17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

5. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti.

Ég vísa til þess að ég gerði á síðasta þingi grein fyrir frv., en það var ekki nýtt þá í hugum margra hv. þm. Það var samið af útvarpslaganefnd sem skipuð var fulltrúum allra flokka. Sú nefnd var skipuð 23. sept. 1981 af þáverandi menntmrh., núverandi hæstv. forseta Nd., til að endurskoða útvarpslögin nr. 19/1971. Í nefndinni áttu sæti þeir Markús Á. Einarsson veðurfræðingur, sem skipaður var formaður hennar, Andrés Björnsson útvarpsstjóri, Benedikt Gröndal fyrrv. forsrh. Ellert B. Schram ritstjóri, Kristján J. Gunnarsson fræðslustjóri, Ólafur R. Einarsson menntaskólakennari, sem nú er látinn, og Vilhjálmur Hjálmarsson þáverandi formaður útvarpsráðs.

Nú er liðið á þriðja ár síðan útvarpslaganefndin skilaði áliti sínu og var því þá dreift til allra þm. Mönnum hefur gefist rúmur tími til að taka afstöðu til þessa máls og það hefur verið mikið rætt á þessum tíma. Frv. var í óbreyttri mynd lagt fram á síðasta þingi að öðru leyti en því, að lítils háttar breyting var gerð í samræmi við þá ákvörðun ríkisstj. að aðeins skyldi greitt afnotagjald af einu sjónvarpstæki á hverju heimili.

Útvarpslaganefndin hafði tekið mið af þremur meginforsendum í starfi sínu:

Í fyrsta lagi að leggja áfram þær skyldur Ríkisútvarpinu á herðar að sjá landsmönnum öllum fyrir fjölbreyttri dagskrá hljóðvarps og sjónvarps og tryggja aðstöðu og tekjur til þess að svo gæti orðið.

Í öðru lagi að leggja til að fleirum en Ríkisútvarpinu yrði veittur réttur til útvarps að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í þriðja lagi að ein útvarpslög fjalli um allan útvarpsrekstur í landinu.

Grundvallarbreytingin í þessu frv. er fólgin í því að fleirum en Ríkisútvarpinu verði veitt leyfi til útvarps. Fyrsti kafli frv. fjallar ítarlega um skilyrðin sem þarf að uppfylla til að slík leyfi verði veitt. Í þeim kafla eru einnig ákvæði um útvarpsréttarnefnd sem skipuð verði skv. tillögu frv. sjö mönnum kjörnum á Alþingi og hún sjái um leyfisveitingar. Skilyrðin eru í aðalatriðum þessi:

Í fyrsta lagi að einungis verði veitt leyfi til útvarps á metra- og desímetrabylgju, en það þýðir að sendingar ná yfir takmörkuð svæði sem í aðalatriðum afmarkast af landfræðilegum aðstæðum.

Í öðru lagi að Póst- og símamálastofnuninni er ætlað að sjá um úthlutun og að tæknilegum skilyrðum sé fullnægt.

Í þriðja lagi að sveitarstjórnir mæli með veitingu leyfa til útvarpssendinga, þ.e. sveitarstjórnir á þeim svæðum þar sem útvarpsstöðvar eru.

Í fjórða lagi að erlendir aðilar fái ekki leyfi til útvarpsreksturs.

Í fimmta lagi að óheimilt sé að senda út efni sem ekki hafi verið aflað leyfis fyrir með lögmætum hætti.

Enn fremur er rétt að geta þess að ráð er fyrir því gert að aðilar sem fá leyfi til útvarpsrekstrar hlíti að sjálfsögðu sömu skyldum og almennri ábyrgð og Ríkisútvarpið og aðrir þeir sem birta efni, einnig að skylda til þjónustu við Almannavarnir ríkisins verði sams konar og gildir um Ríkisútvarpið.

Það sem skiptir meginmáli er að létta af þeim algera einkarétti ríkisins á þessum fjölmiðli sem nú er, þannig að við megum sem fyrst njóta viðlíka frelsis og fjölbreytni um efni sem flutt er á öldum ljósvakans eins og er um prentaða fjölmiðla. Það ætti ekki að vera neitt óeðlilegra nú á dögum að frelsi ríki í þessari tegund fjölmiðlunar en um annað tjáningarfrelsi.

Á fundi menningarmálaráðherra Evrópuráðsríkjanna, sem haldinn var í Berlín s.l. vor, var mikið rætt um nýja strauma í fjölmiðlun. Það var athyglisvert og tímanna tákn að hjá langflestum ráðherrunum kom fram sú skoðun að aflétta bæri einkarétti ríkisvaldsins á útvarpi þar sem það hefði ekki þegar verið gert. Sama skoðun kom fram hjá aðalframsögumanni á norrænni fjölmiðlaráðstefnu, sem var haldin í Stokkhólmi í apríl, þar sem fyrst og fremst var rætt um sjónvarpssendingar um gervihnetti. En þar var einnig fjallað um hina almennu stefnu í þessum efnum og menn gengu út frá því, ef það var ekki þá þegar almenn pólitísk stefna í löndunum að ríkið hefði ekki einokun á fjölmiðlun í útvarpi eða sjónvarpi, þá væri það a.m.k. svo að tækni nútímans hefði gert það ókleift og óskynsamlegt að halda slíku uppi. Þeim löndum fer nú mjög fækkandi þar sem enn þá er haldið í einkarétt ríkisins á útvarpi og sjónvarpi.

Ég held, herra forseti, að okkur sé þeim mun meiri nauðsyn á því að létta þessum einkarétti af, sem við erum all afskekkt þjóð. Þótt samgöngur séu í góðu lagi, þá höfum við e.t.v. af þessu öllu meiri þörf fyrir það en margar aðrar þjóðir að vera vakandi um strauma, stefnur, fréttir og menningu annars staðar frá á sama tíma og við stöndum vörð um þjóðlega menningu okkar.

Ég vonast til þess, herra forseti, að unnt verði að framfylgja þeim vilja ríkisstj., sem ég hygg að hljóti að vera vilji meiri hluta Alþingis, að afgreiða þetta frv. sem fyrst. Við höfum gert ráð fyrir því í þessu frv. að gildistaka verði um næstu mánaðamót. En þannig var skilist við þetta mál á síðasta þingi, að menn urðu á eitt sáttir um að það hlyti ekki endanlega afgreiðslu þá, þótt unnið hefði verið í nefnd, enda yrði það mjög fljótt flutt og afgreitt á þessu þingi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.