17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

5. mál, útvarpslög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. frv. til útvarpslaga. Þetta frv. var lagt fram á seinasta þingi og sent út til umsagnar en því miður voru tímamörk sett það knöpp að sumir aðilar litu þá á tímamörkin sem nokkurs konar tilkynningu um að ekki væri ætlast til þess að þeir skiptu sér af málinu. M.a. af þeirri ástæðu er nauðsyn í dag að senda þetta frv. til útvarpslaga til umsagnar með eðlilegum tímamörkum þannig að við fáum inn til menntmn. þær athugasemdir eða hugmyndir sem menn hafa á þessu sviði.

Ég tel það sjálfgefið að frv. til útvarpslaga verði tekið til afgreiðslu á því þingi sem nú er. Hins vegar þykir mér gæta nokkuð mikillar bjartsýni þegar gert er ráð fyrir að ný útvarpslög taki gildi, eins og hér er gert ráð fyrir, 1. nóvember.

Það sérstæða við umræðuna í dag er það að dunið hefur á þjóðinni áróður um frjálst útvarp. Frumvarp um frjálst útvarp hefur ekki verið flutt, það er ekki flutt hér. Þetta er leyfisveitingaútvarp sem hér er á dagskrá. Kannske er það enn athyglisverðara að samt sem áður dynur áróðurinn um frjálst útvarp.

Nú er það svo að varast ber í þessu sambandi að rugla saman tækjabúnaði til að koma töluðu máli frá einum aðila til annars og tjáningarfrelsi. En mér sýnist að þessi hugtakaruglingur sé í algleymingi. Tækið getur hvorki verið frjálst né ófrjálst frekar en bifreið sem ekur eftir veginum. Hún er hvorki frjáls né ófrjáls. Það hugtak nær einfaldlega ekki yfir hana. Ef það væri frjáls bifreið þá segi ég eins og er að ég mundi forða mér af veginum hið snarasta og telja að það væri háski stór að vera þar á ferðinni því að ég hefði ekki hugmynd um eftir hvaða reglum hún ætlaði að fara. En þó að þessi ruglingur hafi átt sér stað þá breytir hann engu um hitt atriðið að tjáningarfrelsi er grundvallaratriði í lýðfrjálsu landi og tjáningarfrelsi þurfum við að efla. Það er vissulega rétt. En tjáningarfrelsi verður líka að fylgja ábyrgð eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Reykv.

Þegar við víkjum að tjáningarfrelsinu hljótum við að hugsa okkur tækjabúnaðinn sem þjónustuútbúnað fyrir tjáningarfrelsið. Þar eru vissulega ýmsir valkostir fyrir hendi. Það er hugsanlegt til að auka tjáningarfrelsi að veita félögum og öðrum aðilum sem áhuga hafa afnot af tæknibúnaði útvarpsins, t.d Rásar 2, og auka þannig tjáningarfrelsi. Það er ekkert sem mælir gegn því að slíkt sé gert og ákveðinn tími á hverjum sólarhring notaður í þessu skyni. Tæknibúnaðurinn er til staðar og hví skyldum við ekki hugsa um að nýta hann?

Aftur á móti blasir það við að um leið og við viljum auka tjáningarfrelsið viljum við ekki kippa stoðunum undan Ríkisútvarpinu. Það þarf að geta gegnt því menningarhlutverki sem það hefur gegnt á undanförnum árum. Íslenska ríkisútvarpið er að mínu viti mjög merk menningarstofnun. Það hefur stuðlað að því að sameina Íslendinga í eina þjóð, það hefur stuðlað að því að móta eitt tungutak hjá þjóðinni. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að allur almenningur í landinu vill að Ríkisútvarpið haldi áfram að gegna sínu mikla menningarhlutverki. En allur almenningur í landinu þarf líka að hafa það tryggt að þau afnotagjöld sem hann þarf að greiða fyrir þessa þjónustu séu innan þeirra marka að allir geti notið þjónustunnar. Og þar komum við að þessum stóru spurningum um fjármuni til að gera hlutina. Við höfum t.d lagt á Ríkisútvarpið miklar skyldur vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands — og til að fyrirbyggja allan misskilning er ég ekki að deila á Sinfóníuhljómsveitina þegar ég segi þetta. Og fyrsta spurningin frá mér til menntmrh. er sú: Er hæstv. menntmrh. reiðubúinn að tryggja að þær fjárhagsskuldbindingar, sem Ríkisútvarpið situr með vegna Sinfóníuhljómsveitarinnar, verði af Ríkisútvarpinu teknar?

Eitt atriði þessara laga víkur að heimild í 4. gr. á þann veg að útvarpsstöðvar sem hafa fengið leyfi til frjálsrar útsendingar megi afla fjár með auglýsingum. Þarna komum við að því sviði sem sjálfstæðismenn eru nánast sérfræðingar á, þ.e. markaðinum. Hvaða áhrif hefur þetta á auglýsingamarkaðinn? Það er að vísu fyrirheit um það að útvarpsréttarnefnd skuli auglýsa auglýsingataxta og hafa visst eftirlit, en, vel að merkja, er þetta ekki hið landsfræga verðlagseftirlit sem menn segja að alltaf sé hægt að fara í kringum? Er ekki hægt að fresta því að rukka inn þessi gjöld? Er ekki hægt að gefa afslátt? Hvernig hugsa menn sér þetta? Liggur það ekki nokkuð ljóst fyrir að hinn frjálsi markaður muni að sjálfsögðu stjórna þessari verðlagningu en ekki einhver útvarpsréttarnefnd? Hún mun vissulega að nafninu til vera þarna með hönd á plógnum. En hvenær gerðist það að menn töldu að svona verðlagseftirlit gæti stjórnað markaðnum? Frá því að ég hóf afskipti af stjórnmálum hefur Sjálfstfl. talið að það gengi bara alls ekki upp, markaðurinn réði sér sjálfur.

Þó að ég viðurkenni að vissa stjórnun sé hægt að framkvæma þá efa ég satt best að segja að þetta gengi nokkurn tíma upp. Það væru komnar stöðvar sem þyrftu að sækja um leyfi til að taka þetta gjald fyrir auglýsingu og þetta gjald fyrir aðra auglýsingu. Ef það gengi alls ekki að fara þá leið að fá viðráðanlegt gjald fyrir auglýsinguna þá er það spurning hvort stór fyrirtæki væru þá sátt við það að sem bónus upp á auglýsinguna væri viðtal við forstjórann í fréttatíma útvarpsins eða að útvarpsmennirnir færu á vinnustaðinn og hefðu tal af sölustjórum og kynntu fyrirtækið. Hvað er auglýsing? Það eru mjög margir möguleikar til að fara í kringum þetta kerfi. Þess vegna er það einn af þeim ásteytingarsteinum sem hafa verið í þessari umræðu, þ.e. hvernig er hægt að tryggja það að tekjur Ríkisútvarpsins haldist þannig að menningarhlutverk þess verði hið sama og áður án þess að hækka afnotagjöldin? Helst þyrfti það að aukast.

Ég tel að það ákvæði í 3. gr. að sveitarstjórnir á svæðunum skuli mæla með veitingu leyfis sé ákaflega óraunhæfur texti. Hvaða sveitarstjórnir ættu að mæla með því ef sett yrði upp útvarp í Flatey? Slíkt útvarp mundi trúlega ná til alls Breiðafjarðar. Þyrfti það að vera sveitarstjórn í Flatey eða allar sveitarstjórnir? Segjum að reisa ætti útvarpsstöð á Seltjarnarnesi. Þyrftu þeir að eiga það undir Reykvíkingum eða Kópavogsbúum? Ég sé ekki að sveitarstjórnunum komi þetta nokkurn skapaðan hlut við. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að tjáningarfrelsi á Íslandi eigi að byggjast á því hvort sveitarstjórnir vilji hafa tjáningarfrelsi í sínu byggðarlagi eða ekki. Hvenær varð það stefna hér á landi að við skyldum hafa misjöfn lög eða misjafnt tjáningarfrelsi í landinu eftir því hvaða álit sveitarstjórnir hefðu á slíkum hlutum? Hafa þær ekki ærið nóg á sinni könnu þó að þær fari ekki að stjórna tjáningarfrelsinu? Mér finnst að þarna sé komið að máli sem við hljótum að verða að skoða þegar við afgreiðum frv. til l. um útvarp.

Ég hef aftur á móti verið þeirrar skoðunar að kapalkerfi, eða boðvæðing, eins og stundum er talað um, hljóti á mjög mörgum sviðum að geta haft hagnýtt menningargildi eins og hv. 5. þm. Reykv. gat um þegar hann talaði um skólasjónvarp og þá miklu möguleika sem sköpuðust á upplýsingaöld við að hagnýta sér þessa tækni.

En er einhver glóra í því að láta kannske 50 aðila fara af stað og grafa upp götur í einu bæjarfélagi? Jón Jónsson byrjar á morgun, Pétur Pétursson næsta daginn, svo kemur þriðji aðilinn og allir eru að grafa. Þetta var einu sinni þannig hjá Reykjavíkurborg að rafveitan, hitaveitan og síminn, allir þessir aðilar fóru af stað, hver á eftir öðrum. Ég man eftir nýmalbikuðum götum sem voru brotnar upp vegna þess að næsti aðili var að fara af stað. Þetta er liðin tíð hér, svona vinnubrögð sjáum við ekki lengur. Það er fullkomið kerfi á þessu. Er ekki skynsamlegt að einn aðili, t.d Póstur og sími eða sveitarfélögin eigi þessa kapla sem settir eru í jörðina? Er orðið svo hart í heimi að við getum ekki náð samkomulagi um t.d að fyrirbyggja að það verði nánast tómstundagaman að grafa upp götur eða gangstéttir í bæjarfélögum á Íslandi á næstu árum?

Ég tel að kaflinn um kapalsjónvörp sé að öðru leyti ekki deiluefni miðað við það að gert er ráð fyrir að þau fari ekki inn á auglýsingamarkaðinn og afli sér tekna með gjaldi af hverju tæki sem nýtur þeirra þjónustu. Auðvitað þurfa þau að fara að almennum lögum og það þarf að setja einhverjar reglur um dagskrá þeirra. En ég er aftur á móti hlynntur því að það verði ekkert ákvæði sem segir að reynt skuli að takmarka það ef menn vilja á annað borð glíma við það að stunda slíkan sjónvarpsrekstur. Mér finnst að það þurfi nánast að hafa almenn ákvæði sem útvarpsréttarmenn skuli setja fram sem grundvallaratriði. Ef menn fullnægja þessum almennu ákvæðum sé ekki hægt að neita einum eða neinum. Nema þá að menn vilji hafa einhverja skoðanakúgun í þessum efnum og setja þetta aðeins fyrir einhverja útvalda. En leyfisveitingar slíkrar nefndar hlytu þá að eiga að fara eftir almennum reglum sem væru á þann veg að hver og einn sem fullnægði þeim ætti rétt á að fá leigða rás.

En eins og ég gat um hérna áðan er ég þeirrar skoðunar að kaplarnir sjálfir eigi tvímælalaust að vera annaðhvort eign Pósts og síma, sem mér sýnist að mörgu leyti vitlegra, eða þá eign sveitarfélaganna sem væri ekki jafngóður valkostur þó hann væri hugsanlegur. Og ástæðurnar fyrir því að sá valkostur er ekki jafngóður eru m.a. sú staðreynd að skipan sveitarfélaganna er vitlaus. Hvaða manni sem kæmi hér á stór-Reykjavíkursvæðið gæti dottið í hug hvar landamæri Kópavogskaupstaðar væru, svo ég nefni dæmi, eða áttað sig á því að Seltjarnarnesið væri ekki hluti af Reykjavík? Það eru nefnilega engin landfræðileg rök fyrir skiptingu sveitarfélaga eins og þau eru í dag. Þess vegna er ýmislegt sem mælir með því að einhver annar aðili eigi þessa kapla og geti tekið tillit til svæðanna sem heildar.

Ég sé aftur á móti ekki neina nauðsyn þess að útvarpsstöðvarnar sjálfar, þ.e. tæknibúnaðurinn, væru í eigu Pósts og síma. Ef sú stefna verður ofan á að leyfa almennt útvarpsrekstur, þá tel ég að þau gætu verið í eigu þeirra sem rækju þau, ég sé ekki að þar sé brýn þörf á öðru.

En ég undirstrika það að ef menn vilja taka tillit til landsins alls í þessum málum, ef menn telja það einhvers virði að reyna að varðveita Ísland sem eina menningarheild þá hlýtur að vera skynsamlegt að láta Ríkisútvarpið fjölga sínum rásum sem ná til landsins alls og leigja svo afnot af rásunum til hinna ýmsu hópa í þjóðfélaginu sem hefðu áhuga á að koma boðskap á framfæri. Ég er ekki að hugsa um þetta sem neina tekjulind heldur að þetta yrði rekið sem næst rekstrarkostnaðarverði.

Ég hygg að öllum sé ljóst að það er mjög misjafnt á hvaða svæðum menn hefðu áhuga á að reka útvarpsstöð. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að þar sem fjölmennið er mest hefðu menn mestan áhuga. En í allri þessari umræðu vil ég taka undir það sem starfsmannafélag Ríkisútvarpsins vekur athygli á í sinni umsögn, það er ekki eins og þetta frumvarp hafi verið hugsað fyrir rúmlega 200 þúsund manna þjóð. Þetta hefði sómt sér vel í milljónasamfélagi. Ég tala nú ekki um hvað það hefði átt vel við í Kína. Og þar komum við að þessu sama, það er spurningin um það hvaða fjármuni höfum við til að setja í hin ýmsu verkefni í þessu samfélagi?

Ég ætla ekki í minni ræðu að fara út í nákvæma umræðu um einstakar greinar í þessu frumvarpi. Það vill svo til að ég fæ tækifæri til að fara yfir frv. í n. og ég treysti því að formaður n. taki sitt hlutverk alvarlega og geri sér grein fyrir því að það verða gæði þeirrar vinnu sem skipta öllu máli en ekki hitt hvort við afgreiðum málið úr n. mánuðinum fyrr eða mánuðinum seinna.

Þetta er vissulega stórmál. Satt best að segja sýnist mér að við Íslendingar höfum ærið margt sem við deilum um þessa dagana og eitt af því sem alþingismönnum beri skylda til sé að reyna að ná friði um svona mál sem fjallar um menningu og tjáningarfrelsi. Sá friður hlýtur að grundvallast á því að við horfum á þjóðarhagsmuni, tjáningarfrelsi fjöldans sem heildar, en ekki tjáningarfrelsi einhverra örfárra útvaldra sem e.t.v. hafa fjármuni fram yfir aðra og telja að þeim sé nauðsyn að koma á framfæri áróðri en ekki raunverulegri menningarstarfsemi.