17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

192. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal hafa mál mitt örstutt vegna þess að fyrirvari minn er í raun og veru einungis ítrekun á því sem fram kom í máli hv. frsm.

Ég tel að það sé afar nauðsynlegt að tryggja að heildarframlögin til þessara mála verði ekki lægri en fjárlög 1984 gerðu ráð fyrir. Ég get verið efnislega sammála frv. að öðru leyti. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að festa það hverju má verja í þessu skyni, þ.e. til sjúkra- og hjúkrunarstofnana, enda hafa þær breytingar, sem hafa verið gerðar á undanförnum árum og hv. frsm. minntist á, vissulega verið til komnar vegna B-álmu Borgarspítalans. Það er auðvitað mikið hagsmunamál okkar hér í Reykjavík að það fé, sem til hennar hefur runnið, verði nýtt eingöngu í þágu aldraðra og að reynt verði að ljúka við þá byggingu. Ég hefði þess vegna viljað fara fram á það við forseta, ég er kannske tortryggnari en aðrir nm., hvort hugsanlegt væri að fresta atkvgr. þessa máls þar til á miðvikudaginn að við höfum fyrir framan okkur brtt. fjvn. Þetta mál er komið úr Ed. og ég sé ekki annað en það ætti að eiga greiða leið í gegnum deildina þó að afgreiðsla biði til miðvikudags.