17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

188. mál, barnabótaauki

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í mínum skilningi er um tvö aðskilin mál að ræða þar sem annars vegar er hversu hár barnabótaauki skuli vera og býst ég við að naumast sé hægt að hugsa sér hann svo háan að einhverjum þætti ekki rétt að bæta þar einhverju við, a.m.k. ef marka má þá venju, sem oft er þegar einhverju er komið á, það ýmsir þykjast sjá brýna þörf á því að við sé bætt, og skal ég ekki neita því að auðvitað vildi maður gjarnan að ríkissjóður hefði ráð á því að stórauka barnabótaauka og ýmislegt annað sem þörf er á að auka og bæta við í þessu þjóðfélagi.

Á hinn bóginn er það allt annað mál hvernig um skattlagningu skuli farið á heimilin. Ég hef alltaf litið svo á að þar skipti mestu máli ráðstöfunartekjur heimilanna í heild þegar upp er staðið. Það held ég að sé kjarni málsins. Ég hef raunar líka oft bent á að það er grundvallaratriði í skattalögum að beinan kostnað við að afla tekna sé rétt að draga frá tekjum, og má auðvitað íhuga það atriði í sambandi við það þegar bæði hjón vinna úti. En ég vil líka á hinn bóginn benda á það þegar við tölum um þann mikla mun sem nú er í skattalögum á skattlagningu hjóna eftir því hvort annað hjóna vinnur fyrir tekjum eða bæði hjónin til jafns. Þá vil ég m.a. benda á að konur sjómanna eiga verr um vik en ýmsar aðrar konur að vinna úti vegna langvarandi fjarveru maka sinna og svo er um ýmsa aðra hópa þar sem störf annars maka krefjast langrar fjarvistar frá heimili.

Ég skal ekki um það ræða frá heimspekilegu sjónarmiði hversu mikinn mun rétt sé að gera í skattalögum á því hvort annað hjóna eða bæði vinna fyrir tekjum, en ég held það sé ekki hægt að fallast á hitt sjónarmiðið, að verið sé að láta í ljós einhverja sérstaka vanþóknun á þeim konum sem vinna úti þó sá munur sé nokkuð minnkaður frá því sem yrði að óbreyttum lögum.

Ég vil að þetta komi fram, herra forseti. Það er víða svo þar sem annar maka vinnur fyrir tekjunum að það getur átt sér þær eðlilegu skýringar að hinn makinn sé lengi fjarverandi eða þá annar makinn sé veikur, öryrki, og geti af einhverjum slíkum ástæðum ekki unnið úti. Í hinn stað vil ég leggja áherslu á að þegar upp er staðið skipta ráðstöfunartekjur heimilisins mestu máli um afkomu þess.