17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

Afgreiðsla þingmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. kom víða við í máli sínu og ræddi einkum um uppsafnaðan söluskatt í sjávarútvegi og greindi frá því að hann hefði aflað nokkurra upplýsinga um það mál. Í fyrsta lagi sagði hv. þm. að þessi söluskattur væri 550 millj. kr. Það er nýjasta talan. Hún var 380 þegar lagt var af stað hér í haust. Svo er hún 450 í söluskattsfrv. og núna er hún komin upp í 550. Hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðurl. e., hváði þegar hann heyrði þessa tölu, 550, því hann hafði aldrei heyrt hana nefnda áður. Ég leyfi mér að segja að mér þykir vaða nokkuð á súðum hjá stjórnarliðinu þar sem þetta rokkar til um svona 100 millj. á klukkutíma fresti. (Gripið fram í: Alltaf er það nú á uppleið.) Og það er alltaf heldur á uppleið og gatið þá stækkandi væntanlega um leið eða hvað? (ÓÞÞ: Sígandi lukka er best.) Sígandi lukka er best, segir hv. þm. Ólafur Þórðarson af glöggu innsæi sínu á efnahagsmálum. Og síðan segir hv. 2. þm. Norðurl. v. að þetta verði nú endurgreitt í gegnum Aflatryggingasjóð eða með öðrum hætti. (PP: Að mestu leyti í gegnum Aflatryggingasjóð.) Já, að mestu leyti í gegnum Aflatryggingasjóðinn. Þá er það væntanlega þannig að greiða á útgerðinni þetta í gegnum Aflatryggingasjóð. En ætli standi til að greiða vinnslunni þetta í gegnum Aflatryggingasjóð líka eða hvernig á hún að fá þessa peninga? Þetta eru auðvitað engar upplýsingar, sem fram koma hérna hjá hv. þm. Páli Péturssyni og alveg vitagagnslausar í málinu og bendir auðvitað til þess, eins og fleira sem ríkisstj. hefur verið að reyna að leggja hérna fram síðustu dagana, að menn viti ekki nákvæmlega hvort milljónirnar eru 100, 200 eða 300, enda sýnist mér að menn láti sér það í léttu rúmi liggja eins og annað sem snertir tilveru þessarar ríkisstj.

Það er náttúrlega algjörlega óeðlilegt að afgreiða þetta söluskattsmál með þeim hætti sem ríkisstj. leggur til. En hennar er skömmin og stjórnarmeirihl. hér. Við höfum gert tilraun til þess í stjórnarandstöðunni að draga fram upplýsingar sem mættu verða til þess að málið yrði afgreitt með eðlilegum hætti. Stjórnarliðið hefur ekki komið til móts við óskir okkar og situr þannig uppi með skömmina af þessari afgreiðslu. Það verður að hafa það, ef stjórnarmeirihl. vill bæta þessum krossi ofan á önnur heiðursmerki sem hann hefur prýtt sig síðustu sólarhringana.

Málið á eftir að fara til Ed., þetta er 2. umr., trúi ég, í fyrri deild, og við hljótum að leggja á það mjög mikla áherslu að betri upplýsingar liggi fyrir því að þó að stjórnarliðið láti sér það í léttu rúmi liggja hvernig mál eru afgreidd hér tel ég að það sé m.a. ein af höfuðskyldum stjórnarandstöðunnar að tryggja að við framgang mála sé Alþingi ekki eins og færibandaverksmiðja handa ríkisstj., heldur sé krafist upplýsinga um hlutina. Og það verður gert. Fyrst það ekki næst við þessa umr. verður það gert á síðari stigum málsins.