17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

191. mál, almannatryggingar

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 331 er nál. heilbr.- og trn. Nd. um lagabreytingar er varða sjúkratryggingagjald. Hér er ekki um að ræða efnisbreytingu, heldur er orðalag till. eins og í núgildandi lögum. Það er gert ráð fyrir því, í samræmi við frv. til fjárl., að á næsta ári verði lagt á sjúkratryggingagjald með sama hætti og gert var á grundvelli laga nr. 80 frá 1983.

Á yfirstandandi ári nam álagningin 142 millj. kr. Innheimtan er áætluð 125 millj. kr. Á næsta ári er áætlað að álagningin nemi 170 millj. kr. og innheimtan 150 millj. Með þessu frv. er gengið út frá því að skattbyrði vegna sjúkratryggingagjalds verði óbreytt hlutfall af tekjum gjaldenda á greiðsluári milli áranna 1984 og 1985, en Þjóðhagsstofnun hefur reiknað, eins og kunnugt er, með því að tekjubreytingar á milli þessara ára verði, eins og á milli áranna 1983 og 1984, 25%.

Nefndin stendur öll að nál. og mælir með því að frv. verði samþykkt. Undir þetta rita, auk frsm., hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Ólafur G. Einarsson og Guðrún Helgadóttir. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins, en er samþykkur frv.