17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 313 er nál. frá meiri hl. iðnn. sem ég mæli hér fyrir. Þar segir að meiri hl. sé samþykkur frv. og.hann leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Minni hl., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, mun skila séráliti og einnig mun hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir skila öðru séráliti í nafni 2. minni hl.

Þeir sem skipa meiri hl. eru hv. þm. Páll Pétursson, Ingvar Gíslason, Gunnar G. Schram og Birgir Ísl. Gunnarsson auk frsm.

Það frv. sem hér er verið að ræða gerir ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilt að selja hlutafélaginu Landssmiðjunni hf. í Reykjavík ríkisfyrirtækið Landssmiðjuna. Þetta verði gert með þeim hætti að seljanda sé heimilt að lána kaupanda hluta af söluandvirði með verðtryggðum kjörum til allt að tíu ára gegn ákveðnum tryggingum sem ráðh. metur gildar. Um leið og þetta frv. verður samþykkt og öðlast gildi, sem gert er ráð fyrir í frv. að verði 1. janúar 1985, falla úr gildi lög um Landssmiðjuna sem eru frá 1936 með síðari breytingum.

Það er óþarfi, herra forseti, að rekja þetta mál í einstökum atriðum. Það hefur hæstv. ráðh. gert í sinni framsöguræðu hér í hv. deild og að auki er greinargóð grg. með frv. þessu.

Í stórum dráttum má lýsa aðdraganda málsins með því að hinn 8. mars á þessu ári stofnuðu 52 starfsmenn Landssmiðjunnar félag til að kanna grundvöll á samkomulagi við iðnrn. um kaup á Landssmiðjunni og til að kanna rekstrargrundvöll hins nýja fyrirtækis og kynna síðan félagsmönnum niðurstöður þeirra kannana.

Kosin var undirbúningsstjórn félagsins og átti hún ásamt viðræðunefnd ríkisins nokkra fundi. Loks seint í ágústmánuði var gengið frá texta kaupsamningsins. Stofnendur hins nýja hlutafélags, Landssmiðjunnar hf., eru 23 starfsmenn Landssmiðjunnar, en stofnfundur var haldinn 13. september á þessu ári. Hlutafé var ákveðið 4 millj. og 20 þús. kr. og skrifuðu stofnendur sig fyrir hlutum sem voru á bilinu 100 til 210 þús. hver. Kosin var jafnframt stjórn í hinu nýja félagi.

Stærstu atriði kaupsamningsins eru þau að kaupverð er ákveðið 22 millj. rúmar, en undanskilin í sölunni eru hlutabréf Landssmiðjunnar í öðrum fyrirtækjum, eins og Iðnaðarbanka Íslands hf. og Sameinuðum verktökum hf., tilraunafiskimjölsverksmiðju, sem unnið hefur verið að á vegum Landssmiðjunnar s.l. ár, og loks fasteignir Landssmiðjunnar sem ríkið heldur áfram eignarhaldi á.

Gert er ráð fyrir að kaupverð véla og tækja og viðskiptavild greiðist með 20% útborgun en eftirstöðvar eru lánaðar með verðtryggðum kjörum til átta ára.

Í kaupsamningi ríkis og Landssmiðjunnar hf. er gert ráð fyrir að hlutafé Landssmiðjunnar verði ekki minna en 4 millj. og eins og ég hef áður sagt liggur fyrir samþykkt hluthafafundar um að hlutafé verði liðlega sú upphæð.

Seljandi skuldbindur sig, þ.e. ríkið, til þess að leigja Landssmiðjunni núverandi fasteignir Landssmiðjunnar til allt að fimmtán ára og síðan megi segja upp húsnæði af hálfu kaupanda með árs fyrirvara. Reyndar gildir sá réttur fyrir kaupanda ætíð.

Seljandi mun beita sér fyrir því að núverandi verkefni Landssmiðjunnar fyrir ríkisfyrirtæki og stofnanir haldist óbreytt a.m.k. næstu þrjú ár, að því skilyrði uppfylltu að Landssmiðjan hf. verði samkeppnishæf bæði hvað varðar verð og gæði.

Það skal tekið fram að samkvæmt lögum og reyndar hefð hefur Landssmiðjan á undanförnum árum átt forgang að verkefnum fyrir ýmis ríkisfyrirtæki, þ. á m. skip Skipaútgerðar ríkisins, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslunnar, auk þess sem lagaákvæði er um að Landssmiðjan skuli hafa forgang að verkefnum annarra ríkisstofnana.

Það er óþarfi að lýsa þessum samningi miklu meir. Að vísu hefur komið fram nokkur gagnrýni á að ekki skuli öllum hafa verið boðin kaup á fyrirtækinu. Eins og fram kemur í samningnum er þetta samningur bundinn við ákveðið félag, sem starfsmenn Landssmiðjunnar eru í, en þetta er þó talin eðlileg leið til þess að ríkið losi um eignaraðild sína að þessu fyrirtæki, enda sýnast engin rök vera til þess að ríkið haldi úti starfsemi Landssmiðjunnar þar sem hún hefur mjög lítinn hluta samkeppnismarkaðarins undir höndum og breytir í raun engu um þá samkeppni sem nú ríkir á þeim markaði. Á sínum tíma voru auðvitað ástæður fyrir því að ríkið setti á laggirnar slíka smiðju, einkum og sér í lagi vegna þess að engin smiðja í landinu var nægilega stór til að stunda það stórbrotna verkefni þeirra tíma sem brúargerð var, en öllum er ljóst að í dag hafa nýir starfshættir, ný tækni leyst af hólmi gamla tækni sem þá var við lýði.

Jafnframt er þess að geta að þegar Landssmiðjan var endurlífguð á fjórða áratugnum var gert ráð fyrir að hún ætti sérstöku hlutverki að gegna með því að setja vélar í báta, en af því verkefni varð ekki í þeim mæli sem gert var í upphafi ráð fyrir.

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég fagna því að í nál. 1. minni hl. iðnn. gætir nýrra sjónarmiða hjá Alþb. þar sem þar er sagt að hugsanlegt sé að rekstur Landssmiðjunnar verði með þeim hætti að starfsmenn fyrirtækisins ættu kost á eignaraðild. Ég fagna þeirri hugarfarsbreytingu sem felst í þessum orðum og vænti þess að með því séu færðar fram nokkrar sönnur þess að hyggilegt sé að fyrirtæki á borð við Landssmiðjuna sé í einkaeign. (JBH: Þetta var kallað sósíalíska hér í gamla daga.) Sá sem hér stendur í ræðustól og mælir frá eigin brjósti, en ekki fyrir hönd n. eða nefndarmeirihlutans, vill taka það fram að hann hefur um nokkurt skeið verið mjög fylgjandi því að Landssmiðjan verði seld og þá seld starfsmönnum fyrirtækisins. Vil ég því fagna því sérstaklega að hæstv. iðnrh. hefur haft frumkvæði að þessari sölu sem ég held að sé öllum til góðs, bæði seljendum, kaupendum og þá ekki síst þeim sem eiga eftir að eiga viðskipti við fyrirtækið sem auðvitað skiptir mestu máli.

Ekki höfðu allir starfsmenn á sínum tíma mikla trú á því að þetta væri þjóðþrifamál. Ég man eftir því að þegar ég eitt sinn var búinn að vera á fundi í Landssmiðjunni í kaffitímanum að morgni dags í um það bil þrjá tíma, ef ég man rétt, þá kom þessi vísa frá einum starfsmannanna:

Á því tel ég veika von

að vinni þjóð til muna

þó að Friðrik Sophusson

selji Landssmiðjuna.

Ég tel ástæðu til að rifja þessa vísu upp. Ég held að sem betur fer skilji það nú fleiri en áður að engin ástæða er fyrir ríkisvaldið að stunda atvinnurekstur sem aðrir geta séð um og síst af öllu þar sem samkeppni er næg. Þess vegna ber að sjálfsögðu að gera þær breytingar sem hæstv. iðnrh. hefur nú lagt til. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.