17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. 1. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mikið þessa umr. af minni hálfu. Ég innti hæstv. iðnrh. eftir því áðan við umr. að hverju væri unnið eða hvort væri að því unnið á vegum ríkisstj. að koma forræði ríkisrekstrar í annað horf en verið hefur og minni í því sambandi á hugmyndir og tillögur sem fram komu við undirbúning að mótun iðnaðarstefnu sem samþykkt var hér á Alþingi. Þá var um það sammæli í þeim hópi sem vann að undirbúningi þess máls, að skynsamlegt væri að koma hér á eins konar eignarhaldsfyrirtæki ríkisins, eins og það var kallað, sem á að vera þýðing á Holding Company eins og það er kallað á enskunni, en slíkt form hefur verið tekið upp í sambandi við ríkisfyrirtæki sums staðar erlendis, m.a. að ég hygg í Svíþjóð og Finnlandi, og hefur þótt gefast vel. Þess vegna hafði ég vonast eftir því að hæstv. ráðh. gæti greint okkur frá því hvar þessu máli væri nú komið, en ég hafði skilið það svo að hugmyndir væru um það innan núv. hæstv. ríkisstj. að þoka þessu máli áfram, m.a. á grundvelli samþykkta um iðnaðarstefnu sem hér voru gerðar á Alþingi.

Ég vil gera aths. við þau ummæli, sem komu fram hjá hv. 3. þm. Reykn. í upphafi hans máls um þetta efni, að mjög hafi farið úrskeiðis í sambandi við stjórnun Landssmiðjunnar. Ég held að hv. þm. hafi orðað það á þá leið að ríkið hafi verið lélegur stjórnandi fyrirtækisins. Ég efast um að hv. þm. hafi kynnt sér þetta mál sem skyldi áður en hann kveður upp dóm að þessu leyti. Hann tók sterkt til orða í þessum efnum. Ég held að á marga lund hafi verið haldið mjög vel á málefnum Landssmiðjunnar af þeim sem stóðu fyrir þeim rekstri þó að ég skuli ekkert vera að draga úr því að eflaust hefði ríkið sem eigandi fyrirtækisins getað stutt betur við bakið á því en verið hefur á liðinni tíð. En að það hafi verið eitthvað sérstakt á síðustu árum, eins og skilja mátti á hv. þm., það kannast ég ekki við.

Sú samstarfsnefnd stjórnenda og starfsmanna sem sett var á laggirnar í Landssmiðjunni 1974 skilaði ágætu starfi og var fundið mjög farsælt form til að fjalla um ákvarðanir og rekstur fyrirtækisins og ég held að það hafi verið á margan hátt til fyrirmyndar. Eflaust hefur Landssmiðjan eins og fleiri fyrirtæki goldið þess, eins og hæstv. iðnrh. vék hér að, að viðskiptavinir voru skuldseigir, þ. á m. opinber fyrirtæki sem við Landssmiðjuna skiptu, og er það vissulega ekki til neinnar fyrirmyndar þegar svo háttar, en það hefur stundum sínar ástæður, m.a. samskipti sjávarútvegsfyrirtækja við þjónustufyrirtækin. Sjávarútvegur á Íslandi hefur ekki verið það traustur, rekstrargrunnur hans, á undanförnum árum að menn hafi verið sérstaklega aflögufærir og það hafa safnast upp miklar óreiðuskuldir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, m.a. gagnvart fyrirtækjum í iðnaði. En ég vildi sem sagt leyfa mér að gera aths. við þessi ummæli um stjórnun Landssmiðjunnar. Ég tel að hún skeri sig engan veginn úr til hins verra. Ég held að þvert á móti megi benda þar á ýmislegt sem hafi farið betur en í ýmsum öðrum fyrirtækjum.

Hér komu til umr. hjá hæstv. ráðh. áðan mistök í fjárfestingu í sambandi við fyrirhugað verksmiðjuhús yfir Landssmiðjuna. Ég vék að því í mínu máli hvaða ástæður voru fyrir því að fótum var kippt undan þeim áætlunum sem þar voru á ferðinni og það var ekki við iðnrn. að sakast á þeim tíma að svo var gert. Það voru aðrir aðilar sem þar brugðust. Það var byggt á samþykktum úr hafnarstjórn Reykjavíkur sem fyrir lágu og mikilli undirbúningsvinnu sem þar hafði farið fram á vegum borgarinnar, m.a. í tíð hins svo nefnda vinstri meiri hl. í Reykjavíkurborg, og það var beinlínis tekið inn í stjórnarsáttmála ríkisstj. 1980, vegna þeirra samþykkta sem fyrir lágu, að unnið skyldi að því að koma upp skipaverkstöð í Reykjavík. Það var þar bókað og er nú ekki alltaf sem það góðan stuðning er að finna í samþykktum eins og þann sem þarna um ræddi. En það var hins vegar Reykjavíkurborg, forustan þar, sem brást í þessum efnum og því búa menn nú við þær aðstæður sem um er að ræða hér í sambandi við þjónustumöguleika, m.a. fyrir kaupskipaflota landsmanna sem leita verður erlendis í ríkum mæli um þjónustu, viðhald og viðgerðir og það er sannarlega ekki til fyrirmyndar.