17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

Afgreiðsla þingmála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það var gróflega ofmælt hjá hv. 3. þm. Reykv. að ég hafi lýst því yfir á fundi fjh. og viðskn. að ég vissi ekkert um málið. Ég veit ýmislegt um málið, en kannske ekki allt. (Gripið fram í: Láttu það koma) En á hitt er að líta að þegar málið var afgreitt úr n. vantaði okkur upplýsingar sem réttmætt var að nm. hefðu aðgang að áður en málið kæmi til umr. Það varð að samkomulagi að við sæjum um að þetta mál yrði ekki tekið til umr. í hv. deild fyrr en þessar upplýsingar hefðu borist til nm.

Ég óskaði eftir því að á fundi n., sem haldinn var núna milli sjö og níu, kæmi fulltrúi fjmrn. og hann átti að vera undir það búinn að veita þessar upplýsingar. Því miður hafði hann þær ekki tiltækar allar. Hann upplýsti um suma þætti málsins, en ekki til fullnustu. Því get ég mjög vel tekið undir ósk hv. 3. þm. Reykjv. um að málinu verði frestað þangað til síðar í kvöld og ég skal gera gangskör að því að reyna að afla þeirra tölulega upplýsinga sem hér skortir á. Ég beini því til forseta að hann fresti þessu máli um stund þar til þessar upplýsingar liggja fyrir, en jafnframt vil ég ítreka að það má ekki verða til þess að þetta mál dagi upp því þetta er eitt af þeim verkum sem við þurfum nauðsynlega að vinna fyrir jólaleyfi.