17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það hefur áður verið rætt hér að það eru umfangsmikil verkefni ríkisstj. allt í kringum okkur að reyna að skapa það umhverfi með ýmsum aðgerðum sem gæti hugsanlega leitt til þess að örva atvinnulíf og nýsköpun og nýmyndun fyrirtækja og að auka sömuleiðis þátttöku fólks í slíku. Ef litið er til landanna í kringum okkur, svo sem eins og Bretlands, Svíþjóðar, Vestur-Þýskalands og fleiri landa, er hægt að sjá fjölmargar aðgerðir, ég endurtek, fjölmargar og mjög mismunandi aðgerðir, í þessu skyni.

Í fyrsta flokki eru ýmiss konar aðgerðir sem varða lánastarfsemi og styrki. Þá er þar til að dreifa atriðum eins og sérstöku lánsábyrgðarkerfi þar sem ríkissjóður ábyrgist endurgreiðslu á ákveðnum hluta lánsfjár til nýrra fyrirtækja. Það er einnig um að ræða að lánuð séu sérstök fjárfestingarlán á lægri vöxtum en annars eru fáanlegir. Það hafa verið sett lög um stofnun sérstakra áhættufjármagnssjóða og settir hafa verið upp þróunarsjóðir og þróunarstofnanir af ýmsu tagi til að sinna þessum fjármagnsmálum.

Í öðru lagi hafa víða verið settar umfangsmiklar ívilnandi reglur um skattalög sem hafa tekið bæði til söluskatts, tekjuskatts, eignaskatts og ýmissa skattforma sem við höfum e.t.v. ekki öll hér en eru til staðar í hinum ýmsu löndum og koma þarna við sögu.

Í þriðja lagi eru alls kyns aðgerðir til viðbótar, eins og varðandi húsnæði eða iðngarða. Þá er stunduð kennsla í atriðum sem varða stofnun og rekstur fyrirtækja. Það eru gefnar út um þetta bækur eða vídeókassettur, fluttir þættir í útvarpi og sjónvarpi um þetta. Það eru t.d. veitt verðlaun til fyrirtækja sem ná sérstökum árangri í útflutningi. Ef fyrirtæki flytur út vörur og sá útflutningur nær ákveðnu hlutfalli af framleiðslu er það verðlaunað á einhvern hátt, annaðhvort með skattaívilnunum eða öðru skyldu. Þá eru veittir styrkir af ýmsu tagi, rannsóknastyrkir til að þróa ný verkefni. Þannig mætti lengi telja.

Þessari viðleitni er reyndar oftast beint að ákveðnum sviðum. T.d. mætti hugsa sér að á ákveðnu tímabili væri þessari ívilnandi eða hvetjandi starfsemi beint að framleiðslufyrirtækjum og þá yrðu undanskildar t.d. ljósabaðstofur og heilsuræktarstöðvar, svo dæmi séu nefnd sem hafa verið ofarlega á baugi um nýsköpun og aukningu atvinnutækifæra hér í Reykjavík. Þessum aðgerðum er kannske beint að ákveðinni stærð fyrirtækja og þá sérstaklega að ýmiss konar smáfyrirtækjarekstri. Þá er þessum aðgerðum líka í ýmsum tilfellum beint að ákveðnum rekstrarformum fyrirtækja.

Það fer ekki hjá því að alls staðar kosta svona aðgerðir mikla peninga og að í öðru lagi eru þessar reglur, eins og raunar flest öll manna verk sem eru ívilnandi á einhvern hátt, misnotaðar. En það hefur verið mat stjórnmálamanna í löndum þar sem svona starfsemi hefur verið öflug að á endanum yrði hagnaður samfélagsins þó það mikill af þessum aðgerðum að þetta væri réttlætanlegt.

Hins vegar er mjög nauðsynlegt að fylgjast á hverjum tíma vel með hver áhrif slíkra aðgerða eru og reyna að meta hvort þær séu líklegar til hagsbóta og þá að breyta um stefnu eftir því sem menn telja að sé nauðsynlegt.

Hérlendis hefur það verið óskaverkefni margra ríkisstjórna að renna fleiri stoðum undir efnahagslífið eða auka fjölbreytni, eins og það heitir í hátíðarræðum, en hins vegar hefur lífið verið gert. Aðgerðir á þessu sviði hafa því miður flestar verið bundnar við einhvers konar stórvirk áform í sambandi við virkjanir, stóriðju og þess háttar.

Það er athyglisvert að í tíð fyrrv. iðnrh., hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, hófst athyglisverð starfsemi í iðnrn. þar sem gert var sérstakt átak til að afla reynslu í kennslu og uppfræðslustarfsemi varðandi rekstur smáfyrirtækja. Þar er viðleitni sem enn þá er uppi, en stendur að vísu á mjög veikum fótum vegna fjárskorts. Það er nauðsynlegt að vinna miklu markvissar að þessum málum og setja um þetta almenna stefnumótandi línu til margra ára.

Þetta mál, sem hér um ræðir, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, er dæmi um aðgerðir eins og þær hafa verið framkvæmdar í ýmsum löndum. Hins vegar hefur yfirleitt fylgt þessu fleira annars staðar. Það hefur verið gripið til fleiri og fjölvirkari aðgerða á þeim sviðum en hæstv. ríkisstj. hefur lánast að gera hér.

Ef menn leita skýringa á því hvers vegna listinn sem hv. þm. Svavar Gestsson las upp áðan er svo fábreytilegur og vekur svo litlar vonir um að það horfi til betri vegar í þessu er skýringin hugsanlega sú að þetta hefur raunar afar lítið verið auglýst sem hluti af nýsköpun eða breyttri stefnu í atvinnuháttum. Einu auglýsingarnar sem þessi mál hafa fengið hafa verið auglýsingar frá bönkum og fjármálastofnunum þar sem þetta hefur verið kynnt fyrst og fremst sem aðgerðir til skattalækkunar. Ég held að nauðsynlegt sé að láta slíkum aðgerðum fylgja bæði fjölvirkari hliðarráðstafanir, og markvissa kynningu á tilgangi aðgerðanna. Það er, held ég, fyrsta ástæðan fyrir því að þetta mál virðist ekki ætla að bera meiri árangur en virðist af framkomnum upplýsingum hér.

Í öðru lagi er ljóst að það er alla tíð mjög erfitt að meta árangur af svona aðgerðum og það er alveg ljóst að það verður ekki gert nema á lengri tíma. Vafalaust þarf til þess þrjú til fimm ár. En það er nauðsynlegt að fylgjast mjög vel með hvað gerist, fylgjast með því hvers konar fyrirtæki virðast hafa áhuga á þessu, fylgjast með því hversu mikið þetta er notað af almenningi og fylgjast með því hvort þessar leiðir virðast einungis verða notaðar af einhverjum til þess að komast undan eðlilegum skattgreiðslum.

Mér finnst vel koma til greina að skilgreina nánar hvert þessi viðleitni á að beinast. Mér finnst að ríkisstj. eigi að velta því fyrir sér hvort þessar ívilnandi aðgerðir, sem hrint var af stokkunum fyrr á þessu ári, ættu að beinast að ákveðnum greinum atvinnustarfsemi, eins og framleiðslugreinum eingöngu. Þá væru ekki fyrirtæki eins og Verslunarbanki, Alþýðubanki eða Almennar tryggingar á þessum lista, heldur ættu þessi lög einungis við fyrirtæki í framleiðslugreinum. Mér er kunnugt um að þau skilyrði eru sett um ýmiss konar starfsemi af þessu tagi erlendis, t.d. í Bretlandi þar sem tryggingastarfsemi, fasteignasala, skrifstofurekstur, eins og lögfræðirekstur o.þ.h., falla ekki undir sumar af þeim tilraunum sem eru gerðar til að auka þar fjölbreytni í atvinnulífi.

Það kemur sömuleiðis til greina að áskilja að þessi ívilnun geti einungis orðið í tengslum við nýjan fyrirtækjarekstur, þ.e. að slíkum frádrætti frá skattskyldum tekjum þurfi að fylgja þátttaka í nýjum atvinnurekstri, nýjum fyrirtækjum.

Í þriðja lagi kemur líka vel til greina, að mínu mati, að tiltaka í sambandi við aðgerðir af þessu tagi stærð þeirra fyrirtækja sem mættu tengjast svona stefnumótun. Þá mundu fyrirtæki eins og Eimskipafélag, Flugleiðir, Hampiðjan og þess háttar fyrirtæki ekki sjást á listanum, heldur smærri fyrirtæki. Skemmtilegast væri að sjá svona tilraunir rætast á þann hátt að þær leiddu til stofnunar lítilla nýrra fyrirtækja í framleiðslugreinum, þá annaðhvort tengdum þeim undirstöðuatvinnuvegum sem við höfum hér núna, landbúnaði, sjávarútvegi, eða ættu sér á einhvern hátt fótfestu í nýjum atvinnurekstri, nýjum greinum sem ku vera talsvert til af, en menn hafa lítið gert af að kynna sér hér heima.