17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þær sagnfræðilegu heimildir sem ég hef haft aðgang að í sambandi við þetta frv. benda til að þessi skattur eigi rætur að rekja til þess er menn vildu skattleggja fjárfestingu í húsnæði, fjárfestingu sem var frá því fyrir raunvexti, þegar menn fengu fé við litlu verði og því var oft og tíðum varið óskynsamlega. Þá ríkti hér sú trú að ef menn gætu einhvern veginn náð sér í aur og keypt fyrir hann steinsteypu yrðu þeir hólpnir. Sú trú leiddi til þess að það var fjárfest án þess að arðsemi fyrir samfélagið væri höfð í huga, það sama samfélag og gaf þetta fé hálfvegis.

Nú er hins vegar svo komið að við höfum búið við raunvexti í nokkurn tíma. Það er ástæða til að ætla að fjárfestingarvenjur hafi breyst að einhverju leyti á þessum tíma, þannig að ástæða er til að ætla að atvinnurekstur, sem hefur byggst upp á allra síðustu árum, hafi — vonandi — aflað sér húsnæðis frekar af eðlilegri þörf en óeðlilegri græðgi. Þess vegna langar mig að varpa fram þeirri hugmynd að þessi skattur verði tekinn af eignarskattsstofni frekar en fasteignamati, vegna þess að augljóst er að ef hann væri innheimtur af eignarskattsstofni kæmi fram skattheimta af eignum sem samfélagið nánast gaf mönnum fyrir tilvist raunvaxta. Þá yrði ekki skattlagður atvinnurekstur sem á seinni árum hefði kannske af fullkomnu raunsæi aflað sér húsnæðis og fjárfest í því einungis eins og þurfti og án nokkurrar sóunar.

Ég vil varpa þessari hugmynd fram varðandi breytingu á skattstofninum. Meginstefna frv. mætti svo sem alveg haldast. En að mínu mati mætti með þessu skattleggja raunverulega eignaaukningu sem orðið hafi á gömlu vöxtunum. Fyrirtæki sem þegar eru skattlögð með þessum skatti hafa aðlagast þessu. Vafalaust velta mörg hver þessum skatti út í verðlagið, en menn eru farnir að reikna með þessu í sínum rekstri og fjárins er þörf fyrir ríkissjóð og þá samneyslu sem hann kostar, þannig að ég stend að samþykkt þessa frv. En vegna þeirrar missmíðar sem ég gat um áðan get ég ekki stutt fram komna brtt. á þskj. 324. Þessi skattheimta beinist ekki nógu markvisst að því sem raunverulega var upphaf hennar, þ.e. að skattleggja verðbólgugróðann sem menn öfluðu sér fyrr á árum.