17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., en vegna nokkurra atriða, sem hér hafa komið fram, held ég að rétt sé að leggja nokkur orð til umr. Mörgum finnst það e.t.v. ekki skipta máli við afgreiðslu þessarar till. í sambandi við járniðnað í Reykjavík, en það er löng saga sem ekki verður rakin hér.

Slippfélagið í Reykjavík, sem rekur slipp, gamlan, úreltan og úr sér genginn, var stofnað 1902 og hefur haft alla möguleika í gegnum tíðina á að byggja upp skipaverkstöð sem gæti þjónað íslenska kaupskipaflotanum, en 80–90% af viðgerðum kaupskipaflotans hafa farið fram erlendis og reyndar stórs hluta af fiskiflotanum.

Ég minnist þess að meðan hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson var borgarstjóri í Reykjavík, gerði hann tilraunir í a.m.k. fjögur ár til að reyna að sameina járnsmiðjur í Reykjavík til að mynda annaðhvort einhvers konar sameignar- eða samstarfsfélag um skipaverkstöð í Kleppsvík. Mjög umfangsmiklar rannsóknir höfðu farið fram af hálfu Þorleifs Einarssonar jarðfræðings og hafði komið í ljós að þarna voru öll skilyrði til mjög ódýrrar byggingar á skipaverkstöð.

Það var stefna Reykjavíkurborgar, hvaða meiri hluta sem vitnað er í, að byggja þarna skipaverkstöð sem væri í eigu allra helstu járnsmíðafyrirtækja í bænum og Slippfélagsins í Reykjavík sem nú er líklega rekið með tapi þó að það hafi grætt tugi og hundruð millj. í gegnum tíðina. Meiningin með þessu var að reyna að lyfta járniðnaði í Reykjavík á hærra stig. Hann hefur ekki verið samkeppnisfær vegna sundurlyndis og skorts á samtakamætti. Þessi atvinnugrein er mun eldri í Reykjavík en nokkurs staðar á landinu. Hér var til staðar stór hópur fagmanna, þjálfaðra starfsmanna og hvers konar tækniráðgjafar. Það voru reistar slíkar stöðvar úti á landsbyggðinni, ég er ekkert að æsa mig upp yfir því, þó að verið hefði mörgum sinnum hagstæðara að byggja stórt fyrirtæki hér í Reykjavík sem hefði getað þjónað megninu af íslenska kaupskipaflotanum og verulegum hluta af fiskveiðiflotanum.

Þetta var stefna Reykjavíkurborgar og vegna þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar að byggja þarna nýtísku skipaverkstöð fór Landssmiðjan í þessar framkvæmdir. Önnur fyrirtæki var búist við að mundu fylgja þar eftir. Ég tek fram að það er ekki hægt að saka núv. iðnrh. um neitt. Ég er aðeins að lýsa forsögu þessa máls. Landssmiðjan reið á vaðið og sótti þarna um lóð og fékk. Ég man það vel að það voru mjög harðar kröfur í hafnarstjórn Reykjavíkur, m.a. gerðar af flokksbræðrum núv. iðnrh., þó hann beri þar enga sök á, um að þessi fyrirtæki sameinuðust um þetta. Þau báru ekki gæfu til þess. Þau hlupu sitt í hvora áttina og það var ekki hægt að fá neina samstöðu um þessa framkvæmd. Að vísu skal viðurkennt að skipaviðgerðir, skipasmíðar eru í ákveðinni lægð í heiminum, ef svo má taka til orða, þannig að skipasmíðaiðnaður hefur dregist mjög saman og er niðurgreiddur vítt um heim, sér í lagi í Evrópu, og sjálfsagt hefði samkeppnisstaðan verið erfið. En Reykjavík með alla sína tæknimenn, með öll sín grónu fyrirtæki dróst aftur úr, Landssmiðjan ein gerði það sem ætlast var til af öðrum fyrirtækjum, og Reykjavíkurborg hefur dregið saman seglin og er í þann mund að hætta við og jafnvel úthluta öðrum þeirri dýrmætu aðstöðu sem var til þess að rækja verulega öfluga skipaverkstöð í Reykjavík og hefði þjónað kaupskipaflota Íslendinga. Ég held því að ekki sé hægt að kasta steinum að Landssmiðjunni. Hún hefur það eitt unnið til saka að taka yfirlýsingar Reykjavíkurborgar, bæði fyrr og síðar, og ríkisvaldsins alvarlega. En þorrinn af grónum járniðnaðarfyrirtækjum í Reykjavík hefur dregið saman seglin og gerst innflytjendur.

Ég skal ekki ræða ítarlegar það mál sem hér liggur fyrir. Ég vildi aðeins gera grein fyrir forsögu þessa húsgrunns og þeim fyrirætlunum í atvinnumálum og því atvinnustigi sem tengdust skipaverkstöð hér inni við sund. Hún hefði að mati allra sérfróðra manna verið ákaflega vel til fundin. Lóð er vel staðsett, tæknikunnátta til staðar og bygging slíkrar stöðvar hefði verið á ýmsan hátt mjög ódýr og mun ódýrari tiltölulega en víðast annars staðar.

Íslendingar hafa hlaupið frá þessu verkefni.

Megnið af kaupskipastólnum fer í viðgerð erlendis. Þar fara hundruð millj. í erlendum gjaldeyri fyrir verk sem mjög auðveldlega hefði mátt vinna hér.

Um frv. sjálft skal ég ekki ræða efnislega. Ég held að Landssmiðjan hafi oft orðið að gjalda þess að hafa átt undir högg að sækja hjá ýmsum ráðherrum, sem hafa farið með málefni hennar, og bankastofnunum. Oft og tíðum hefur reksturinn verið á þann veg að hún hefur ekki haft minnstu möguleika til eðlilegrar lánafyrirgreiðslu. Það þekkjum við og skal ekki um það rætt. Þessi smiðja var á sínum tíma stofnsett til að veita einkafyrirtækjum aðhald og til að tryggja ríkinu hagkvæma og ódýrari þjónustu. Ég held að smiðjan hafi á ýmsum sviðum staðið undir því þó að út af fyrir sig megi segja að ekki hafi verið jafnbrýn þörf á því í seinni tíð og áður var.

En ég vil taka undir með 3. þm. Reykv. því að ég held að þegar svona fyrirtæki er verðlagt þurfi að koma til dómkvaddir matsmenn. Það tel ég laust í böndunum allt saman. Ég mun því greiða atkv. á móti sölu fyrirtækisins þó að í prinsippinu sé það ekkert trúaratriði hjá mér að ríkið reki fyrirtækið.

Mér finnst fyrirtækið hafa goldið þess á ýmsan hátt að í gegnum tíðina hafa ýmsir ráðamenn verið fjandsamlegir og lagt stein í götu þess. Þetta er engin ný bóla. Það hefur lengi hindrað eðlilegan framgang þessa fyrirtækis. Og ég fullyrði að það hefur oft og tíðum ekki haft sömu möguleika á lánafyrirgreiðslu hjá ríkisbönkum og ýmis önnur hliðstæð fyrirtæki.