17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa farið fram nefna nokkur atriði.

Það er þá fyrst það, sem hv. 2. þm. Reykv. kom að, að það væri nýr tónn í málflutningi okkar Alþb.-manna að við legðum áherslu á að starfsmenn ættu fyrirtæki. Það er þvert á móti okkar skoðun að starfsmennirnir, fólkið sjálft, eigi að eiga fyrirtækin og ráða þar með þeim arði sem til verður í fyrirtækjunum á hverjum stað og hverjum tíma. Þess vegna er þetta ekki nein ný áhersla af okkar hálfu. En það er athyglisvert að varaformaður Sjálfstfl. skuli ekki hafa tekið eftir henni fyrr, og kynni þá að vera eitt og annað fleira sem hefði farið fram hjá forustu þess flokks í viðhorfum annarra stjórnmálaflokka í landinu.

Það er eins og kunnugt er stefna núverandi ríkisstj. að selja eignir þjóðarinnar, þ.e. ríkisfyrirtækin, og hefur komið fram aftur og aftur að það er þeim nánast sérstakt trúaratriði. Ég er andvígur þeirri stefnu. Ég tel að það geti ekki verið heilagt stefnumál út af fyrir sig að selja endilega ríkisfyrirtæki frekar en það geti verið kappsmál, a.m.k. að því er varðar okkur Alþb.-menn, að ríkið eigi öll fyrirtæki. Við höfum ekki áhuga á því sem við höfum kallað almiðstýrt hagkerfi.

En í sambandi við sölu Landssmiðjunnar og ríkisfyrirtækjanna yfirleitt vil ég koma að öðru máli sem ekki hefur verið rætt í þessum umr. Það snertir sölu ríkisfyrirtækja almennt og það sem ríkið fær í sinn hlut fyrir fyrirtækin. Í 67. gr. stjórnarskrárinnar er eins og kunnugt er ákvæði um að eignarrétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda með lögum til að láta eign af hendi nema fullt verð komi fyrir og almannaþarfir krefjist þess. Ef ég man rétt er þetta efnislega innihald 67. gr. stjórnarskrárinnar. Nú lýtur 67. gr. stjórnarskrárinnar auðvitað að því að verja rétt einstaklinga og félaga fyrir ríkinu, þ.e. ákvörðunum sem Alþingi hugsanlega tæki um eignarnám á hverjum tíma. Það er margra áratuga reynsla af þessu stjórnarskrárákvæði. Það eru til lög um framkvæmd eignarnáms og það eru til lærðar ritgerðir um hvernig eignarnámi er hagað. Auðvitað getur 67. gr. stjórnarskrárinnar ekki átt við um ríkiseignir vegna þess að það er ekkert ákvæði í stjórnarskránni um hvernig þjóðin geti svo að segja varið sig fyrir sjálfri sér. Hún kýs þann meiri hluta sem er á Alþingi og tekur ákvörðun um það hverju sinni hvernig eignum ríkisins er ráðstafað og það er eðlilegt. En spurningin er hvort ekki er nauðsynlegt, í tilefni af umr. um Landssmiðjuna og Siglósíld og fleira, að settar verði reglur um að það fari alltaf fram mat á eignunum, þ.e. að dómkvaddir matsmenn fjalli alltaf um verðlag á þeim eignum sem verið er að selja, jafnvel þó að ríkið eigi þær og ríkisstj. leggi til að þær verði seldar. Ég er ekki að segja að slíku mati eigi að hlíta endilega, heldur held ég að það væri mjög til bóta ef það væri framkvæmt til hliðsjónar, þannig að Alþingi og löggjafinn, sem tekur ákvörðun um sölu ríkiseigna ef gerðar eru um það till. af ríkisstj., viti nokkurn veginn hvaða verðmæti það eru sem verið er að selja. Ég held að það orki tvímælis varðandi Landssmiðjuna hvernig sú tala er þar fundin og ég held að það eigi líka við um aðrar ríkiseignir sem ríkisstj. hefur verið að ræða um að selja og auglýsti með lítill tvídálka auglýsingu frá fjmrn. í öllum blöðum landsins einhvern tíma á árinu 1983.

Ég vil sem sagt leyfa mér í þessari umr. að spyrja hæstv. iðnrh., vegna þess að hann fer með talsvert af þessum málum, hvort hann telur ekki ástæðu til þess að hinir dómkvöddu matsmenn, sem lög um eignarnám kveða á um, verði einnig kallaðir til til að meta þær eignir sem ríkið á. Nú kann að vera að hæstv. ráðh. hafi hlutast til um það þegar án þess að ég hafi beinlínis tekið eftir því að slíkt mat fari fram, en ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðh. lýsti yfir viðhorfum sínum í þessu efni því að mér finnst það skipta mjög miklu máli fyrir Alþingi hvaða viðhorf ríkisstj. hefur að því er þetta varðar. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann telur ekki eðlilegt að slíkt mat óvilhallra manna fari fram á þeim eignum sem ríkið er að selja þá og þá, hvort sem það er Landssmiðjan eða aðrar eignir.

Nú er það þannig að um þetta eru engin lagaákvæði. Löggjafinn getur sjálfur ákveðið að selja ríkiseignir fyrir hvað litið verð sem honum sýnist. Hann gæti ákveðið að selja Landsbankann á 10 kr. Það er ekkert ákvæði í stjórnarskránni sem skerðir þann möguleika löggjafans. Engu að síður sjá allir að það er fræðilegur möguleiki til þess að Alþingi, svo ekki sé meira sagt, gangi óeðlilega langt í þessu efni. Ég held þess vegna að full ástæða sé til að hugleiða þetta mál og þess vegna kom ég í ræðustólinn til að inna hæstv. iðnrh. eftir viðhorfum hans í þessu efni um leið og ég tek undir það nál. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mælti fyrir áðan.

Það er margt fleira sem væri ástæða til að ræða um í þessari umr., m.a. sérstaklega um atvinnumál í Reykjavík. Það hafa verið fluttar hér á Alþingi margar till. til þál. um atvinnumál í einstökum byggðarlögum, m.a. liggur núna fyrir till. til þál. um úrbætur í atvinnumálum í Norðurl. v. og er það vel. Ég held hins vegar að það væri full ástæða til þess að Alþingi ræddi einhvern tíma og ríkisstj. um atvinnumál í Reykjavík og þá þróun sem hefur verið að ganga yfir í atvinnumálum hér. Í Reykjavík hefur verið mikil þensla í atvinnulífinu núna á undanförnum misserum og verið það reyndar mjög lengi, en við vitum það, sem þekkjum eitthvað pínulítið til hér, að í rauninni er atvinnulíf í Reykjavík að mörgu leyti veikt. Ég held að við eigum að horfa til þess að framleiðslugreinar hafa verið að dragast saman í Reykjavík, þ.e. sjávarútvegur, bæði veiðar og vinnsla, og ég held að það ætti að vera verkefni Alþingis alls að velta því fyrir sér hvernig atvinnuþróun í höfuðstað landsins er komið. Þess vegna væri full ástæða til þess, þó að ég geri það ekki nú við þessa umr., að ræða ítarlegar um atvinnumál í þessu byggðarlagi sem er vissulega valt þó að hér sé talsverð þensla um þessar mundir eins og kunnugt er, sérstaklega í verslunar- og þjónustugreinum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni.