17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

5. mál, útvarpslög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil koma á framfæri nú þegar við 1. umr. þessa máls nokkrum athugasemdum. Þá er fyrst að geta þess að þetta frv. er lagt fram sem stjfrv. og aðdragandi þess er sá að í fyrravor fékk hæstv. menntmrh. heimild Framsfl. til þess að þetta mál yrði lagt fram, en jafnframt áskildu þm. Framsfl. sér að hafa óbundnar hendur við afgreiðslu málsins. Það sama gildir nú. Þm. Framsfl. hafa óbundnar hendur við afgreiðslu þessa máls.

Eins og komið hefur fram er þetta ekki óbreytt frv. útvarpslaganefndar. Menn tala hér um frv. útvarpslaganefndar, en ég minni á að útvarpslaganefnd klofnaði og fyrrv. menntmrh., þáv. formaður útvarpsráðs, Vilhjálmur Hjálmarsson, og Andrés Björnsson útvarpsstjóri skiluðu séráliti um málið.

Þetta er heldur ekki sama frv. og lagt var fram í fyrra þar sem gildistökuákvæði er 1. nóv. Sýnist mér að það sé býsna skammur tími og svo skammur að þetta fær náttúrlega ekki staðist. Frv. útvarpslaganefndar var gallað að mínum dómi, en það gæti vel orðið stofn að útvarpslögum, góðum útvarpslögum. Margt í því er til bóta en það er margt sem þarfnast lagfæringar.

Ég tel að nú sé ekki réttur tími til þess að setja ný útvarpslög. Það eru yfirstandandi kjaradeilur og við búum við afbrigðilegt ástand, því miður. Ég kalla þetta kjaradeilur en ekki uppreisn eins og a.m.k. einn af hæstv. ráðh. hefur látið sér um munn fara. Ég tel að hér sé um kjaradeilu að ræða. Hún er að vísu orðin flókin og hörð. Ég vara við öllum ofsafengnum viðbrögðum í tilefni þessarar kjaradeilu. Þessi kjaradeila snertir Ríkisútvarpið þar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins eru í verkfalli. Við sjáum ekki fyrir endann á þessari kjaradeilu og hún hefur verið mögnuð með óskynsamlegum viðbrögðum á báða bóga.

Ákvörðun hæstv. fjmrh. og borgarstjóra að greiða ekki laun nema þrjá daga af október var einstaklega óskynsamleg og ámælisverð ákvörðun. Vilji þingflokks Framsfl. stóð til hins gagnstæða og við þm. Framsfl. sem til náðist vorum sammála þeirri skoðun sem Benedikt Sigurjónsson fyrrv. hæstaréttardómari setti fram í álitsgerð sinni um að eðlilegt væri að greiða októberlaunin. Og það var ekki einasta að löglegt hefði verið að greiða launin. Það var líka mjög óskynsamlegt og líklegt til þess að magna deiluna viljandi að greiða þau ekki.

Það er alvarlegt mál að gera fólk að vanskilamönnum, allra helst góð hjú eins og flestallir ríkisstarfsmenn eru. Þeir eru góð hjú ríkisvaldsins og trúir þjónar. Þetta fólk hafði gert sínar fjármálaráðstafanir fyrir mörgum mánuðum e.t.v. og vissi þá ekki að verkfall gæti verið yfirvofandi í október, hvað þá að það renndi grun í það að það yrði hýrudregið. Svo stendur það allt í einu uppi hýrudregið og er gert að vanskilamönnum, sumir e.t.v. í fyrsta sinn á ævinni. Flestir þeirra hafa ekki innstæður til að grípa til og sumir skulda meira að segja svolítið og sumir meira að segja töluvert.

Seðlabankinn hækkaði vextina, því miður með góðu leyfi ríkisstj., langt fram yfir það sem atvinnulífið þolir og langt fram yfir það sem fjárhagur venjulegrar fjölskyldu þolir, fjárhagur venjulegs launþega. Við höfum krafist sparnaðar af þjóðinni, við höfum krafið þjóðina um nægjusemi og við höfum ekki verið örlátir við launþega í landinu. Þjóðin hefur stillt kröfum í hóf í meira en ár og láglaunamönnum hefur ekki gefist færi á því að safna fjársjóðum í bönkum, fremur að láglaunamenn hafi safnað einhverjum skuldum. Svo hækka vextirnir, fólk fer að gera kaupkröfur og fyrr en varir er yfirvofandi verkfall þar sem ekki voru tök á að verða við kröfunum nema með því að fórna þeim árangri sem náðst hafði í baráttunni við verðbólguna. Þar sem verkfall var yfirvofandi hefði verið því meiri ástæða til þess að sýna varfærni og aðgát. Þess í stað beitti hæstv. fjmrh. valdi sínu til að stöðva útborgun októberlauna. Ég hef aldrei hvatt til þess að borga verkfallsmönnum kaup fyrir verkfallsdaga en þá reikninga var hægt að gera upp að verkfalli loknu og sjálfsagt að gera upp eftir á. Þess í stað virtist hæstv. fjmrh. og borgarstjóri líta á þetta sem uppreisn og fjmrh. fór að beita valdi til þess að tyfta fólkið. En fólk lætur auðvitað ekki svelta sig til hlýðni og sem betur fer.

Þegar ríkisstarfsmenn fengu ekki launin sín tóku þeir forskot á sæluna. Það er það sem kemur þessu útvarpslagafrv. við og einmitt þess vegna erum við að ræða það hér í dag. Það þurfti engum að koma það á óvart þó að ríkisstarfsmönnum brygði harkalega við. Þeir lögðu niður vinnu of snemma og áður en boðunardagur verkfallsins skall á. Því miður voru starfsmenn Ríkisútvarpsins í þessum hópi. Því miður var útvarpssendingum hætt með óskynsamlegum og mjög skjótum hætti og lágmarksfréttaflutningi var ekki haldið uppi til landsmanna í nokkra daga. Þetta ástand, þessi aðgerð útvarpsmanna aflaði þeim því ekki samúðar. Þeir gengu of langt í reiði sinni og gerðu það of snemma og opnuðu dyrnar fyrir þeim sem vilja veg Ríkisútvarpsins sem minnstan og alls konar frjálshyggjugaukar sáu sér leik á borði.

Þeir sem snarráðastir voru og höfðu nóg af peningum settu upp ræningjastöðvar og hófu útvarpsrekstur án beinnar stoðar í lögum. Sú reynsla, sem við höfum fengið af þessum útvarpsstöðvum, hefur sýnt okkur að á þessu sviði er það ekki þetta sem við eigum að sækjast eftir. Í þessu útvarpi hafði auðgildið sem sagt forgang fram yfir manngildið. Auðgildið, frjálshyggjan, lék nú lausum hala í nokkra daga og það kennir okkur að meta okkar góða Ríkisútvarp. Ríkisútvarpið okkar var nefnilega gott og verður það vonandi einnig áfram að kjaradeilu leystri.

Frv. til útvarpslaga á að mínum dómi fyrst og fremst að miða að því að efla Ríkisútvarpið. Þess vegna er það sjálfsagt að útvarpslögin hefjist á kafla um Ríkisútvarpið. Sá kafli er hér í frv. settur á hinn óæðra bekk. Ég get tekið undir flest í þessum Ríkisútvarpskafla og get vel ímyndað mér að hann verði farsæl uppistaða laganna. Einnig get ég stutt kaflann um fjármál Ríkisútvarpsins svo og IV. og V. kafla. Þá get ég einnig, herra forseti, hugsað mér að tímabundin heimild sé veitt öðrum aðilum en Ríkisútvarpinu til útvarpsrekstrar, að uppfylltum ströngum skilyrðum, miklu strangari skilyrðum en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel það einsýnt að ekki eigi að heimila viðskiptaauglýsingar í þessum litlu tímabundnu útvarpsstöðvum. Ríkisútvarpið þarf nefnilega á auglýsingamarkaðinum að halda óskiptum og á að fá að njóta þeirrar verndar af hálfu löggjafans að öðrum sé ekki hleypt inn á hann. Í aths. með frv. útvarpslaganefndar gera aðstandendur þess, meiri hl., þessa grein, herra forseti, fyrir þessum atriðum:

„Útvarpslaganefnd lítur svo á að Ríkisútvarpið hljóti að mega hækka útvarpsgjald sitt sem nemur tapi auglýsingatekna og þá fyrst og fremst af þeirri ástæðu að Ríkisútvarpinu eru lagðar skyldur á herðar umfram aðrar útvarpsstöðvar sem standa ber við óháð aðstæðum að þessu leyti.“

Ég tel að hækkanir hér í þjóðfélaginu hafi verið yfrið nógar undanfarið á hinni ýmsu þjónustu. Ný hækkanaskriða er að falla og ég sé enga ástæðu til annars en að reyna að halda niðri útvarpsgjöldum. Ég sé enga ástæðu til að afsala Ríkisútvarpinu þeirri tekjulind sem auglýsingar hafa verið. Ég tel að þessi leyfi verði að vera tímabundin. Uppfylli stöðvarnar ekki þau skilyrði sem sett eru er sjálfsagt að svipta þær starfsleyfi. Ef þær reynast vel er allt í lagi að framlengja starfsleyfi þeirra.

Ég tel að þingkjörið útvarpsráð Ríkisútvarpsins sé hinn rétti aðili til að veita þessi tímabundnu starfsleyfi miklu fremur en að vera að kjósa sérstaka nefnd til þess að fjalla um þau. Ríkisútvarpið hlýtur að vera uppistaðan í þessu kerfi og það á að vera höfuðbólið. Hitt eiga að vera hjáleigur eða útbýli.

Gildistökuákvæðið, sem menn hafa hér réttilega bent á, 1. nóv., er auðvitað fráleitt. Ég tel að við verðum að leysa þessa kjaradeilu, koma á eðlilegu Ríkisútvarpi og slaka á spennunni áður en nokkuð þýðir að fara að breyta lögum um Ríkisútvarpið.

Afskipti kjaradeilunefndar af málefnum útvarpsins þykja mér orka tvímælis. Mér finnst að kjaradeilunefnd eigi að kveða upp úrskurði um þau mál sem undir hana heyra en vísa hinum frá sem henni virðast ekki heyra undir sig í stað þess að kveða upp efnisúrskurði og banna það sem hún getur ekki heimilað. Ég leit svoleiðis á þegar við settum þessi lög að kjaradeilunefnd ætti að vera öryggisventill, aðili sem hefði vald til að tryggja að nauðsynlegri öryggis- og heilsugæsluþjónustu væri haldið uppi í þjóðfélaginu. Lausn á öðrum atriðum, sem falla utan þessa öryggis- og heilsuverndargeira, þurfa aðrir aðilar að finna, væntanlega deiluaðilar sjálfir. Þess vegna tel ég að að verkfalli loknu þurfi að endurskoða lögin hvað varðar kjaradeilunefnd og finna henni markvissara form þannig að óþarfa árekstrar þyrftu ekki að skapast þar af. Hugsanlegt væri að setja á stofn aðra sameiginlega úrskurðarnefnd ríkisstarfsmanna og ríkisvalds sem reyndi að komast að samkomulagi um þau ágreiningsatriði í framkvæmd verkfalls sem féllu utan verksviðs kjaradeilunefndar.

Herra forseti. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að ég tel að Ríkisútvarpið beri að efla svo sem við höfum föng til. Það hefur góðu og hæfu starfsfólki á að skipa og við skulum efla vöxt Ríkisútvarpsins og viðgang. Peningafrelsisútvörpin koma aldrei til með að verða gagnlegar stoðir í því lýðræðis- og menningarsamfélagi sem við viljum hafa hér á Íslandi. Ég treysti því að hv. menntmn. athugi þetta frv. vel og vandlega, gefi sér góðan tíma og skili svo af sér með vorinu breyttu og betra frv. til útvarpslaga en hér er á ferðinni.