14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hallar nú degi og vel í samræmi við vinnubrögð Alþingis að þá skuli tekinn tími til að ræða aðalatriði þess sem til umr. verður á þessu þingi. Við lifum á fiskveiðum fremur en öðru í þessu landi og það hlýtur að skipta gífurlegu máli hvernig að þeim hlutum er staðið.

Hér liggur fyrir frv. til l. sem er að því leyti sérstakt að það mætti koma efni þess öllu fyrir í einni grein sem hljóðar eitthvað á þá leið: Ráðh. fer með sjávarútvegsmál og setur hann reglugerð um framkvæmd þeirra allra. En einhverra hluta vegna hafa menn viljað eyða pappír og bleki og gert þetta þó nokkuð umfangsmikið í textanum. Ég ætla að byrja á því að vekja athygli á 2. gr.

Við höfum unnið að friðun fiskistofna við Ísland eftir tillögum fiskifræðinga um alllangt skeið. M.a. hefur verið reynt að friða ákveðin svæði á grunnslóð og sjá til þess að smærri bátar einir hefðu aðgang til veiða á þessu svæði. Kannske er þetta bundið minningunum um það þegar togarar toguðu inn á firði fyrir vestan, eins og Dýrafjörð t.d., og vestfirskir sjómenn leituðu stuðnings síns sýslumanns til að fá þeirri ásókn þeirra hnekkt. Ég veit ekki til að af meiri hugprýði og á minni fleytu hafi menn reynt að verja landhelgi þessa lands. Afleiðingarnar voru líka mannskaði, en kannske stappaði það líka stálinu í menn að verja þessa landhelgi í von um að hún yrði handa íslensku þjóðinni og handa íbúum þeirra svæða sem byggju við ströndina.

Nú hefur það gerst að ráðh. hleypti á seinasta ári bátaflota inn á þessi svæði til veiða, þannig að það var bein aðför að smábátum þeim sem þar höfðu áður stundað veiðar. Það var óhemjumikið góðæri til sjávarins við Vestfirði á árinu sem er að líða. Firðir voru fullir af fiski og seinni part sumars og á haustin leitar þessi fiskur út úr fjörðunum og til hafs. Dragnótaveiðarnar sem þarna voru heimilaðar urðu m.a. til þess að menn veiddu þann fisk sem þannig var að leita til hafs. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. er ljóst hvílík hringavitleysa þessi ráðstöfun var, hvílík valdníðsla fólst í því að framkvæma þetta á þann veg og hve mikla vorkunnsemi fátækir menn, sem áttu litla báta, sýndu þegar þeir spurðu m.a. mig hvort hugsanlegt væri að maðurinn gerði sér ekki grein fyrir því hvaða fiskitegundir þeir veiddu í dragnótina.

En sleppum því. Ráðgjafarnir sem lögðu þetta til eru með sitt kaup alveg á þurru og hafa engar áhyggjur af því hvernig fer fyrir þeim mönnum sem trúðu því að þessi hafsvæði væru þeim frjáls til veiða. Í allri lagasetningu skiptir það máli að hinn siðferðilegi bakgrunnur eigi sér grundvöll hjá þjóðinni. Ef hinn siðferðilegi bakgrunnur laga á sér ekki grundvöll leita menn leiða til að hnekkja þeirri lagasetningu.

Landhelgi Íslendinga er búin að vera almenningur frá því að við Íslendingar eignuðumst einhverja landhelgi. Við höfum litið á hana sem sameign þjóðarinnar. Við höfum vissulega viðurkennt að útgerðarmenn, sjómenn, eigendur fiskvinnslustöðva og fiskvinnslufólk í landi væru nátengdari hagsmunalega séð þessari sameign en aðrir landsmenn. Engu að síður hefur það haft grundvallaráhrif á afkomu allra landsmanna hvernig til tókst með veiðar á hverjum tíma. Þau forundur gerðust að þegar talað var um hagsmunaaðila voru allt í einu ekki til aðrir hagsmunaaðilar en sjómenn og útgerðarmenn. Eigendur fiskvinnslustöðva í landi og fiskvinnslufólkið gleymdust gjörsamlega. Það virtist ekki eiga nokkurn rétt. En þegar í alvöruna var komið gerðust enn þá meiri undur. Það voru útgerðarmennirnir einir sem áttu fiskinn í sjónum. Þeir voru allt í einu orðnir eigendur að þessum fiski. Hann hafði þó ekki komið inn á rekstrarreikning hjá þeim á árinu 1983 eða á efnahagsreikning á árinu 1983 sem væri nú sanngjarnt miðað við skattaframtal og hugleiðingar manna um slíka hluti. Nei, þau forundur gerðust að útgerðarmenn voru allt í einu orðnir einu eigendurnir að fiskinum í sjónum hringinn í kringum landið. Og jafnvel þeir sem áttu loðnubáta sem höfðu verið í slipp lengri tíma sáu nú fram á góða daga. Það var bara að selja kvótann og koma sér svo í sólarlandaferð á eftir. Ég hygg að þeir sem hafa verið að úrelda skip á undanförnum árum hefðu gjarnan viljað eiga þau bundin við bryggju til að ná sér í einhvern kvóta og auðvelda leið til fjáröflunar eftir þessari aðferð.

En það var margt annað merkilegt við þetta sölukerfi. Til þess að mega kaupa aflann þurftir þú að eiga skip og ef þú áttir skip undir tíu tonnum máttir þú ekki kaupa afla. Þó að ekkert sérstakt benti til þess að það væri meiri rányrkja þó að veiðarnar færu fram á skipi sem væri tíu tonn frekar en skipi sem væri tólf tonn, þá gerðust þau forundur einnig að það var algjörlega bannað að kaupa kvóta ef þú áttir skip sem var tíu tonn.

Ég hygg að það verði seinlegt að sannfæra íslensku þjóðina um þá siðfræði sem liggur á bak við svona uppsetningu. Það hljóta að vera einhver gífurleg markmið, hagræn eða til björgunar þjóðarheildinni, sem réttlæta slíkar kúnstir. Þess vegna hljótum við að spyrja númer eitt: Voru hin hagfræðilegu markmið á bak við þessa framkvæmd á þann veg að það réttlætti þær aðgerðir sem hér voru lagðar til og framkvæmdar með pomp og pragt? Það er rétt að menn fletti upp á bls. 3 í frv. því takmarkið með fiskveiðistjórn hlýtur að sjálfsögðu að vera það númer eitt að ná fiskinum úr sjónum, þeim fiski sem á að drepa og vinna. Er það ekki númer eitt? Ef það er númer eitt að alfriða allan fisk er náttúrlega einfalt mál að leggja niður allar veiðar. Markmiðið hlýtur að hafa verið að taka ákveðið magn af fiski og koma honum á land. Og nú skulum við líta á hvernig til hefur tekist.

Það er vissulega allt útlit fyrir að okkur takist að veiða ákveðnar fiskitegundir. M.a. tekst okkur trúlega að ná þeim þorskafla sem úthlutað var. Þó er það ekki víst því að heimilt er að láta ógert að veiða þann afla sem úthlutað var. Það er engin refsing við því að fá stóran kvóta og nota hann ekki. En lítum nú á stofna eins og steinbítinn. Það er úthlutað 15 þús. tonnum. Það er búið að veiða 8 þús. Hvar skyldu þeir nú ætla að veiða þennan steinbít við strendur landsins frá ágúst og fram að áramótum sem eftir er? Ég dreg mjög í efa að sú skarkolaveiði, sem hér er áætlað að ná, standist. Það má vera að það takist að veiða þennan ufsa sem verið er að tala um. Ég set einnig spurningarmerki við það. Niðurstaðan er nefnilega sú að kvótakerfið hefur dregið úr hagvexti í landinu. Það hefur komið í veg fyrir að verðmæti sem voru til í sjónum séu tekin á land, unnin og seld. Það er kannske eitt það spauglausasta fyrir ríkisstjórnina íslensku að sitja uppi með það að glötuð tækifæri til verðmætasköpunar hafa runnið fram hjá. Ætli það eigi ekki sinn þátt í því að átökin hér innanlands hafa orðið jafnhörð og raun ber vitni.

Hagfræðileg markmið hljóta að vera þau að ná þeim fiski sem ætlað er að veiða. Hagfræðileg markmið hljóta einnig að vera þau að tryggja að sá fiskur sem veiddur er berist óskemmdur að landi, hann sé verkaður þar á þann hátt að verðmætasköpunin verði sem mest. Menn hafa gumað af því að mat á fiski, sem borist hafi á land á netavertíð, sé betra en á undanförnum árum. Á undanförnum árum gátu menn hengt upp skemmdan fisk og verkað hann í skreið og komist nokkuð vel frá því efnahagslega. Sá markaður er ekki til staðar í dag. Þess vegna lá það alveg ljóst fyrir að sá sem kom með gersamlega ónýtt hráefni gat ekki selt það þegar hann.kom í land nema í gúanó. Það er þessi stóri munur sem hefur orðið til þess að menn tóku það af meiri alvöru að reyna að koma með skaplegt verðmæti að landi. En engu að síður er það stóra vandamál að koma í veg fyrir að fiskur væri eyðilagður með netaveiði, eins og víða hefur verið, látið liggja kyrrt. Það brestur kjark til að taka á því. Hitt vandamálið, sem legið hefur í því að menn hafa eyðilagt fisk með of stórum hölum í flottroll, er einnig látið eiga sig. Stjórnun fiskveiðanna hefur sem sagt ekki beinst að þeim aðalatriðum sem þurfti að beina þeim að.

Fiskifræðingar lögðu fram á seinasta hausti svarta skýrslu, en settu þó í hana mörg ef vegna þess að þeir voru að mæla stofnstærð á þorski við landið eftir annarri aðferð en þeir höfðu nokkurn tíma notað áður. Við höfum á undanförnum árum friðað gífurleg svæði við strendur þessa lands til að ala þar upp fisk. Við höfum reglur um að hægt sé að loka svæðum ef þar er of mikið af smáfiski. Við höfum sögulegar heimildir fyrir því að hægt er að taka 350 þús. tonn af Íslandsmiðum áratug eftir áratug upp á hvert ár. Þess vegna hljótum við að spyrja: Voru leiðbeiningar fiskifræðinganna á umliðnum árum það lélegar, það gersamlega gagnslausar að við stæðum allt í einu frammi fyrir því að ekki væri heimilt að veiða nema 200 þús. tonn? Til hvers voru þá þeirra leiðbeiningar ef slíkt hrun hafði átt sér stað?

Við þetta bætist svo að líffræðinga og fiskifræðinga greinir á um eitt grundvallaratriði í þessum fræðum. Ef meðalþyngd á fiski í fjallavatni fellur miðað við aldur, þá er sagt: Það er allt of mikið af fiski í vatninu. Það verður að veiða meira. Það er allt of mikið af fiski miðað við æti sem til fellur. En ef meðalþyngd á þorski í úthafinu snarfellur vegna þess að hann hefur ekki æti, þá segja menn: Það má ekki veiða þorskinn. Hvar er samræmið í þessu tvennu? Þetta rekst hvort á annað. Það er eins og fiskifræðingarnir hafi bitið sig fasta í að það væri seiðafjöldinn, sem kæmi á hverju ári, sem skipti höfuðmáli, en ekki hitt, hver væru lífsskilyrðin í sjónum, ætismagnið.

Það dynur á mönnum jafnt og þétt að það eigi að gera allan þorskinn kynþroska. Hvar er röksemdin á bak við það? Í landbúnaði, þar sem menn stunda ræktun á dýrum til matvælaframleiðslu, eru það alþekkt sannindi að til þess að framleiða hvert kíló af kjöti á einhverjum grip skipti höfuðmáli að hraðala hann, en ekki hitt, að hann nái sem mestum aldri því þá kostar hvert kjötkíló miklu meira af fóðri. Þess vegna hættu menn m.a. að hafa sauði, en tóku upp á því að fella lömbin á haustin. Þess vegna eru kjúklingarnir drepnir löngu áður en þeir verða kynþroska. Hvaða áhrif skyldi það hafa á ætisþörfina í sjónum hvort við ætlum að brjóta þetta lögmál og krefjast þess að allur þorskur verði alinn upp í þá stærð að hann sé orðinn kynþroska?

Ég verð að segja eins og er að vissulega er fiskifræðin áhugavert fag, en líffræðin er það líka og lífsskilyrðin í sjónum, hitastig sjávar, eru hinir stóru þættir sem hafa hatt afgerandi áhrif á aflagengd við þetta land. Það ár sem nú er að líða hefði sennilega verið með betri árum fyrir Vestfirði hvað veiðimöguleika snerti ef menn hefðu fengið að sækja þar sjóinn á sama hátt og á undanförnum árum. Vegna hvers? Vegna þess að hitinn í sjónum út af Vestfjörðum hefur verið miklu meiri en hann var. Það er engin tilviljun að þeir sem rannsökuðu Arnarfjörð frá Hafrannsóknastofnun á liðnu sumri komust að því að það hefði verið meira líf í firðinum en nokkurn tíma áður á þeim tíma sem þeir framkvæmdu athuganir.

En það er fleira sem ber að skoða í þessu máli. Það getur vel verið að fiskifræðingar hafi ákveðna skoðun á því hve stór stofn þurfi að vera af ýsu, steinbít og öðrum fiskitegundum. En spurningin er ekki bara um stærð stofnsins. Spurningin er líka um hvort þessi stofn er seljanlegur á hverjum tíma. Kannske mætti taka það með í útreikninginn líka hvort hægt sé að sveifla til lífskjörum þjóðarinnar gersamlega eftir duttlungum þessara manna. Þeirra tillögur hljóðuðu upp á 200 þús. tonn á þessu ári, árið 1983 upp á 350 þús. tonn, 1982 450 þús. tonn, 1981 400, 1980 300, 1979 250, 1978 270 og 1977 250. Það sér hver einasti maður að það er gersamlega vonlaust að halda uppi eðlilegri hagstjórn í landinu ef svona rosalegar sveiflur eru raunveruleiki.

Ég hallast að því að það séu ekki síður marktækar sögulegar upplýsingar sem liggja fyrir um hvað veitt hefur verið á Islandsmiðum. Er það orðið svo að sú reynsla sé einskis virði, en ein bátsferð hringinn í kringum landið gefi meiri upplýsingar á haustdögum? Það eru engar smáræðis græjur sem mennirnir eru með til að telja fiskinn í sjónum ef það er niðurstaðan.

Því miður finnst mér sem það hafi örlað á vissum námshroka hjá þeirri stétt sem hefur kynnt sér fiskifræði. Fræðigreinin er ung og þar er margt ókannað. Það er of mikið af fullyrðingum sem byggjast á hæpnum rökum og litilli vísindalegri vinnu á bak við þau rök. Hluti af því er e.t.v. það að við Íslendingar höfum varið of litlu fjármagni til rannsókna á sviði sjávarútvegsmála. Við höfum varið allt of litlu fjármagni til rannsókna á þessu sviði.

Ég vil vekja athygli á að sú stjórnarandstaða sem hér er og hefur talað talar gegn kvótakerfinu. En hver er alvaran á bak við þann málflutning? Jú, alvaran er sú að mönnum er meira í mun að semja um að komast í jólafrí en að standa á þeirri meiningu sinni að þetta kerfi sé rangt. Mönnum er meira í mun að stytta mál sitt til að hraða afgreiðslu þess í gegnum þingið á sama tíma og með vörunum berjast þeir gegn því. Er trúverðug sú afstaða? Það hefur gerst í þessum sölum að menn hafa talað til morguns vegna þess að þeir meintu það sem þeir sögðu og höfðu áhuga á að berjast á móti málum. Hér gerist það aftur á móti að stjórnarandstaðan talar vissulega gegn í orði, en greiðir fyrir framgöngu málsins á borði. Ég verð að segja að ég ber litla virðingu fyrir slíkum málflutningi. Hann er merkingarlaus. Það er engin áhersla þegar menn flytja þannig mál sitt og mig undrar að svo geðlítið lið sé komið inn á Alþingi að menn láti hafa sig í þá þversögn sem liggur á bak við að tala gegn frv. í orði, en gera svo allt til að flýta fyrir framgöngu þess þegar fyrirsjáanlegt er að ef stjórnarandstöðunni væri einhver alvara í sínum málflutningi gæti hún haft afdrifarík áhrif á meðferð málsins í þinginu.