17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

5. mál, útvarpslög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Fæstum blandast hugur um þýðingu fjölmiðla í nútímasamfélagi. Almennur þekkingarforði ræðst sífellt meira af starfsemi fjölmiðla og þeir gegna æ stærra hlutverki í skoðanamyndun og félagsmótun almennings. Auk þessa eru fjölmiðlar mikilvægur miðill menningar, listsköpunar og afþreyingar. Fjölmiðlar eru því áhrifavaldar á öllum sviðum þjóðfélagsins. Tæknibyltingin, sem átt hefur sér stað í dreifingu útvarpsefnis, hljóðvarps og sjónvarps, hefur skapað mikla möguleika til móttöku erlends efnis. Það má aldrei verða stefna Íslendinga að nota tæknina tækninnar vegna og verða þannig þrælar hennar, heldur ber að taka tæknina í þjónustu íslenskrar menningar. Ef opnað er fyrir allar gáttir gefur auga leið að íslenskri menningu og tungu er hætta búin.

Ríkisútvarpið hefur verið öflugasta menningartæki landsmanna og hefur lögum skv. miklar menningarlegar skyldur. Menning kostar peninga, en gildi hennar er ómetanlegt. Það er hagur allra landsmanna að menning og tunga þjóðarinnar sé varðveitt. Hætt er við því að enginn einn aðili annar en Ríkisútvarpið sjái hagsmuni sína fyrst og fremst í því að miðla og efla íslenska menningu í öllum sínum fjölbreytileika fyrir alla landsmenn í senn.

Samræmd fjölmiðla- og menningarstefna hefur afgerandi þýðingu fyrir okkur sem þjóð og einstaklinga og því ber að skoða fjölmiðlaþróun frá þjóðfélagslegu sjónarmiði þegar sett eru útvarpslög.

Menningar- og fjölmiðlastefna Íslendinga hlýtur að byggja á lýðræðislegum grunni. Á undanförnum misserum og einkum síðustu dagana hefur mikið verið rætt um frelsi og lýðræði í útvarpsmálum. Því hefur verið haldið fram að frelsi fælist í ótakmarkaðri uppsetningu útvarpsstöðva og ótakmarkaðri móttöku útvarpsefnis. En slíkt „frelsi“ samræmist ekki endilega lýðræði. Útvarpsrekstur er fjárfrekt fyrirtæki og hætt er við því að aðeins þeir sem fjármagn hafa eigi þess kost að setja á stofn og reka útvarpsstöðvar. Lýðræði fjármagnsins er ekki það lýðræði sem stjórnarskráin kveður á um og stuðlar ekki að tjáningarfrelsi einstaklinganna.

Í stefnuskrá samtaka um kvennalista er tekinn sérstaklega fram stuðningur við þá hugmynd að einkarétti Ríkisútvarpsins til að útvarpa verði viðhaldið. Þó er nauðsynlegt vegna örrar tækniþróunar og nánast byltingar í upplýsingamiðlun að endurskoða núgildandi útvarpslög og aðlaga þau breyttum möguleikum og breyttum kröfum. Nauðsynlegt er því að nógur tími gefist til efnislegrar umfjöllunar um þetta mál því að það er vissulega bæði flókið og mjög mikilvægt. Nauðsynlegt er einnig að sem flestar hugmyndir komist að til að móta þær ákvarðanir sem endanlega verða teknar hér á Alþingi um útvarpsmál. Samtök um kvennalista munu því leggja fram mjög bráðlega á þessu þingi frv. um lýðfrjálst útvarp þar sem fram koma nýjar hugmyndir um rekstur Ríkisútvarpsins.

Þessar hugmyndir byggjast fyrst og fremst á valddreifingu, en valddreifing er grundvöllur að hugmyndafræði Kvennalistans. Þessar valddreifingarhugmyndir tryggja aðgang notenda að þátttöku og mótun útvarps innan ramma laganna og gera því útvarpið að frjálsu útvarpi, lýðfrjálsu útvarpi.

Íslenskt þjóðfélag svo og flest svokölluð þróuð ríki vesturs og austurs byggja á sama grunni, þ.e. valdakerfi fulltrúalýðræðisins, hvort heldur um er að ræða fulltrúa eins eða fleiri stjórnmálaflokka eða fulltrúa félagasamtaka. Í hugum fólks býður þetta fyrirkomulag upp á eins mikið réttlæti og raunsætt þykir að fara fram á í samfélagi manna. En þrátt fyrir það hefur þetta valdakerfi augljósa annmarka. Menn kjósa fulltrúa til að annast mál sín á öllum sviðum og afsala sér um leið möguleika til að hafa áhrif á líf sitt og nánasta umhverfi. Afleiðing þessa kerfis er að allur þorri manna er gerður óvirkur og jafnvel afskiptalaus um samfélag sitt. Þetta á við alls staðar í þjóðfélaginu. Með aukinni valddreifingu er þó ekki einungis hægt að vinna gegn þessari óvirkni og afskiptaleysi, heldur er hún jafnframt undirstaða sanngjarnari þjóðfélagsskipunar en við búum við nú og ber því að stefna að framkvæmd hennar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Herra forseti. Ég mun að öðru leyti geyma mér frekari efnislega umr. um þetta mál þar til frv. um lýðfrjálst útvarp hefur verið lagt fram. En mig langar til þess að taka það fram að Samtök um kvennalista eiga engan fulltrúa í menntmn. Nd. og því fer ég fram á það að fulltrúi okkar fái áheyrnaraðild að nefndinni þegar fjallað verður um þetta frv. og önnur því skyld.