17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

235. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Háskóla Íslands. Þetta frv. hefur verið afgreitt ágreiningslaust í gegnum hv. Ed. eftir að þar var gerð á frv. lítils háttar breyting sem varðaði heimild til stofnunar þróunarfyrirtækis á vegum Háskólans.

Í frv. eru fyrst og fremst tvær aðalbreytingar. Annars vegar sú sem um getur í 1. gr. og felur það í sér að verkfræði- og raunvísindadeild skiptist í tvær deildir ef frv. verður að lögum.

Í öðru lagi vil ég nefna það sem felst í 2. gr. þar sem komið er til móts við þá hugmynd háskólaráðs að mönnum sé auðveldað að flytjast í prófessorsembætti. Sú hugmynd sem hér um ræðir er að forstöðumaður háskólastofnunar geti orðið fluttur í prófessorsembætti skv. svipuðum ákvæðum og annars gilda um það þegar lektor flyst í dósentsembætti.

Mikilvægasta breyting frv. felst í 5. gr. þess, þar sem getið er um að Háskólanum skuli heimilt með samþykki háskólaráðs og ráðh. að eiga aðild að sameignarfélögum, hlutafélögum og sjálfseignarstofnunum sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi eða framleiðslu og sölu tengda slíkri starfsemi. Þessar hugmyndir, og raunar sú sem um getur í 4. gr. og er staðfesting á framkvæmd, allar þessar hugmyndir byggjast á tillögum háskólaráðs. Menn hafa fyrst og fremst í huga þann tilgang með þessu frv. að tengja Háskólann betur atvinnulífinu og með beinni hætti en nú er að auðvelda mönnum að nýta þá þekkingu sem Háskólinn og menn hans búa yfir, sömuleiðis þá aðstöðu sem stofnanir hans hafa, og líka það að auka verkefni fyrir unga menn með nýja þekkingu, sem flytjast til landsins, allt á þann veg að það efli atvinnulíf okkar og auki verðmæti framleiðsluvara landsins, sérstaklega hráefnanna, og geri yfir höfuð þann varning, sem hér er framleiddur, betur samkeppnishæfan á erlendum mörkuðum.

Við, sem að þessu frv. stöndum, teljum líka að það muni gera Háskólann enn lífrænni stofnun, ef svo má segja, að veita þessi beinu tengsl við atvinnulífið og það hljóti að verða honum sjálfum til góðs um leið og það verður atvinnulífinu til góðs.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og vonast til að málið fái þar jafngreiðan gang og það fékk í Ed.