17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. iðnrh.

Ég hef margítrekað tekið fram að ég vildi mjög gjarnan mega treysta því að yfirlýsing hæstv. iðnrh. stæðist. En því er verr og miður að það hefur ítrekað gerst að þær standast ekki — og ekki bara í þessu máli því að ekki er nóg að þær stæðust í einu máli. Yfirlýsingar hæstv. iðnrh. þurfa að standa í öllum málum og klikki þær í einu hefur maður ástæðu til að ætla að þær geti líka gert það í öðru. Það er það sem hefur gerst. Hæstv. iðnrh. segir hér: Útlistun í grg. er sama og túlkun á lögum. — Af hverju má þá ekki hafa þetta í frv. sjálfu, hæstv. ráðh.? Hvað kom í veg fyrir það? Hver er ástæða þess? Er sú ástæðan að hæstv. fjmrh. átti ekki hlut að máli? Hæstv. iðnrh. gaf í skyn að hæstv. fjmrh. þyrfti að öðlast hlutdeild í málatilbúnaðinum til þess að líkur yrðu á því að málið næði fram að ganga í þeim farvegi sem hæstv. iðnrh. er um að tala.

Ef útlistunin í grg. er túlkun á væntanlegum lögum vildi ég mjög gjarnan óska eftir því við hv. iðnn., sem væntanlega fær þetta mál, að hún setji þetta inn í frv., þannig að ótvírætt sé hvað verið er að tala um. Ekki ætti það að vera neitt verra fyrir hæstv. iðnrh. eða ríkisstj. að málið sé á hreinu að því leytinu til að ekki þurfi að leita til grg. til að finna túlkun á því hvað á að gera skv. væntanlegum lögum.

Þó ég ætli ekki að fara að taka undir með hv. 5. þm. Austurl. held ég eigi að síður að ýmiss konar bögglingur hafi átt sér stað í þessu máli. Ég held að augljóst sé að málið er nú komið hér í frumvarpsformi eins og það nú liggur fyrir vegna þess að engin samstaða náðist í ríkisstj. um hugmyndir hæstv. iðnrh. og þær yfirlýsingar sem hann hefur margítrekað gefið. Ég veit ekki hver stoppaði það, en orð hæstv. iðnrh. hér áðan á þá leið að hæstv. fjmrh. þyrfti að fá beinni aðild að nefndinni hljóta að vekja upp ýmsar vangaveltur um hvar þetta kunni að hafa strandað. En engar fullyrðingar læt ég í ljós. Þær verða að koma annars staðar frá.

Hæstv. iðnrh. brá á leik og sagði að ég og hv. 5. þm. Austurl. hvorki heyrðum né sæjum. Þá er mikið sagt að því er mig varðar a.m.k. Ég svara ekki fyrir hv. 5. þm. Austurl. Hæstv. ráðh. vitnaði til yfirlýsingar sem hann hefði lesið í lok ræðu sinnar. Ég heyrði hana, hæstv. iðnrh. En hvað segir þessi yfirlýsing? Við skulum fara yfir hana í rólegheitum. Ég fékk plaggið lánað hjá hæstv. ráðh. Það er dags. 12. des. 1984:

„Með tilvísun til fyrri yfirlýsinga um afnám verðjöfnunargjalds af raforkusölu og að fyrir fjárhag þeirra fyrirtækja, sem þess hafa notið, verði séð með öðrum hætti lýsir ríkisstj. því yfir að hún mun leggja fyrir Alþingi í síðasta lagi haustið 1985 frv. tillaga sem ræður þeim málum til lykta.“

Nú skulum við gera því skóna að þessi yfirlýsing stæðist, þó að ég á engan hátt hafi enn sem komið er fengið fullvissu þar um. En þetta þýðir þó að meginhlutann af árinu 1985 verða raforkusölufyrirtækin tvö fyrir ákveðnum tekjumissi. Því er ekki gerandi skóna samkvæmt þessari yfirlýsingu að hún gildi fyrr en á haustmánuðum árið 1985, en þá á að leggja fram frv. Allt næsta ár, þó svo að þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. stæðist, sem ég er ekki búinn að sjá, verða þessi tvö raforkusölufyrirtæki án þeirra 3% sem hér er gerð till. um að lækka verðjöfnunargjaldið um. Ég hygg að þetta sé mönnum ljóst, hæstv. iðnrh. líka. Og hver segir að þessi yfirlýsing standi? Ég hef a.m.k. allt til þessa staðið í þeirri meiningu að hæstv. iðnrh. væri að gefa sínar yfirlýsingar út í nafni ríkisstj. og þær mundu standast. Sjá menn í frv. að svo sé? Ég held ekki. Þrátt fyrir að ég af fullum vilja, velvilja m.a.s. sem mér er mikið af gefið, vildi taka þessa yfirlýsingu trúanlega, þá er ekkert sem færir mér heim sanninn um það í ljósi fenginnar reynslu að hún standist, og þó hún stæðist verður megnið af árinu 1985 liðið þá þannig að þessi raforkusölufyrirtæki hafa tapað tekjum af þeim 3% sem hér eru felld niður.

Þetta er alveg ljóst og þessu getur enginn mótmælt að ég hygg. (Iðnrh.: Hvernig verður því mætt?) Hvað segir hæstv. iðnrh.? (Iðnrh.: Hvernig verður því mætt?) Það er einmitt spurningin, hvernig verður því mætt. Um það fást engin svör. (Iðnrh.: Jú.) Jæja. (Iðnrh.: Nú hefur hv. þm. slegið á sig heyrnarleysi rétt einu sinni.) Ekki aldeilis. (Gripið fram í.) Ég var að vitna til prentaðrar yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. las fyrir hönd hæstv. ríkisstj., þar sem segir af mesta velvilja sem hægt er að hugsa sér í garð hæstv. ríkisstj. varðandi túlkun á þessu, að leggja eigi fram frv. á haustdögum 1985 um þessa hluti. 16% verðjöfnunargjaldið verður í gildi a.m.k. þangað til búið er að breyta einhvern veginn öðruvísi og það verður ekki samkvæmt þessari yfirlýsingu fyrr en haustið 1985 í fyrsta lagi. Þetta hygg ég að hæstv. iðnrh. sé ljóst svo oft sem hann hefur vitnað til þessarar yfirlýsingar og hana lesið. Því spyr ég enn og aftur: Hvað ætlar hæstv. iðnrh. að gera fyrir þessi tvö fyrirtæki meginhlutann af árinu 1985 til þess að bæta þeim upp þann tekjumissi sem þau verða fyrir vegna þessarar lækkunar? (Iðnrh.: Ég þuldi þetta áðan.) Það er ekki nóg að þylja. Það stendur hérna. Ég er búinn að lesa þetta margoft. En þetta svarar ekki spurningunni. Hér er um að ræða, þó að þessi yfirlýsing stæðist, heilt ár sem þessi fyrirtæki tapa tekjum vegna þessarar lækkunar. Það er ekkert um það hvenær eða á hvern hátt séð verði fyrir þessu.

Nú er ég búinn að tala allt of lengi í þessu máli, en það er sök hæstv. iðnrh. Hann ætti ekki að haga sér með slíkum hætti í umræðum og orðavali eins og hann hefur gert í kvöld. En ég ítreka: Það er lágmark, ef það sem í grg. stendur á að vera lögskýringin á framkvæmdinni, að setja það inn í frv. og lögfesta það þannig að það fari ekkert milli mála. Ég óska eftir því að sú hv. n. sem málið fær til umfjöllunar taki þetta úr grg. og setji það inn í frv. í brtt.-formi, þannig að það sé ekkert um að villast hver ætlan hæstv. iðnrh. er í málinu.