17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það hefði sjálfsagt verið æskilegra hefði ég tekið til máls áður en málshefjandi talaði öðru sinni. Þó hygg ég að það skipti ekki sköpum í þessari umr.

Frsm. kallar eftir því hjá hv. þdm. hvernig fjármagn verði best tryggt til framkvæmda á því sviði sem fjallað er um í frv. Ég held ég verði að svara því fyrir mitt leyti að slíka tryggingu er nánast ekki hægt að gefa, einfaldlega vegna þess, sem þegar hefur komið hér fram, að lögbundin framlög hafa verið skert á undanförnum árum. Það væri e.t.v. hægt að gefa slíka tryggingu ef ákveðið væri í dag að sömu þm. sætu í þessum stólum næstu tíu ár. En við verðum að gá að því að hverju sinni sem fjárlög eru undirbúin og lögð fram er leitast við leggja heildarmat á þá þörf sem ríkir í öllum málaflokkum. Þá komast menn einfaldlega að því hverju sinni að það verður að velja og hafna. Ég vil í þessu sambandi minna á t.d grunnskólabyggingar í landinu. Í fjárlagafrv. því sem nú hefur verið lagt fram fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir 100 millj. kr. til byggingar grunnskóla og skólastjóraíbúða. Ég fullyrði að þessi tala er í engu samhengi við þá þörf sem ríkir. Þá vill sjálfsagt einhver segja sem svo: Ræðumaður mun vafalaust leggja til þegar þar að kemur að sú tala hækki. En allt þetta er byggt á heildarmati, eins og ég tók fram áðan. Að vísu vona ég að menn sameinist um að hækka þá upphæð sem nú er tíunduð í fjárlagafrv. vegna grunnskólabygginga. Svo er mál með vexti, úti á landsbyggðinni í það minnsta, að ekki er hægt að sinna lögboðinni grunnfræðslu í grunnskólum landsins vegna húsnæðisskorts.

Ég minni á þetta fyrst og fremst til að ítreka að við höfum ekki nema takmarkað fjármagn til ráðstöfunar og sínum augum lítur hver á silfrið.

Ég vil ekki gera lítið úr þeim málflutningi sem hv. frsm. hefur haft hér uppi, síður en svo. Og ég geri mér fulla grein fyrir því að uppeldishlutverkið er ríkt og þjóðin öll ber ábyrgð í því hlutverki, ekki aðeins foreldrar heldur samfélagið allt. Ég vil þó taka undir með þeim sem hér hafa fyrst og fremst vikið að hlutverki heimilisins og ég vil taka undir þau sjónarmið sem víkja að því að gera foreldrum kleift í ríkari mæli en raun ber vitni að vera heima við hjá börnum sínum. Ég vil í því sambandi minna á atriði sem borið hefur á góma hér í þingsölum, þ.e. sveigjanlegan vinnutíma. Ég ætla ekki að ræða það frekar og veit að það er mjög mismunandi hvernig hægt er að koma honum við, en á það þarf að líta.

Sem betur fer hafa þessi mál verið leyst a.m.k. á einstaka vinnustað, að ég held, að hluta, þ.e. að því er varðar barnagæslu. Það er sjálfsagt í allt of litlum mæli.

Ég held þegar á allt er litið að það sé eðlilegri leið í sambandi við fjárlagagerð, og raunar gert ráð fyrir því, að leggja heildarmat á þær þarfir sem fyrir hendi eru hverju sinni. Auðvitað er mat okkar mjög misjafnt á því hverja málaflokka við teljum brýnasta, það fer ekki hjá því.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins mæla örfá orð í þessu sambandi. Ég vil taka fram að ég tel þá upphæð sem tíunduð er í fjárlagafrv. úr samhengi við þá þörf sem ríkir í dagvistunarmálum. Ég vil taka fram að hún er of lág. Það hefur verið tekin viss stefna í þessum málum. Við verðum að halda okkur við hana meðan hún er við lýði. En ég vil taka undir það að málaflokknum hefur ekki verið sinnt sem skyldi — en brýnast er að foreldrar eigi þess kost að eyða meiri tíma með börnum sínum.