17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

5. mál, útvarpslög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Frv. sem hér hefur verið mælt fyrir kemur óbreytt frá ríkisstj. frá því frv. til útvarpslaga sem lagt var fram á síðasta þingi og hæstv. menntmrh. mælti fyrir í hv. Nd. þann 4. apríl s.l. Ein breyting er þó gerð á frv., sem fram kemur í 32. gr. þess og sem hæstv. menntmrh. gerði einmitt að umræðuefni í sínu máli, en greinin hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 1984. Falla þá jafnframt úr gildi útvarpslög nr. 19/1971 svo og lög um breyting á þeim lögum nr. 8/1975 og nr. 49/1979.“

Hæstv. ráðh. gat þess í lok máls síns að samkomulag hafi verið um það í lok síðasta þings, þegar sýnt var að ekki væri hægt að afgreiða frv. til útvarpslaga á því þingi vegna skiptra skoðana stjórnarflokkanna í þessu máli fyrst og fremst, að jafnframt hafi verið samþykkt hæstv. ráðh. notaði orðið „við“ í því sambandi — að þetta mál yrði flutt og afgreitt snemma á þessu þingi. Ég sé ástæðu til þess að gera athugasemd við þessi ummæli þar sem ég átti sæti í menntmn. á síðasta þingi og ég minnist þess ekki að nein samþykkt hafi verið þar gerð um að þetta mál nyti einhvers sérstaks forgangs í byrjun þessa þings, hvað þá að nefndar hafi verið dagsetningar í því sambandi, og ég vil lýsa yfir mikilli undrun á því að hér skuli fram komið frv. um svo mikilsvert mál, sem ekki var tekið til umr. á síðasta þingi fyrr en 4. apríl s.l., og nú skuli koma fram frá hæstv. menntmrh. sú breyting við fyrra frv. að það skuli taka gildi 21 degi eftir að nýtt þing kemur saman. Ég óska eftir því að hæstv. menntmrh. geri þinginu grein fyrir því hvaða nauðsyn beri til að hraða svo endurskoðun útvarpslaga að það skuli tekin alveg sérstök dagsetning inn í þetta frv. um gildistíma, ekki bara að lögin öðlist gildi við samþykkt, heldur að þau öðlist gildi 1. nóvember 1984. Við eigum kannske að standa að því hér síðar meir á þessu þingi að samþykkja þessi lög afturvirk til þess e.t.v. að veita einhverja blessun útvarpsstöðvarrekstri sem hæstv. menntmrh. virðist einkar kær, útvarpsstöðvum sem kallaðar hafa verið sjóræningjastöðvar og störfuðu hér óátalið um skeið af hæstv. dómsmrh. og hæstv. menntmrh. og ríkisstj. raunar allri og fengu velviljaðar kveðjur frá hæstv. ráðh., fyrir nú utan það, sem ekki þarf að fjölyrða um, að menn mjög nákomnir ríkisstj. og flokkar skutu skjólshúsi yfir þessar ólöglegu stöðvar. Það var hermt og rakið í hv. þd. nýlega hvernig hæstv. fjmrh. hefði með sínum miklu burðum og líkamsafli leitast við að koma í veg fyrir húsrannsókn í flokkshúsi Sjálfstfl., Valhöll, og tekist það a.m.k. betur en margt annað sem hann hefur verið að fást við undanfarna daga og vikur.

Ég sé ástæðu til þess, áður en ég vík að efni þessa frv. að öðru leyti að inna hæstv. forsrh. eftir því hvort orðið „við“, sem hæstv. menntmrh. notaði í framsögu sinni áðan, ætti við hæstv. ráðh. Framsfl., hæstv. forsrh. og aðra ráðh. Framsfl. í ríkisstj. og þingflokk Framsfl. í heild, og væri þá ekkert á móti því að hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., greindi okkur frá því hvort hann hefði gengið undir það jarðarmen sem hæstv. menntmrh. er að reisa með framlagningu þessa frv. með nefndri 32. gr. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt fyrir þingið að vita áður en þessari umr. lýkur.

Það er mjög óvenjulegt að tímamörk af þessu tagi séu kynnt við framlagningu máls með þeim hætti sem hæstv. menntmrh. gerir hér. Ég verð að segja að mér er á engan hátt ljós nauðsyn þess að ljúka afgreiðslu þessa máls með þeim ofsahraða, er óhætt að segja, á mælikvarða Alþingis sem hæstv. ráðh. gerir hér ráð fyrir að gert verði, og ég kref hæstv. ráðh. um skýringar á hinni brýnu þörf sem hæstv. ráðh. hlýtur að sjá og hafa rök fyrir að sé á því að afgreiða þetta mál á nokkrum dögum. Ég tek hins vegar undir það að endurskoðun útvarpslaga er tímabært mál almennt séð og mikilsvert mál, en hins vegar mál sem er þannig vaxið að ekki ber að hrapa þar að neinu. Alþingi hlýtur að ætla sér og því ber skylda til þess að fjalla vandlega og yfirvegað um meðferð slíks máls áður en það verður afgreitt frá þinginu. Það er brýn skylda þingsins að taka þannig á máli sem þessu því hér er flókið mál á ferðinni. Þetta er ekkert einfalt mál, hæstv. menntmrh., sem nú er lagt fyrir þingið. Þetta er mál sem hefur margar hliðar. Við hljótum að sýna máli sem þessu alúð og reyna að tryggja, það tel ég mikilsvert, sem víðtækasta samstöðu í þinginu um afgreiðslu máls, sem varðar alla þjóðina mjög miklu, þar sem er sú megintillaga þessa frv. að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins og opna fyrir nýmæli í þessari gerð fjölmiðlunar.

Ég tel að sú reynsla, sem fékkst af hinum ólöglega rekstri útvarpsstöðva fyrir nokkrum dögum, gefi einmitt sérstakt tilefni fyrir Alþingi til að staldra við í sambandi við þetta frv. og leitast við að meta það sem gerðist varðandi rekstur og starfrækslu hinna ólöglegu stöðva, þó svo að til þeirra hafi verið litið með alveg sérstökum velvilja af valdhöfum í þessu landi sem nú sitja á stólum. Ég tel t.d, ef litið er til þeirra verkefna sem útvarpsréttarnefnd samkv. framlögðu frv. er ætlað að rækja um eftirlit með þeim stöðvum sem gera má ráð fyrir að hér rísi í kjölfar þeirra heimilda sem frv. gerir ráð fyrir, ef samþykktar verða, að störf þessarar útvarpsréttarnefndar verði ekkert auðveld viðfangs, ætli hún að rækja þær skyldur sem gert er ráð fyrir samkvæmt 3. gr. þessara laga alveg sérstaklega, en raunar einnig samkvæmt ákvæðum annarra greina frv.

Ég mun þá ræða frv. efnislega að öðru leyti, en vænti þess að hæstv. menntmrh. greini okkur skilmerkilega frá því sem varðar ákvæði og tillögur samkvæmt 32. gr., en hæstv. forsrh. og hv. formaður þingflokks Framsfl. einnig geri okkur grein fyrir stöðunni að því er lýtur að afstöðu Framsfl. til framlagðs stjfrv.

Alþb. hefur fjallað mikið um þessi efni, útvarpsmál, á undanförnum árum á formlegum fundum, landsfundum og flokksráðsfundum flokksins, og gert um það samþykktir þar sem meginafstaða flokksins hefur verið mótuð til þessara mála. Þar er um sammæli að ræða af hálfu Alþb. þó að þar, eins og í öðrum flokkum, séu skoðanir eitthvað skiptar í sambandi við einstök atriði málsins. Í svo mikilsverðu máli taldi Alþb. skylt að móta skýra stefnu, skýra afstöðu. Það sem ég mæli hér um efni þessa frv. tekur mið af þessum samþykktum Alþb. og nánari meðferð þessa máls eftir að frv. til útvarpslaga kom hér fram, en þar komu til margir þeirra í mínum flokki sem hafa sýnt þessum málum áhuga og látið sig þau skipta.

Ég vil strax koma að því sem ég tel þýðingarmest í sambandi við þetta efni og afstöðu til þessa frv., þ.e. varðandi spurninguna um heimild til annarra en Ríkisútvarpsins að hefja hér útvarpsrekstur. Við teljum réttmætt og tímabært að rýmka um þær heimildir sem eru í gildandi lögum og opna fyrir það að aðrir en Ríkisútvarpið geti hafið hér takmarkaðan rekstur með tímabundnu leyfi til útvarpsrekstrar á afmörkuðum svæðum, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt þessu frv. En við setjum alveg ákveðin og skýr skilyrði í sambandi við þessa breytingu á rétti til útvarpsrekstrar í landinu og þau skilyrði eru fyrst og fremst tvenns konar:

Það er í fyrsta lagi að dreifikerfi útvarpsstöðva verði í opinberri eigu en ekki í einkaeign þeirra stöðva sem heimild yrði veitt fyrir og það verði þar með komið í veg fyrir einokun í skjóli slíks eignarhalds á dreifikerfum er tengist þessum stöðvum. Að þessu máli er ekkert vikið í fyrirliggjandi frv., ekkert. En hér er þó afar mikilvægur þáttur þessa máls á ferðinni. Af því að oft hefur verið rætt um frelsi í sambandi við rýmkun á útvarpsrekstri legg ég áherslu á að einmitt í þessu, opinberri eigu á dreifingarkerfi útvarpsstöðva, er fólgin spurning um hvort hér verður um frelsi notenda að ræða eða ekki. Ég vænti að það þurfi ekki að skýra þetta atriði nánar fyrir hv. þm. Ég minni á að við afgreiðslu laga um fjarskipti, sem samþykkt voru á síðasta vori, kom það alveg skýrt fram, m.a. hjá hæstv. samgrh. sem fer með málefni Pósts og síma, að ákvæði sem þar var verið að lögfesta snertu þetta atriði, varðandi dreifingarkerfi hugsanlegra nýrra útvarpsstöðva, ekki. Hér er því mál sem þingið þarf að gaumgæfa og fjalla um í sambandi við meðferð þessa máls hér í þinginu.

Annað atriði, sem er ekki síður mikilvægt að mati okkar Alþb.-manna, er að nýjum útvarpsstöðvum öðrum en stöðvum á vegum Ríkisútvarpsins verði alls ekki heimilaðar verslunar- og viðskiptaauglýsingar gegn gjaldtöku. Þetta er grundvallaratriði sem sker úr um það hvort menn meina eitthvað með raunverulegu frelsi og dreifðu frumkvæði í sambandi við víkkun á heimildum til útvarps eða hvort menn eru hér að opna fyrir frelsi fjármagnsins en ekki frelsi fjöldans til fjölmiðlunar. Ég vænti þess að einmitt þetta atriði ásamt hinu fyrra fái alveg sérstaka skoðun hér í þinginu áður en þetta endurskoðaða frv. til útvarpslaga verður lögfest.

Það eru ýmis fleiri atriði en þessi tvö, sem langmestu máli skipta þó að mínu mati, sem ég ætla að gera aths. við jafnframt því sem ég vísa til ræðu minnar við framlagningu þessa máls á fyrra þingi hinn 4. apríl s.l.

Í 3. gr. 2. lið er kveðið á um að skilyrði fyrir veitingu leyfis til útvarps skuli háð samþykki sveitarstjórnar á viðkomandi svæði. Skv, 5. gr. 1. tölul. er kveðið á um að sveitarstjórn þurfi að heimila lagningu þráðar til útvarpssendinga um lönd sín. Það síðara er eðlilegt ákvæði, en að sama skapi tel ég óeðlilegt að sveitarstjórn geti haft neitunarvald um útvarp um slíkan þráð og að því leyti tel ég þetta ákvæði þurfa breytingar við í 3. gr. frv. Hér ætti aðeins að áskilja umsögn sveitarstjórnar um þetta efni. Hins vegar sýnist eðlilegt að setja það skilyrði að aðilar, sem búa utan þess takmarkaða svæðis sem leyfi til útvarpsrekstrar skal taka til, megi ekki vera þátttakendur í félagi til útvarpsrekstrar.

Ég rek hér hugmyndir mínar um breytingar og aths. á einstökum liðum frv. nokkurn veginn í þeirri röð sem þær koma fyrir í frv. og vík þá að 3. gr. 3. tölul., en þar er kveðið á um að óheimilt sé að veita erlendum aðilum leyfi til útvarpsrekstrar. Slíkt er sjálfsagt, en rétt verður að telja að sams konar ákvæði gildi um aðild að útvarpsrekstri, að erlendum aðilum verði ekki veitt aðild að útvarpsrekstri og skýrara ákvæði komi þannig fram til viðbótar við sama lið.

Í 3. gr. 8. tölul. er ákvæði, sem ég vek sérstaka athygli á, þess efnis að óheimilt sé að aðrir en útvarpsrekstrarfélag kosti almenna dagskrárgerð viðkomandi stöðvar, en þó gildi það bann ekki um einstaka dagskrárliði. Hafa hv. þm. tekið eftir þessu ákvæði í 8. tölul. 3. gr.? Hér er afar varhugaverð undanþága á ferðinni sem í raun opnar fyrir utanaðkomandi aðila að hafa mikil áhrif á dagskrárgerð viðkomandi útvarps. Ég tel því rétt að þessi liður yrði orðaður með öðrum hætti, t.d þannig að óheimilt sé að aðrir aðilar en félag það sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar kosti dagskrá viðkomandi útvarpsstöðvar. Þar komi ekki aðrir til. Einnig er ekki óeðlilegt að sett verði inn ákvæði í þessu samhengi þess efnis að ekki minna en helmingur útsends efnis sé tekinn saman af starfsleyfishafa, þ.e. viðkomandi útvarpsfélagi, hér sé ekki verið að setja upp stöðvar sem bara kaupi að efni og sendi út.

Það er vert að vekja athygli á því að hvergi er að finna í frv. ákvæði sem gerir ráð fyrir að til samstarfs geti komið milli útvarpsstöðva. Í því sambandi þarf að gera ráð fyrir hugsanlegri myndun bandalaga milli stöðva eða „networks“, eins og það er kallað á ensku máli, en slík samvinna er víða fyrirferðarmikil í útvarpsrekstri erlendis. Athuga ætti sérstaklega um stuðning opinberra aðila eins og Ríkisútvarpsins, t.d í tengslum við upptökuver eða upptökuaðstöðu fyrir útvarpsstöðvar, aðrar en Ríkisútvarpsins, og greiða þannig fyrir gerð innlends efnis.

Varðandi 4. gr. hef ég þegar gert aths. varðandi heimild til auglýsinga. Ég ítreka hana, að útvarpsstöðvum öðrum en Ríkisútvarpinu verði ekki veitt heimild til útsendinga á verslunar- og viðskiptaauglýsingum, auglýsingum gegn gjaldi. En í þessu samhengi vil ég koma því að að ég tel þörf á því að það verði athugað að fella með öllu niður auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins. Í aths. með þessu frv. kemur fram að auglýsingatekjur íslenska sjónvarpsins eru innan við fjórðungur heildartekna og er þá um brúttótekjur að ræða. Það er vitað að til frádráttar þessum tekjum af auglýsingum má reikna allverulegan kostnað sjónvarpsins af vinnu við skeytingu auglýsinga, en slíkt mundi að sjálfsögðu sparast ef þær yrðu af lagðar. Einnig er vert að nefna þann mikla aðstöðumun sem innlendir framleiðendur varnings og þjónustu sem auglýsa vörur sínar í sjónvarpi búa við í samkeppni við erlenda aðila varðandi tilkostnað af gerð auglýsingaefnis. Væri af þeim sökum einum eðlilegt að fella sjónvarpsauglýsingar niður. Þá má og benda á að auglýsingar í sjónvarpi hér eru viss Þrándur í götu væntanlegs alþjóðlegs samstarfs um sjónvarpssendingar, t.d skv. NORDSAT-áætluninni. Af öðrum Norðurlöndum eru það aðeins Finnar sem heimila auglýsingar í sjónvarpi, það best ég veit.

5. gr. frv., sem snertir útvarp um þráð, mætti um margt vera skýrari og gefur ástæðu til nánari athugunar í nefnd. Ég nefni sem dæmi ákvæði 4. tölul. um undanþágu frá ýmsum takmarkandi ákvæðum 3. gr. sé móttaka bundin við 36 íbúðir. Enga skýringu er að finna í frv. á því hvers vegna hér er miðað við 36 íbúðir en ekki einverja aðra skilgreiningu. Sitthvað er einnig óljóst varðandi efni í 2. og 3. tölul. þessarar greinar, um fjármál.

II. kafli þessa frv. fjallar um Ríkisútvarpið og hefur ekki að geyma jafnmörg álitamál og l. kafli frv., en vissulega þarf til hans að vanda engu að síður. Ríkisútvarpið þarf og hlýtur að verða eftir sem áður burðarás í útvarpsfjölmiðlun hér á landi væntanlega um langa framtíð og að þessari stofnun, Ríkisútvarpinu, þarf að búa sem best.

Fulltrúi Alþb. í útvarpslaganefnd, Ólafur heitinn Einarsson, gerði tillögu um að lögleitt yrði ákvæði um starfsmannaráð við Ríkisútvarpið og undir þá tillögu vil ég taka sérstaklega. Slík starfsmannaráð eiga að vera starfandi í hverri ríkisstofnun. Á það lagði Alþb. m.a. áherslu í tíð síðustu ríkisstjórnar og þá var gefin út reglugerð af Ragnari Arnalds sem fjmrh. um réttindi og skyldur slíkra starfsmannaráða.

Á sama hátt fellur það að stefnu Alþb. að forstjórar ríkisstofnana séu ráðnir tímabundið til fárra ára í senn, en ekkert ákvæði er að finna í frv. um það varðandi útvarpsstjóra. Ég tel að tvímælalaust eigi að taka slíka tímabundna ráðningu upp varðandi útvarpsstjóra og það ætti raunar einnig að gilda um framkvæmdastjóra deilda Ríkisútvarpsins skv. 15. gr., svo mikilsverðar stöður sem þar eru á ferðinni, og eðlilegt að þar sé tryggð endurnýjun og skipti og hreyfing á starfsmönnum og heimildir séu samsvarandi fyrir slíku í lögum.

Í 18. gr. frv. er kveðið á um innheimtu afnotagjalds af útvarpstækjum sem yrðu áfram ásamt auglýsingatekjum aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins. Í því sambandi er vert að það yrði kannað sérstaklega að hluti af afnotagjaldi renni til svæðisútvarps, til annarra útvarpsstöðva en aðalútsendingar Ríkisútvarpsins, og þar á meðal til svonefndra frjálsra útvarpsstöðva í rekstri annarra, t.d 1/4 hluti afnotagjalds. Notendur gætu valið þá svæðisstöð eða svæðisstöðvar sem þeir vildu styðja með þessum hætti og með þessu móti yrði innheimta á afnotagjöldum fyrir hinar nýju stöðvar einfaldari í sniðum og unnt að tryggja slíkum svæðisstöðvum lágmarkstekjur sem kæmu í stað þess, sem gert er ráð fyrir skv. frv., að aflað yrði tekna með viðskiptaauglýsingum, en ég tel að það ákvæði beri að fella niður. Upphæð heildarafnotagjalds yrði að sjálfsögðu að taka mið af slíkri skiptingu, sem hér er um rætt, þannig að Ríkisútvarpið bæri ekki skarðan hlut frá borði.

Herra forseti. Ég hef stiklað hér á nokkru því sem ég tel vanta í þetta frv. til útvarpslaga og öðru sem ég tel að þurfi að hverfa úr frv. áður en lögfest yrði og ég hef greint frá meginviðhorfum þingflokks Alþb. til þessa máls. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að athuga þessi mál ásamt mínum þingflokki og í samvinnu við aðra sem standa vildu að breytingum sem samstaða gæti orðið um. Um leið og ég ítreka fylgi Alþb. við tímabundnar tilraunir með svæðaútvarp, eins og ég hef hér gert grein fyrir, útvarp þar sem dreifingarkerfið sé í opinberri eigu og verslunar- og viðskiptaauglýsingar séu ekki leyfðar, minni ég að lokum á eftirfarandi úr ályktun flokksráðsfundar Alþb. 1982, en þar segir:

„Flokksráðsfundurinn leggur ríka áherslu á ómetanlegt hlutverk Ríkisútvarpsins til að viðhalda og efla íslenska menningu. Ríkisútvarpið er og verður áfram sameiningarafl í þjóðfélaginu, frjáls fjölmiðill, opinn öllum landsmönnum. Ekkert má gera sem teflir þessu hlutverki Ríkisútvarpsins í hættu.“

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.