ástæðan fyrir því að þessar reglur voru upp teknar var sú að með henni var talið að koma mætti við meiri sparnaði og hagkvæmni í rekstri fiskiskipa en eftir öðrum leiðum. Það er að sjálfsögðu erfitt að fullyrða um hvort þetta hefur tekist, en hins vegar bendir allt til þess að sparnaður hafi orðið verulega mikill. Það hefur t.d. komið í ljós að veiðarfærasala í landinu hefur stórlega minnkað, sérstaklega að því er varðar net, og einnig eru dæmi um að olíusparnaður hafi orðið verulegur. Þá hefur einnig tekist að beina skipum í úthafsrækjuveiði sem hefur aukið hagkvæmni veiðanna.

Það hefur einnig komið í ljós að nokkrum skipum hefur verið lagt eða dregið mjög úr sókn þeirra. Það eru t.d. nokkru færri togarar á veiðum en var áður og hefur verið giskað á að það mundi nema u.þ.b. 7–8 togurum ef litið er á árið í heild. Það er því full ástæða til að framlengja þær heimildir sem gefnar voru á s.l. ári í ljósi þeirrar reynslu sem þegar er fengin á þessu ári.

Hitt er svo annað mál að ýmsir ágallar hafa komið fram á þessu kerfi, eins og alltaf vill verða, og nauðsynlegt að gera þar ýmsar lagfæringar. Ráðgjafarnefnd um þessi mál hefur unnið að því að undanförnu að undirbúa reglugerð fyrir næsta ár, ef þessar lagaheimildir verða veittar, og er vonast eftir því að hún ljúki störfum í næstu viku, en þegar liggja fyrir drög að reglugerð og hafa sjávarútvegsnefndir þingsins fengið þau drög til skoðunar.

Það sem er mikilvægast í þeim breytingum sem þar eru fyrirhugaðar er að auka val skipanna, þ.e. að þau geti öll valið á milli svokallaðs sóknarmarks og aflamarks. Það er mjög þýðingarmikið að auka sveigjanleika í þessu kerfi þannig að þeir sem telja sig fara illa út úr því einhverra hluta vegna eigi annan valkost og sá valkostur yrði svokallað sóknarmark. Ég vænti þess að þessi gögn hafi borist mörgum þm. frá sjútvn.mönnum. Nefndirnar hafa einnig starfað saman að þessu máli. Vænti ég þess að nefndarstörfin muni af þeim sökum taka tiltölulega stuttan tíma.

Ég vildi hins vegar nota tíma minn til að gera hér nokkra grein fyrir bráðabirgðaniðurstöðum úr könnun á viðhorfum útgerðar- og skipstjórnarmanna við hinu svokallaða kvótakerfi 1984, en þessi könnun var gerð á s.l. sumri og var verið að ljúka úrvinnslu úr henni. Þar kemur margt fróðlegt í ljós og eru þar mjög góðar upplýsingar um afstöðu manna til stjórnunar á fiskveiðum þótt það séu alls ekki óyggjandi niðurstöður. Um 50% af þeim sem spurðir voru svöruðu og ætti könnunin því að gefa nokkuð góðar vísbendingar, en það á eftir að vinna frekar úr henni.

Fyrsta spurning í þessari könnun var sú hvort menn álíti að heildarstjórn fiskveiða við Ísland sé nauðsynleg eða þörf. Svöruðu 88.7% því játandi, aðrir svöruðu því játandi með fyrirvara, en 6.3% neitandi.

Önnur spurning fjallaði um það hvort aðilar álíti að stærðarmörk báta 10 brúttólestir, sem veiða úr sameiginlegum kvóta, séu rétt viðmiðun. Því svöruðu 60% játandi, en um 40% sögðu nei með mismunandi rökstuðningi.

Það var einnig spurt hvort rétt væri að hafa sameiginlegan kvóta fyrir fleiri bátastærðir. Því svöruðu játandi 34.7%, en neitandi 65.3%.

Þá var einnig spurt hvort rétt væri að skipta sameiginlegum kvóta smábáta í landshluta. 46.8% svöruðu því játandi, en 53% neitandi.

Ein spurningin var þannig: „Sögusagnir hafa gengið um að reglur um kvótakerfið hafi verið sniðgengnar, t.d. með því að fiski hafi verið landað fram hjá vigt eða slæmum fiski kastað aftur í sjóinn. Hefur þú sjálfur vitneskju um eitthvað slíkt frá fyrstu hendi?“

Okkur þótti mikilvægt að heyra viðhorf manna til þessa. Neitandi svöruðu 75.5%, en játandi svöruðu 24.5% eða samtals 107 aðilar án frekari skýringa. Fiski er landað fram hjá vigt, sögðu 16, fiski er hent í sjóinn, sögðu 60, en 18 töldu að fiski væri bæði hent og landað fram hjá. Það voru 24.5%, sem töldu að eitthvað slíkt hefði átt sér stað, en 21 svaraði ekki.

Þá var spurt: „Í 18. gr. reglugerðarinnar er fjallað um tilfærslur kvóta milli skipa, hvenær þær eru heimilaðar og hvernig það skal gert. Telur þú þessar reglur vera of rúmar?“ þ.e. um millifærslur. — Það voru 38.1% sem töldu þær vera of rúmar, ágætar eins og þær eru sagði 41.1% og of þröngar 20.8.

Þá var spurt: „Aflakvóti einstakra skipa af hverri fisktegund ákvarðast af veiddu aflamagni þess á viðmiðunartímabilinu 1.11.1982 til 31.10.1983, en tók ekki mið af verðmætum aflans. Telur þú að kvóta skips af hverri fisktegund eigi að ákvarða: eftir aflamagni, verðmæti, bæði aflamagni og aflaverðmæti, annað?“ Það voru 26.8% sem töldu að það ætti að vera eingöngu eftir aflamagni, 12.1 eftir verðmæti, 49% eftir bæði aflamagni og aflaverðmæti og 12.1% tiltóku annað eða ýmislegt. Það væri að sjálfsögðu mjög æskilegt að geta farið þá leið sem 49% nefndu, bæði eftir aflamagni og aflaverðmæti, en það liggja hins vegar ekki nægilega góðar upplýsingar fyrir um aflaverðmæti skipanna á þessu viðmiðunartímabili og þess vegna hefur það ekki verið talið fært.

Síðan var spurt: „Er ástæða að þínu mati að hafa allar eftirfarandi sjö fisktegundir inni í kvótanum: þorsk, ýsu, ufsa, karfa, skarkola, grálúðu, steinbít?“ Því svöruðu játandi 39.5%, en neitandi 46.2. Það voru 178 sem sögðu að skarkoli ætti að vera utan við kvóta, 169 steinbítur, 130 grálúða, 101 ufsi, 68 ýsa, 52 karfi og 6 þorskur. Í þessu kemur fram að allir telja mestu ástæðuna til að vernda þorskinn og fæstir að beri að hafa skarkolann og steinbítinn inni í kvóta. Í þeim hugmyndum sem núna liggja fyrir frá ráðgjafarnefnd er talið að ekki sé ástæða til að hafa skarkola og steinbít inni í kvótanum.

Síðan var spurt hvort menn teldu að kvótakerfið hefði leitt til sparnaðar í rekstri fiskiskipanna. 49% svöruðu því játandi, en 50% neitandi. Það er mismunandi rökstuðningur fyrir því, en þarna má segja að það sé nokkuð jafnt á komið um hvort menn telji að það hafi leitt til sparnaðar í rekstri fiskiskipa eða ekki. Því verður við að bæta í þessu sambandi að spurðir voru bæði fiskvinnsluaðilar, útgerðarmenn og sjómenn. Að sjálfsögðu eru það útgerðarmennirnir sem best vita um hver sparnaðurinn er, en þetta svar á eftir að flokka og taka niður hverjir hafa t.d. svarað þessu játandi af hálfu útvegsmanna annars vegar og svo sjómanna og fiskvinnslumanna. Það er að sjálfsögðu mikilvægt, en þetta gefur nokkra vísbendingu.

Síðan var spurt um það: „Hafa orðið breytingar til batnaðar á gæðum landaðs fisks við tilkomu kvótakerfisins?“ Það voru 65% sem svöruðu því játandi, 5.3% bæði já og nei, en 29.7% neitandi af mismunandi ástæðum.

Að lokum var spurt hvernig menn teldu að ætti að stjórna fiskveiðum. Það voru gefnar upp mismunandi leiðir. Í fyrsta lagi aflakvótar á fiskiskip líkt og nú er. Það voru 46.3% sem töldu að svo ætti að vera. Skrapdagakerfi fyrir togara og sóknartakmörkun á báta eins og giltu undanfarin ár vildu 19.2%. Sóknarkvóta á einstök fiskiskip vildu 2.3%. Aflakvóta á verstöðvar eða landshluta vildu 1.9%. Aflakvóta á fiskverkunarstöðvar vildu 1.6%. Verðmætakvóta á skip með takmörkun á þorskveiði vildu 5.8%. Frjálsar veiðar að ákveðnu heildarhámarki á hverja fisktegund vildu 16.2%. Auðlindaskatt, t.d. með sölu veiðileyfa vildu 0.5%. Annað/ýmislegt vildu 6.2%.

Ég er ekki að segja að þessar niðurstöður séu óyggjandi frekar en aðrar skoðanakannanir. Það var lögð í þessa könnun mikil vinna og ég held að hún hafi orðið til þess að menn hafi a.m.k. hugleitt málin betur. Það voru áhafnir skipa sem svöruðu þarna í mjög mörgum tilvikum. Fram kemur í þessari könnun að menn eru almennt þeirrar skoðunar, sé á heildina litið, að hér hafi verið rétt staðið að málum þótt ýmsir ágallar hafi komið fram sem þurfi að lagfæra.

Eitt af því, sem mjög var umdeilt á síðasta þingi þegar um þessi mál var fjallað, var það mikla vald sem sjútvrh. var fengið með því að stjórna þessum málum. Það var að sjálfsögðu ljóst að koma mundu upp margvísleg ágreiningsefni varðandi skipan þessara mála. Því var ákveðið að sérstök nefnd skyldi fjalla um öll slík ágreiningsefni. Í hana voru skipaðir Stefán Þórarinsson deildarstjóri sjútvrn., formaður, Kristján Ragnarsson framkvæmdastjóri LÍÚ af hálfu útgerðarmanna og Helgi Laxdal formaður Vélstjórafélags Íslands af hálfu sjómanna. Þessi nefnd hefur unnið mjög mikið starf á árinu og hún hefur úrskurðað um margvísleg vafamál. Auðvitað hafa orðið þar ítarlegar umr., en það er hins vegar svo að enginn úrskurður var upp kveðinn nema með algerri samstöðu nefndarmanna.

Það er mjög til fyrirmyndar að mínu mati hvernig þessir aðilar og hagsmunaaðilar almennt hafa verið tilbúnir að leggja sig fram til að ná samstöðu í jafnerfiðu og viðkvæmu máli og þetta mál er.

Það hafa í Ed. verið gerðar nokkrar breytingar á frv. Sú veigamesta er sú, að nú er ekki gert ráð fyrir að lögin gildi nema í eitt ár í stað þriggja eins og lagt var til. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mun verra að gildistíminn hafi verið styttur svo mikið. Það er fyrst og fremst vegna þess að það er afar erfitt að geta ekkert sagt um hvernig málum skuli hagað í framtíðinni. Sjútvrn. fær um það spurningar allt árið: Hvernig verður þetta á næsta ári? Við getum ekki undirbúið næsta ár og framtíðina án þess að hafa lagaheimildir.

Það er t.d. nokkuð merkilegt að margir hafa spurt um það og ályktað um það hvort ekki sé heimilt að flytja afla á milli ára, þ.e. ef það er ekki lokið við að veiða afla í ár, hvort þá megi ekki geyma hann fram á næsta ár. Það er margt sem mælir með því. Það væri þá minna veitt og minna um að afli væri framseldur. Hins vegar er ekki hægt að gera slíkt nema til þess séu lagaheimildir og lögin gildi fyrir lengri tíma en eitt ár.

Einnig tel ég t.d. ekki eðlilegt að afli fylgi í öllum tilvikum skipi. Hins vegar er mjög erfitt við það að eiga þegar skip hefur hafið veiðar í upphafi árs að fara þá að breyta aflakvóta þess vegna þess að það hefur verið selt eða fært á milli landshluta. En ef hægt væri að mynda reglur til lengri tíma, t.d. tveggja ára, ég tala nú ekki um ef það væri til þriggja ára, væri hægt að skapa þarna meira öryggi og meira samræmi. Þannig er um marga hluti. Ég tel þess vegna miður að ekki skuli nást um það samstaða að þessi lög gildi til lengri tíma en eins árs. Ég viðurkenni vissulega að mjög margir hagsmunaaðilar hafa mælt gegn því, en hins vegar eru aðrir að samþykkja ályktanir sem ganga út á það að fá meiri vissu um framtíðina.

Við höfum einnig viljað leggja til að þeir aðilar sem velja hið svokallaða sóknarmark hefðu þá möguleika að byggja upp reynslu. t.d. ef þeir velja sóknarmark á næsta ári gæti reynsla þeirra á því ári orðið grundvöllur að aflamarki árið eftir. Með því værum við komnir með sveigjanlegt kerfi þar sem menn gætu unnið sig upp og hægt væri að taka tillit til margbreytilegra aðstæðna. En eftir því sem tíminn er skemmri, þeim mun erfiðara er að gera það.

Einnig var lagt til að það yrði heimilt að úthluta í sérstökum tilvikum, ef skip hverfa úr rekstri, fiskvinnslustöðvum aflakvóta. Það er vissulega orðin miklu minni ástæða til þess þegar lögin eiga aðeins að gilda til eins árs, en það geta komið upp slíkar aðstæður, ef skip hverfa úr rekstri, að heppilegra gæti verið að geta tímabundið úthlutað aflamagni til fiskvinnslustöðvar í stað þess að úthluta til skipanna því að ef ekkert skip er eftir á viðkomandi stöðum þýðir það að viðkomandi byggðarlag fær engan afla. Hins vegar væri hugsanlegt að viðkomandi byggðarlag gæti fengið önnur skip til að veiða fyrir sig ef það hefði ráð á einhverju aflamagni.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði í upphafi væri vissulega ástæða til þess að ég gerði mjög ítarlega grein fyrir þessu máli öllu. Það hefur margt komið fram af minni hálfu um það, bæði í Ed. og á þingum hinna ýmsu hagsmunasamtaka í haust, og ég tel því ekki ástæðu til að endurtaka það allt saman hér, en mun að sjálfsögðu ræða þetta mál frekar eftir því sem umr. fara fram hér og menn biðja um upplýsingar um mál þetta.

Ég vil að lokum leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.